Föstudagur 04.11.2016 - 08:36 - 3 ummæli

Sögufölsun Kaupþingsstjóra

Á meðan sumir stjórnendur föllnu bankanna sitja á sakamannabekk og berjast gegn enn einni aðför saksóknara sem þegar hefur komið þeim í fangelsi, hrjúfrar einn lykilstjórnandi Kaupþings sig í nýjum hægindastól hjá verðbréfafyrirtæki og reynir að endurskrifa söguna sér í hag.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur sem var kostaður af Kaupþingi til að reka svokallaða greiningardeild, sem stundum virtist leggja frekar áherslu á að greina stöðuna bönkunum í hag en að gera það hlutlægt og með því styrkja stöðu og verð bankanna, er kominn í hlýjuna að nýju.  Glópagullið dregur.

Ásgeir er nú í yfirstjórn Virðingar og titlaður „efnahagsráðgjafi“. Hann skrifar reglulega um hugleiðingar sínar og stundum reynir hann að verja fortíð sína. Sem er sjálfsagt mál svo fremi sem sú vörn byggi ekki á rangfærslum.

En því miður grípur hann nú til rangfærslna til að réttlæta þá blindu sem glópagullið sló á hann á sínum tíma. Í nýjum pistli segir Ásgeir:

„Það sem skipti þó mestu var að eftir að bankarnir þrír drógu sig til baka hófu samfélagsbankar landsins – íbúðalánajóður og sparisjóðirnir – stórsókn inn á fasteignalánamarkaðinn til þess að endurheimta þá markaðshlutdeild sem hafði tapast til bankanna. Saman veittu þessar samfélags-lánastofnanir gríðarlegu fjármagni til fasteignalána 2007-2008 sem nægði til þess að fóðra húsnæðisbóluna í  1-2 ár til viðbótar.  Þessi sókn skildi síðan eftir ein verstu fasteignalán í nútímasögu landsins sem skattgreiðendur þurftu síðar að súpa seyðið af og lesa má nánar um í tveimur rannsóknarskýrslum Alþingis…“

Þetta er hreinlega rangt hjá Ásgeiri.  Það voru allt að 100% ófjármögnuð fasteignalán bankakerfisins sem skattreiðendur hafa þurft að súpa seyðið af, en ekki lán Íbúðalánasjóðs sem sjaldnast náðu nema í besta falli 60%-70% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis vegna afar lágra hámarksfjárhæða.

Þetta veit Ásgeir þótt hann segi annað sem „efnahagsráðgjafi“ Virðingar.

Viðs skulum kryfja staðhæfingu Ásgeirs um meinta „stórsókn“ Íbúðalánasjóðs inn á fasteignamarkaðinn 2007 og 2008.  Sannleikurinn er sá að íbúðalán Íbúalánasjóðs hélst svipað frá því í ágúst 2004 þegar bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn og sprengdi hann í loft upp sem endaði með hruni og allt fram yfir hrun.  Þetta má sjá á eftirfarandi línuriti sem sýnir íbúðalána banka og Íbúðalánasjóð í íslenskum krónum:

Bankarnir dældu úr fasteignalánum og settu efnahagslífið á hvolf

Heildarfjárhæð íbúðalána ÍLS var á svipuðu róli 2004 og fram yfir hrun. Smellið á myndina til að stækka hana!

Þótt framangreind mynd virðist benda til þess að bankarnir hafi fregið sig út af íbúðalánamarkaðnum í lok árs 2007 eins og Ásgeir er að reyna að gefa í skyn og falsa þannig söguna, þá var það bara alls ekki svo. Þeir fóru bara að lána gengistryggð íbúðalán í staðin. Og ef ég mann rétt þá mælti Ásgeir með töku slíkra lána sem „óháður“ framkvæmdastjóri greiningardeildar Kaupþings.

Menn vita nú hvar gjaldeyrislánin enduðu með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur.
Skoðum þróun gengistryggðra lána bankakerfisins til heimila 2004 til og með 2008. Athugið að gengistryggð íbúðalán voru ekki sérgreind í gögnum bankanna fyrr en um mitt ár 2007, sama tíma og Ásgeir reynir í dag að gefa í skyn að bankarnir hafi dregið sig út af íbúðalánamarkaði. Gengistryggð lán eru gul í grafinu og greinilegt að bankarnir juku verulega slík útlán allt fram að hruni!

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Það sést því hér svart á hvítu að fullyrðingar hins ágæta fræðimanns Ásgeirs Jónssonar sem eðlilega blindaðist af glópagulli bankanna á sínum tíma stenst ekki skoðun. Ég held hann ætti að læra af þeirri reynslu og ekki hætta fræðimannaheiðri sínum með vísvitandi sögufölsunum sem ætlað er að breiða yfir fyrri mistök.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

 • Hallur. Í fyrsta lagi varstu starfsmaður Íbúðarlánasjóðs og því ber að lesa þín skrif á þann hátt. Svo ertu í XB sem er guðfaðir þennan blessaða sjóð.
  Það er staðreynd að skattborgarar hafa hennt hundruði milljarða í þennan sjóð ykkar.
  Þú byrjar greinina á að Ásgeir starfaði fyrir „svokallaði“ greiningardeild og þá sáir þú fræin að því sem eftir kemur.
  Það hefur ekki farið á milli mála að Íbúðarlánasjóður fór mjög glæfralega fram og það hefur verið gefið út heil skýrsla um það málefni.

 • Sigurður

  Bara benda á að Haukur gerir enga efnislega athugasemd við efnið, getur það trúlega ekki.

  Veður þá í manninn frekar en ekkert.

  Bullið sem Ásgeir hefur sent frá sér undanfarið er reyndar svo yfirgengilegt að það er alveg fráleitt að fjölmiðlar skuli enn í dag leita til hans sem hlutlaus fagmanns í hagfræði.

  Þessi maður hefur ekki snefil af trúverðugleika lengur.

 • Þorsteinn Tómas Broddason

  Ein athugasemd við þessa framsetningu. Það er ekki sami kvarðinn á linuritunum tveim, og þessi framsetning gefur þá mynd að gengistryggðu íbúðalánin hafi verið jafn mikil, ef ekki meiri að umfangi en „gömlu, venjulegu“ lánin. Ef eg skil kvarðana rétt þá eru gengistryggðu lánin mest 100 milljónir meðan íbúðalán bankanna voru um 4 milljarðar (40 sinnum meira) rétt áður en bankarnir „drógu“ sig ut af markaðinum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur