Mánudagur 19.08.2013 - 18:29 - 8 ummæli

Gunnar Bragi í gapastokknum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra situr nú í gapastokknum eftir að Árni Páll Árnason beindi að honum fáeinum spurningum um stöðu aðildarviðræðna að Evrópusambandinu!

Ekki vegna þess hvaða skoðanir Gunnar Bragi hefur á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þær hafa alla tíð verið skýrar. Hann vill bara alls ekki ganga í Evrópusambandið og vill gera allt til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Ekki vegna þess að Gunnar Bragi gangi gegn stefnu eigin flokks í Evrópumálum nú eins og hann gerði sem þingmaður 2009 – 2011 þegar stefna Framsóknarsflokksins var að ganga til aðildarviðræðna og að þjóðin tæki ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Því stefna Framsóknarflokksins frá því 2013 er skýr:

“ Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Ekki vegna þess að Gunnar Bragi túlkar stefnuna um að „Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“  þannig að það þurfi ekkert að halda þjóðaratkvæðagreiðslu – heldur að ef flokkurinn ætli að taka þátt í því að ganga lengra í aðildarviðræðum þá verði fyrst að halda þjóðaratkvæðagreiðslu – sem reyndar var ekki skilningur þúsunda kjósenda Framsóknarflokksins sem hélt að slíka þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að halda og það við fyrsta tækifæri.

Nei.

Gunnar Bragi er í gapastokknum vegna þess að spurningar Árna Páls undirstrika að mikill vafi leikur á að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi haft lögformlegt umboð til þess að stöðva aðildarviðræður að Evrópusambandinu á þann hátt sem Gunnar Bragi hefur gert að eigin sögn – og viðbrögð Evrópusambandsins með afturköllun hinna mikilvægu IPA styrkja virðist staðfesta.

Staða Gunnars Braga er því ekki góð – nema meðal heittrúuðustu andstæðinga aðildarumsóknar Íslands að ESB.

Því þangað til annað kemur í ljós þá virðist Gunnar Bragi annað hvort hafa farið langt út fyrir valdheimildir sínar sem utanríkisráðherra og er í klípu þess vegna – eða þá að hann segir ekki rétt frá því hver eiginlega staða aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu er.

En eins og á öldum áður þar sem gapastokksdvöl þeirra sem þar sátu vegna skoðanna sinna gat styrkt baráttuanda þeirra sem voru sama sinnis – þá er hætt við að gapastokksdvölin styrki stöðu Gunnars Braga meðal þeirra sem eru honum sama sinnis í hatrammri baráttu gegn aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Þannig að þótt Árni Páll hafi komið Gunnari Braga í gapastokkinn þar sem hluti almúgans mun hæðast að honum – þá er Gunnari Braga að líkindum alveg sama. Og hatrömm barátta Gunnars Braga gegn því að þjóðin fái að taka afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli aðildarsamings mun væntanlega einungis harðna í kjölfarið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Haukur Kristinsson

    Ekki aðeins Gunnar Bragi og flónið hún Vigdís sitja í gapastokknum, öll ríkistjórn silfurskeiðunganna gerir það.
    Aldrei fyrr hafa aðrir eins glópar og ignorantar skipað stjórn landsins. Maður er jafnvel farinn að sakna stútanna Dabba og Dóra. Já, lengi getur vont versnað.
    Annars er þetta að verða alvarlegt mál. Stjórn landins er í höndum total vanhæfra sauða úr röðum framsjallanna og það á mjög erfiðum tímum.

    Og þetta kaus meirihluti innbyggjara!

  • Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar varðandi ESB:
    „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.”
    Stefnan er því skýr. Hlé gert á viðræðum, horft til þess hvernig mál munu þróast innan Evrópusambandsins og því aðeins verði viðræðum haldið áfram að meirihluti þjóðarinnar sé því hlynntur. Engar tímasetningar.
    Utanríkisráðherra hefur í málflutningi sínum verið stefnu ríkisstjórnarinnar í meginatriðum trúr og hefur formaður utanríkismálanefndar tekið undir það. Hins vegar hefur utanríkisráðherra verið á köflum óþægilega málglaður og ofnotað frasann: Mín persónulega skoðun. Málflutningur af því tagi er ekki við hæfi. Hann hefur stefnu ríkisstjórnar að styðjast við.
    Aðalatriðið er, að ríkisstjórnarflokkarnir stilli saman strengi sína í ESB málinu og komi því á þann stað sem samstaða er um samkvæmt stjórnarsáttmála þ.e. í biðstöðu um ótilgreindan tíma. Aðkallandi innanlandsmál bíða úrlausnar og mörg loforð að uppfylla og óþolandi fyrir ríkisstjórnina að standa mánuðum saman í orðaskaki um Evrópusambandið við fréttamenn RUV og heittrúaða Evrópusinna á borð við Björn Val Gíslason og Árna Þór Sigurðsson. Og hjá meirihluta þjóðarinnar skorar þessi síbylja um ESB ekki hátt; það eru önnur mál sem að hennar mati eru meir aðkallandi.
    Og sá ágæti maður Árni Páll Árnason hefur hvorki þrek né getu til þess að koma nokkrum manni í gapastokk; Til þess vantar hann styrk og samhent bakland.

  • Ekki í esb til þess ma að verja íslenskan landbúnað og hinar eitruðu afurðir sem Íslenskur landbúnaður skilar til neytenda á okurverði, en í boði eru mun ódýrari og miklu betri og fjölbreyttari matvæli frá Evrópu sem framsóknarflokkurinn og sjallaflokkurinn vilja hindra að berist til Íslands, þessari þjóð skal halda í höftum um ókomna tíð og notaðir þjóðrembufrasar eins og ísland best í heimi, þegar raunin er Ísland verst í heimi….
    Valdið er í Skagafirði, alþingi aumur milliliður……..

  • Snæbjörn

    Ég skil bara ekki af hverju þetta getur ekki farið í gegnum þingið? Er ekki þingmeirihluti fyrir því að slíta aðildarviðræðum? Hvað er þá málið? Af hverju þarf ríkisstjórnin að brjóta lög.

  • Það er rétt hjá nafna mínum að Gunnar Bragi er í ekki góðum málum. Valdhroki ráðherrans er mikill og ekki til eftirbreytni. Ráðherran hefur algjörlega hundsað vald Alþingis í ESB málinu. Ég hélt að nóg væri komið af yfirgangi ráðherra gagnvart Alþingi. Við þetta bætist að ráherran virðist ekki hafa neina stefnu í utanríkismálum, er það stefna að leggja sérstaka áherslu á Norðurslóðir? Norðurslóðir verða ekki slitnar úr samhengi við önnur samskipti við erlendar þjóðir, þær þjóðir vill Gunnar Bragi helst ekki tala.
    Það er sárt að sjá að núverandi ríkistjórn virðist ekki átta sig á því að efnahagsmál á Íslandi eru samofin utanríkismálum. Hér verður ekki vöxtur nema með auknu samstarfi við aðrar þjóðir, sérstaklega Evrópuþjóðir.

  • Skiljið þið ekki þessir ESB trúboðar þjóðin vill ekki þessa vitleysu punktur málið dautt Gunnar Bragi talar í þjóðarvilja þá að Samfylkingarstöðin(RÚV)segi annað.

  • hverjir búa aftur á slóðunum fyrir norðan Ísland? engir á að giska. hver er þá þessi norðurslóðastefna? Pólferð? Voru Norðmenn og rússar ekki á undan okkur þangað. ja svona hérum bil allir. hver tekur mark á utanríkisráðherra sem ætlar á norðurskautið? Íslendingar. Varla.

  • Hallur Magnússon

    Gunnar Bragi losaði sig snyrtilega úr gapastokknum með svörum sínum við spurningum Árna Páls.

    Kjarni málsins er að það hefur verið gert hlé á viðræðum – og aðildarumsóknin því enn á símum stað.

    Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/23/umsoknin_hefur_ekki_verid_afturkollud/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur