Fimmtudagur 18.06.2015 - 13:29 - 1 ummæli

„Vér mótmælum allir“

„Vér mótmælum allir“ er táknmynd breiðrar samstöðu íslensku þjóðarinnar. Það sem er svo dásamlegt og merkilegt við það að þingheimur allur stóð upp í kjölfar ræðu Jóns Sigurðssonar, þar sem Jón mótmælti því sem hann taldi lögleysu konungsfulltrúa á þjóðfundinum sumarið 1851 þegar Trampe greifi fulltrúi konungs sleit þjóðfundinum þegar útséð var að þjóðfundurinn myndi fella frumvarp dönsku ríkissstjórnarinnar um innlimun Íslands í Danmörku,  og sögðu flestir í einu hljóði „Vér mótmælum allir“ .

Síðan þá hafa allskonar hópar frá hægri til vinstri reynt að samsama sig þessum atburði og reynt að yfirfæra ræðu Jóns og viðbrögð allra þingfulltrúa yfir á sínar eigin pólitísku gjörðir.  En eðli málsins vegna eru slíkar tilraunir hjóm eitt. Því yfirleitt eru þeir sem reyna að sýna sjálfa sig í þessu ljósi hópur fólks með skoðanir sem einungis endurspegla hluta íslensku þjóðarinnar. Og eftir því sem hópurinn er minni virðist hann oftar nota „þjóðin“ í orðræðu sinni.

Reyndar svo allrar sanngirni sé gætt þá voru fulltrúar á þjóðfundinum kannske ekki fulltrúar alls almúgans heldur fulltrúar íslenskrar yfirstéttar og menntastéttar. En þó ákveðin birtingarmynd þjóðarinnar.

„Og ég mótmæli í nafni konúngsins og þjóðarinnar þessari aðferð, og eg áskil þínginu rétt til að klaga til konúngs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi“ sagði Jón Sigurðsson á þjóðfundinum

Samkvæmt fundargerð Alþingis risu þá upp þingmenn og sögðu flestir í einu hljóði:

„Vér mótmælum allir“

Það er einmitt þetta „Vér mótmælum ALLIR“ sem gerir atburðinn sérstakan.

Sambærileg mótmæli „þjóðarinnar“ hafa ekki verið algeng í Íslandssögunni síðan þá

Svo má einni hafa í huga eftirfarandi úr fundargerð þjóðfundarins 9. ágúst 1851:

„Á meðan þessu fór fram, forðuðust þeur Konúngsfulltrúinn og forseti út úr þíng-salnum, en er þeir voru komnir út, kallaði einn þíngmanna: Lengi lifi konúngur vor, Friðrekur hinn sjøundi! og tóku þingmenn undir í einu hljóði.  Síðan var gengið af fundi“.

Mér virðist seint verða slík samheldni á Alþingi Íslendinga – og reyndar í samfélaginu í heild. Því miður.

Því kannske eru Íslendingar bara eins og Káinn lýsti þeim svo snilldarlega og Egill Helgason rifjaði svo ágætlega upp í pistli sínum í dag:

Þetta er ekki þjóðrækni

og þaðan af síður guðrækni

heldur íslensk heiftrækni

og helvítis bölvuð langrækni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • „Vér mótmælum allir“, sögðu sárafáir vinstri andófsmenn á Austurvelli og vanhelguðu með trommuslætti og öskrum stund sem flestir Íslendingar meta mikils og halda í heiðri.
    Og það þarf ekki doktorsgráðu í sálfræði til þess að greina orsök og afleiðingar sálarkreppu vinstri aflanna um þessar mundir. Orsökina er að finna í einum manni, Sigmundi Davíð forsætisráðherra. Það mætti ætla, að Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn væri hinn eini sanni höfuðandstæðingur og þangað væri spjótum beint en svo er ekki. Í aðgerðabók vinstri manna er Sjálfstæðisflokkurinn flokkaður sem stofnun sem á 25-30% fylgi á hverju sem gengur í pólitíkinni og því borin von að herja á hann á leið til valda.
    Spjótin beinast því að Sigmundi Davíð sem hefur lagt nokkra steina í götu vinstri aflanna og valdið þeim sálarangist og svo djúpstæðri reiði að með ólíkindum er og finnast ekki mörg dæmi um annað eins í íslenskri pólitík.
    Það fyrst, að hann leiddi Framsóknarflokkinn til stórsigurs í síðustu Alþingiskosningum og skildi vinstri flokkana eftir í rjúkandi rústum. Auðvitað munu sagnfræðingar meta þau úrslit útfrá óvinsældum vinstri stjórnarinnar, aðgerðarleysi hennar og vanmætti á flestum sviðum en áhangendur þeirrar stjórnar kaupa ekki þá skýringu. Sigmundur Davíð var orsökin með allan sinn popúlisma og loforð. Og sálarkreppan dýpkar enn á vinstri vængnum. Sem forsætisráðherra hefur hann í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn fylgt loforðunum eftir af einurð. Leiðrétting húsnæðislána, afnám hafta á næsta leiti með aðferðafræði sem flestir mæra auk annarra mála sem horfa til framfara og í farvatninu bíða merk mál sem hrinda á í framkvæmd á næstu tveimur árum.
    Þetta skynja vinstri menn og ekkert óttast þeir meir en framfarir í þágu þjóðarheildarinnar undir forystu Sigmundar Davíðs. Þess vegna er nú öllu tjaldað til sem nýta má í baráttunni. Illkvittnustu pennar í þeim ranni eru kallaðir til verka og dagskipunin: Farið í manninn; svertið persónu hans með öllum þeim verstu fúkyrðum sem finnast í íslenskum orðabókum, ljúgið ef með þarf og látið góðan skammt af útúrsnúningum fylgja með. Aðgerðarsveit ungra vinstri grænna er virkjuð og vopnabúrið uppfært og 17. júní, þjóðhátíðardagur landsmanna orðinn leiksoppur ungliðanna með blessun síns ástsæla formanns og engu eirt sem hingað til hefur verið landsmönnum kært og í hávegum haft. Aðferðafræðin er ofbeldi og yfirgangur þar sem lýðræðið er fótum troðið. Það finnast rétttrúnaðarsellur af þessu tagi í útlöndum en sem betur fer sjaldnast langlífar og svo mun einnig fara á Íslandi. 17. júní 2015 verður minnst fyrir tvennt. Algert skipbrot mótmælendanna og hins vegar aðdáunarverða stillingu forsetans, forsætisráðherra, fjallkonunnar og ekki síst yfirvegun unga fólksins sem með söng og heiðursverði ljáði samkomunni á Austurvelli fallegan svip. Þau voru sigurvegarar dagsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur