Mánudagur 07.07.2014 - 20:58 - 4 ummæli

Hjarðhugsun og danska leiðin!

Flest stærstu mannlegu slys mannkynssögunnar hafa verið vegna hjarðhugsunar (groupthink) .  Við Íslendingar höfum fengið okkar skerf af slíkum mistökum. Nú virðist enn eitt hjarðhugsunarslysið í uppsiglingu. Það er hin „frábæra“ leið í fjármögnun húsnæðiskerfisins – hin guðdómlega „danska leið“ sem forseti ASÍ lagði til fyrir einhverjum misserum síðan og margir hafa mært síðan. En enginn kannað í kjölinn.

Ég benti á veikleika þeirrar leiðar fyrir margt löngu síðan – en að venju vildi enginn hlusta. Ég bað auðmjúklega menn um að kanna í kjölinn ákveðin atriði sem væru veikleikar þeirrar leiðar fyrir okkur Íslendinga. Það virðist sem enginn hafi viljað skoðað veikleikana en eftir því sem tíminn hefur liðið þá eru fleiri og fleiri í klappliðinu. „Danska leiðin“ er guðdómleg og mun bjarga íslenskum húsnæðismálum – segir hjörðin.

En eins og svo oft hefur hjörðin rangt fyrir sér.

Danska kerfið byggir á jafnvægi milli inn og útgreiðslna. Svona eins og í húsbréfakerfinu sem skilaði okkur lengst af 6% – 9% raunvöxtum – vöxtum umfram verðbólgu. Kerfi þar sem fólk fékk lánaða verðtryggða milljón sem þurfti að borga verðtryggt með 5,1% vöxtum í allt að 40 ár – en milljónin var bara 910 þúsund – 940 þúsund króna virði í fasteignaviðskiptum.

En aðstæður til þess að endurfjármögnun gangi munu ekki verða til í íslensku „dönsku kerfi“ að óbreyttu.

Grundvöllur þess að danska kerfið getur gengið í Danmörku nútímans er tvíþættur.

Annars vegar að skuldabréfaflokkarnir séu það stórir að tryggt sé að þeir séu viðskiptahæfir hvenær sem er.  Hver skuldabréfaflokkur þarf að vera að lágmarki því sem samsvarar  um 70 milljónir evra  að stærð. Það samsvarar um 110 milljörðum íslenskra króna.

Hins vegar þurfa skuldabréfaflokkarnir í „danska keffinu“  að vera viðskiptahæfir í hagkerfi sem er margfalt stærri en það íslenska. Reyndar stærra en danska hagkerfið.

Ástæða þess að „danska kerfið“ gengur í Danmörku er nefnilega tvíþætt. Og báðir þættirnir eru því miður ekki til staðar á Íslandi.

Í fyrsta lagi eru skuldabréfaflokkarnir í Danmörku miklu stærri en 110 milljarðar ISK. Ef „danska kerfið“ verður tekið upp á Íslandi þá mun hver skuldabréfaflokkur einungis verða brot af þeirri stærð.

Í öðru lagi þá er danska efnahagssvæðið hluti af evrusvæðinu. Danska krónan er beintengd evrunni þannig að fjármögnunarsvæði „danska kerfisins“ er ekki einungis Danmörg heldur Evrópusambandssvæðið í heild sinni. Enda eru það þýskir fjárfestar sem eru stærstir í fjármögnun „danska kerfinu“.

Ísland er ekki hluti af myntsvæði Evrópu. Reyndar geta til dæmis Þjóverjar yfir höfuð ekki fjárfest í nýju íslensku „dönsku kerfi“ vegna gjaldeyrishafta og ónýtrar krónu.

„Danska kerfið“ er  því dauðadæmt á Íslandi við óbreyttar aðstæður. Ef það verður innleitt þá munu húsnæðisvextir óhjákvæmilega stórhækka og raunvextir mögulega verða hærri en þegar þeir voru hæstir í húsbréfakerfinu þegar þeir fóru yfir 9%. Þá erumv ið að tala um 9% vxtir umfram veðbólgu. … og einhver heldur að óverðtryggð lán muni hafa lægri raunvexti í „danska kerfinu“ þá er það misskilningur. Raunvextir munu að líkindum verða mun hærri en verðtryggðir vextir sem nemur „verðbólguáhættuálagi“. En það er annað mál.

En að venju munu Íslendingar ekki hlusta á viðvörunarorð – og munu að líkindum ekki einu sinni reyna að skoða hvort ég hef rétt fyrir mér. Ekki í þessu frekar en í fyrri tillögum í húsnæðismálum sem hefðu leitt til þess – ef menn hefðu hlustað – að íslenskur húsnæðismarkaður væru ekki eins galinn og hann er í dag. … enda er é ekki í hjörðinni.

Spái því að hjarðhugsunin og „danska leiðin“ verði ofaná. Sem mun þýða skelfilega tíma fyrir íslenskan almenning – hvort sem hann mun fjárfesta í eigin húsnæði eða leigja húsnæði sem fjármagnað verður með hinni guðdómlegu „dönsku leið“.

Og því miður verður það aðgöngumiðið að enn einu hruninu  íslensku efnahagslífi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Marinó G. Njálsson

    Það er svo merkilegt, að þegar Hagsmunasamtök heimilanna nefndu fyrst að gott væri að sækja fyrirmynd til Danmerkur, þá vorum við eingöngu að tala um afurðirnar sem standa til boða, þ.e. lágvaxta húsnæðislán. Aldrei var verið að tala um fjármögnun kerfisins eða rekstrarfyrirkomulag.

    Ég hef margoft bent á, að húsnæðislánakerfi með miklum stöðugleika er það eina sem tryggir lánveitendum þá ávöxtun sem þeir þurfa. Í hvert sinn sem óstöðugleiki verður, þá tapa lánveitendur stórum upphæðum. Það græðir nefnilega enginn á því að fjármálafyrirtæki þurfi að taka yfir eignir. Það græðir enginn á vanskilum lántaka, dýru innheimtu ferli, nauðungarsölum, o.s.frv. Lánveitendur hagnast mest þegar lántaka geta staðið í skilum.

    Mér er nákvæmlega sama hvernig húsnæðislán eru fjármögnuð af lánveitendum. Ég vil sjá lága vexti, sem haldast lágir ALLAN lánstímann.

  • Kristinn Þór Jakobsson

    Rakst á þýðingu á enska hugtakinu „groupthink“. Mér var hugað til pólitískrar umræðu og afstöðu þegar ég skoðaði skilgreiningu á þessu hugtaki og síðan íslenskri þýðingu þess. Groupthink er í stuttu máli þegar innan hóps verður einræða sem skapar óhóflega bjartsýni og hvata til áhættusækni, eða óbilandi trú myndast á siðferði hópsins sem veldur því einstakir meðlimir hans hunsa afleiðingar aðgerða sinna. Oft er beinn þrýstingur á meðlimi sem efast, til að samræma álit slíkir félagar eru taldir ótryggir. Varðmenn hugans – sjálfskipaðir meðlimir – verja hópinn ágreinandi upplýsingum. Íslensk þýðing enska hugtaksins „groupthink“ er SAMHEIMSKA.

  • Hallur Magnússon

    Kristinn. Í stjórnunarnámi mínu var „hjarðhugsun“ íslenska þýðingin á enska hugtakinu „groupthink“.

    Marínó, Sú leið sem ASÍ kynnti mun því miður alls ekki leiða til lágra vaxta allan lánstímann – þvert á móti mun leiðin að likindum leiða til mun hærri raunvaxta en við búum við í dag.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Hallur :

    Ekki er ég neinn sérstakur talsmaður Dönsku leiðarinnar, það er ekki víst að hún gangi upp á Íslandi.

    En hversu guðdómleg er Íslenska leiðin í húsnæðismálum ?

    Leigumarkaðurinn er í daglegu tali kallaður „Villta vestrið“, það æ erfiðara fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkaðinn, ‘ILS sagður tæknilega gjaldþrota, bólumyndun á eignamarkaði sökum hafta, osfrv, osfrv,

    Ef Danska leiðin er ómöguleg, ert þú þá með betri tillögu til lausnar á núverandi húsnæðiskreppu á Íslandi ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur