Föstudagur 12.02.2016 - 08:15 - 3 ummæli

Leiðtoginn Árni Páll Árnason

Á augabragði er Árni Páll Árnason orðinn sterkur leiðtogi Samfylkingarinnar.  Vopn andstæðinga hans innan Samfylkingarinnar hafa snúist í höndum þeirra.  Þeir hafa áður lyft kutann á loft nánast úr launsátri en Árni Páll stóð þá árás af sér af naumindum.

Í þetta skiptið tók leiðtoginn Árni Páll Árnason af skarið með því að draga fram í dagsljósið þá drauga sem Samfylkingin og Árni Páll hafa þurft að kljást við frá Jóhönnutimanum og kvað þá niður. Nú er ekki aftur snúið. Samfylkingin og stuðningsmenn hennar verða að ræða mistök fortíðar, gera fortíðina upp. Viðurkenna mistök sín fyrir þjóðinni, en jafnframt standa með stolti á grunni þess jákvæða sem Samfylkingin hefur náð fram í íslensku samfélagi.

Árni Páll sem fram að þessu hefur ekki náð að hrista af sér drauga fortíðar. Drauga sem voru honum til trafala í Alþingiskosningunum þar sem fugfjaðrirnar voru nánast klipptar af honum.  Árni Páll þurfti að heyja orrustu sem formaður í ríkisstjórnarflokki þar sem fráfarandi formaður stýrði sökkvandi skipi í strand í stað þess að láta hinum nýja formanni eftir stjórnvölinn.

Árni Páll hefur nú af auðmýkt hrist af sér þessa fortíðardrauga með opinskáu bréfi til flokksmanna sinna og tekið skref til framtíðar sem sýnir að hann hefur það sem þarf til þess að leiða stjórnmálaflokk upp úr öldudalnum.

Nú er valið flokksmanna hans. Ætla þeir að standa að baki þeim sem frá upphafi hafa gert sitt til að leggja stein í götu formannsins vegna þess að Samfylkingarfólk valdi „rangan“ formannsframbjóðanda í fjölmennri, lýðræðislegri kosningu og reynt a nýta sér tæknilega glufu í lagaverki flokksins til að koma formanninum frá.  Eða ætla þeir að standa að baki leiðtoganum sem nú hefur stigið fram og sýnt að hann er öflugur leiðtogi sem hefur og getur breytt samræðu Samfylkingarinnar við fólkið í landinu og þannig komið Samfylkingunni á réttan kjöl.

Framtíð tilraunarinnar Samfylkinginn er undir. Á 100 ára árstíð Alþýðuflokks Íslands …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ég held að það sé ekki rétt að Árni Páll stígi nú fram sem „sterkur leiðtogi“ eftir að hafa hreinskilnislega viðurkennt opinberlega að ekki einasta hafi afglöp Samfylkingarinnar verið legíó heldur hafi flokkurinn nánast unnið gegn hagsmunum almennings í mörgum veigamiklum málum.

    Það er ansi magnað af formanni stjórnmálaflokks að láta svona út úr sér, en líkast til var þetta hans síðasta mögulega útspil hvort eð er. Fyrstu viðbrögð samflokksmanna hans virðast einnig ætla að einkennast af afneitun á ábyrgð flokksins og reiði út í Árna fyrir að vera að vekja máls á þessum fortíðardraugum í stað þess að láta sem ekkert sé og „horfa fram á veginn“. Strútar, allt saman, með höfuðin í sandinum.

    Þessi flokksgarmur er sjálfsagt í andarslitrunum, og miðað við játningar formannssins þá ætti landslýður allur að fagna því.

  • Ég er mjög sammála því sem Birgir segir hér að ofan.

    Auðvitað verður ekkert uppgjör innan þessa hryllilega flokks.

    Þar er hvorki vilji né geta til staðar.

    Og auðvitað geta menn ekki horfst í augu við það að galinn leiðtogi eyðilagði flokkinn.

  • Góð greining, ég er hinsvegar á annarri niðurstöðu, að þetta sé e-ð sem varð og gat bara komið frá formanni flokks sem er komin í léttvínsfylgi með flokkinn sinn.
    Þetta sem Árni skrifar um er e-ð sem þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum vissu af. Auðvitað vann Jóhönnnu stjórnin á móti mörgum skuldurum, Árni sjálfur gerði lítið í frægum Drómamálum, á meðan þeir sem skulduðu sem mest og áttu dýrar eignir „græddu“ á Umboðsmanni skuldara og hans úrræðum.
    Eins með stjórnarskránna, það var svakalegt voðaskot.
    Mér er það til efs að þetta sé nóg að gert. Líklega þarf flokkurinn , sem ég kaus eitt sinn, að taka önnur 4 ár í útlegð áður en trúverðugleiki getur hafist.

    Ég upplifi þetta bréf svona eins og þegar ég átti að taka til í herberginu mínu 14 ára, varð að gera það, nennti því ekki og sá þá best bara að fela draslið og sópa undir mottuna öllu rykinu.
    En mamma, hún fattaði þetta seinna, þegar hún þurfti að þrífa mottuna.
    Sem einmitt þarf að gera núna, þrífa mottuna eftir núverandi ríkisstjórn, þá koma fleiri rykhaugar í ljós 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur