Föstudagur 11.03.2016 - 23:43 - 3 ummæli

Framsókn hætt sem flugvallarvinur?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur nú bent á hið augljósa. Uppbygging framtíðar Landspítala við innilokaða Hringbraut er bull.  Það á að sjálfsögðu að byggja upp sjúkrahús allra landsmanna frá grunni á nýjum hentugum stað. Það er einfaldasta ig fljótlegasta leiðin. Það hefur verið ljóst um áratuga skeið.

Hringbrautin og Borgarspítalinn – þar sem hefði átt að byggja upp þjóðarsjúkrahús á sínum tíma en kosturinn markvisst eyðilagður með byggingu íbúðahúsnæðis vestan Eyrarlands – geta verið í fullum rekstri þar til flutt er inn í glænýjan nútíma spítala. Hugmyndin um uppbyggingu við Hringbraut er eins og að byggja upp alla kaffihúsamenningu á Kaffi Mokka …

En með hugmyndinni um að byggja framtíðar þjóðarsjúkrahús við Vífilstaði – er forsætisráðherrann ekki að slá nagla í líkkistu Reykjavíkurflugvallar?

Með flutningi þjóðarsjúkrahússins er miklu fljótlegra að flytja bráðasjúkinga sem koma með sjúkraflugi utan af landi frá Keflavík með hagkvæmri þyrlu en að potast í gamaldags sjúkrabíl gegnum föstudagsumferðina úr Vatnsmýrinni í jaðar Heiðmerkur…

Hvað segja „flugvallarvinir“ við þessu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • „Sigmundur forsætisráðherra hefur bent á það augljósa. Uppbygging Landspítala við innilokaða Hringbraut er bull“. Það má vel vera rétt, að staðarvalið við Hringbraut sé misráðið og hafa annmarkarnir orðið augljósari með árunum eða frá því að ákvarðanir um staðsetningu við Hringbraut voru teknar. Nægir að nefna þróunina í miðborginni. Þar rísa hótelbyggingarnar hver af annarri. Veitingahús spretta upp eins og gorkúlur. Hver auður reitur ofnýttur í þéttingu byggðar, tveir háskólar auk annarrar mannfrekrar atvinnustarfsemi og ef draumar núverandi meirihluta borgarstjórnar rætast um lokun flugvallarins og í framhaldi af því hótelbyggingar og a.m.k. 20 þúsund manna íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni má öllum vera ljóst að uppbygging Landspítala við Hringbraut er fráleit. Nú þegar er umferðaþunginn um stofnæðir inn í miðborgina gríðarlegur og á álagstímum umferðarteppa sem borgarbúar þekkja mætavel. Umferðarálag á þessum stofnbrautum mun margfaldast á komandi árum og aðkoma að Landspítala við Hringbraut verður með öllu óviðunandi. Fleiri rök hníga að uppbyggingu Landspítala á öðrum stað en bara er tekur til umferðarþáttarins og verða ekki ekki rakin hér.
    Forstjóri Landspítalans reiddist útspili bæjarstjórans í Garðabæ um Vífilsstaði og undirtektum forsætisráðherra og voru það eðlileg viðbrögð frá hans sjónarhóli. Hann óttast umfram allt tafir á verkefni sem þolir enga bið. Þess vegna er það röng aðferð hjá forsætisráðherra að vera sífellt með vangaveltur um nýja staðsetningu Landspítala og láta svo þar við sitja. Með því ruglar hann aðeins umræðuna. Ef einhver alvara er á bak við vangavelturnar á forsætisráðherra að beita sér fyrir alvöruviðræðum um nýja staðsetningu, hraða staðarvali, færa gild rök fyrir staðarvalinu og sannfæra síðan heilbrigðisstéttirnar um að ný staðsetning muni ekki tefja framkvæmdir við uppbyggingu nýs Landspítala. Síðan verður forsætisráðherra að ná samstöðu um málið í ríkisstjórn og á Alþingi og það verður líklega erfiðasti hjallinn.
    Ef hann treystir sér ekki til þess að fara í þá vegferð með þetta áhugamál sitt, er betra að hafa bara hægt um sig og leyfa sprengingunum við Hringbraut að hafa sinn gang.
    Hitt er víst og hefur margkomið fram, að sjónarmið forsætisráðherra hafa sterkan hljómgrunn í samfélaginu en eins og fyrri daginn er eitt að tala og hugsa, annað að fylgja málum eftir og framkvæma.

  • Takk fyrir að benda á þetta Hallur. Ljóst má vera að þessi æðubunugangsmálflutningur Flugvallavina eða hvað þetta flokksbrot vill kalla sig er tapað stríð. Flugvöllur í Vatnsmýri fer, einungis spurning hvort það verður 2022 eða 2030. Orrustan um títt nefnda „neyðarbraut“ eða flugbraut 06/24 sem málsmetandi fólk vill nefna hana heldur er greinilega notuð sem skraut í baráttunni til að fá fólkið til að kaupa málstaðinn, enda komið í ljós að hringt var út fréttamaður í hvert sinnið þegar talið var líkleg að flugvél með sjúkling í pöntuðum sjúkraflutningi sem engin var neyðin. Ekki ætla ég mér að að fullyrða að flugmenn hafi lent til þess eins að sýnast og tryggja ákveðnum fréttastjóra frétt það kvöldið en flimtingar um slíkt hafa flogið um. Ef rýnt er í Rögnuskýrslu má sjá að allir skráðið sjúkraflutningar á tímabilinu 2012 til 2014 voru ekki skilgreindir í forgangi þegar lent var með þá og þeir komnir í sjúkrabíla hjá Slökkviliði Höfuðborgasvæðisins. Enda má einungis finna í téðri skýslu einungis tvö tilfelli þar sem sjúklingur var ekki búnn að vera undir læknishöndum í yfir 1 1/2 tíma, þannig að ekki er það neyðin sem vísar á að téður flugvöllur þurfi að vera það sem hann er núna. Þannig að það ekki nema von að sjálfur foringi flugmálavina og sjálfur forstjóri Icelandair séu komnir á aðra skoðun með flugvallamálin frá því sem áður var.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Það er einkennilegt að snúa umræðu um hentuga staðsetningu fyrir aðalsjúkrahús landsins upp á flugvallarvini og beinlínis ómerkilegt að kasta hnútum í þá sem sinna sjúkraflutningum í lofti.
    Hver svo sem staðsetning nýs sjúkrahúss verður, þá liggur í augum uppi að velferð allra sjúklinga verður í hávegum höfð. Vífilsstaðir eru í fjögurra kílómetra fjarlægð frá búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins. Landspítali við Hringbraut er 3,7 kílómetra frá búsetumiðju. Mælt í loftlínu. Akstursleið frá Reykjavíkurflugvelli að Vífilsstöðum er 6,7 km lengri en að LSH Hringbraut, en 5,8 km lengri en að LSH Fossvogi. Allt getur þetta skipt máli fyrir sjúklinga sem koma með sjúkraflugvél, en þarf vitaskuld að skoðast í heildarsamhengi þeirrar þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.
    Vísað er í skýrslu Rögnunefndar um sjúkraflutninga. Sjúklingar í sjúkraflugi með forgangi F1 og F2 eru undir læknishöndum alla leið. Einnig fylgir sjúkraflutningamaður lækni til aðstoðar. Rétt er að allur sjúkraflutningur frá Reykjavíkurflugvelli að LSH er skráður í forgangi F3. Á því er einföld skýring. Það er vitað með nokkuð góðum fyrirvara að sjúkraflugvél er væntanleg. Sjúkrabílar aka því að flugvelli og bíða komu flugvélarinnar. Eingöngu er skráður forgangur frá SHS. Það er ekki sérstök skráning til fyrir flutning frá flugvelli á sjúkrahús og ekki skráð hvort ekið er með forgangi á þeirri leið. Vinnuregla SHS er þó að aka sem minnst með forgangi þar sem forgangsakstur veldur aukinni áhættu í flutningi og honum því haldið í lágmarki.
    Þá er ósköp Innansveitarkronikulegt að gera gælunafn á tiltekinni flugbraut að aðalatriði. Þetta hugtak var fyrst notað um þessa flugbraut árið 1996 af þáverandi forstöðumanni Borgarskipulags. Brautin heitir eftir kompásstefnu 06/24 eftir því í hvaða átt hún er notuð. Brautin er skilgreind í Flugmálahandbók Íslands, sem er alþjóðleg handbók fyrir flugmenn og flugrekstraraðila. Brautin er ein af þremur flugbrautum sem mynda Reykjavíkurflugvöll og er varin af skipulagsreglum fyrir flugvöllinn ásamt hindranaflötum út frá henni, sem lögum samkvæmt má ekki raska. Engin gögn liggja fyrir sem staðfesta að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli reglugerðir sem byggja á alþjóðasáttmála ICAO sem Ísland er aðili að. Eingöngu ráðherra samgöngumála hefur vald til að breyta skipulagsreglum flugvallarins, ekki borgarstjórn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur