Mánudagur 5.12.2016 - 11:33 - 3 ummæli

Gamall draumur um réttlátt þjóðfélag

Það er verið að reyna að mynda ríkisstjórn.  Fyrir nær hálfri öld kom fram á hinum pólitíska vettvangi markmiðsyfirlýsing í fjórtán liðum um uppbyggingu íslensks þjóðfélags. Sú markmiðssetning hefur alla tíð sett mark sitt á mína sýn á þjóðfélagið. Ég gæti enn í dag skrifað undir meginefni allra fjórtán greinanna.

Þessi stefnuyfirlýsing á ekki síður við í dag en fyrir fjórum áratugum síðan. Legg til að stefnuyfirlýsingin verði lögð til grundvallar hjá nýrri ríkisstjórn. Hver sem hún kann að verða.

En markmiðið var að skapa:

1. Þjóðfélag, þar sem jöfnuður og mannleg samhjálp sitja í öndvegi

2. Þjóðfélag, sem tryggir sókn þjóðarinnar til æ fullkomnara og virkara lýðræðis, aukinnar menningar og andlegs sem líkamlegs heilbrigðis allra þegna þjóðfélagsins.

3. Þjóðfélag, þar sem hver einstaklingur getur valið sér eigið lífsform og þroskað hæfileika sína við skilyrði stjórnmálalegs, efnalegs og andlegs frelsis.

4. Þjóðfélag, sem tryggir öllum frelsi frá ótta, skorti og hvers konar efnalegum þvingunum, mismunun og þjóðfélagslegu óréttlæti og hefur réttaröryggi og afkomuöryggi að leiðarljósi.

5. Þjóðfélag, þar sem allir hafa jafnan rétt til menntunar og jafnan möguleika á að njóta allra menningarlegra gæða, sem þjóðfélagið skapar.

6. Þjóðfélag, sem styður að heilbrigðu lífsgæðamati og setur manngildið í öndvegi, en hafnar því gildismati fjármagns og peningavalds, sem þjóðfélag þeirra afla skapar.

7. Þjóðfélag, sem stöðugt sækir fram til aukinnar velmegunnar með skynsamlegri stjórnun og áætlunum um hversu íslenskar auðlindir verði nýttar af mestri fyrirhyggju og atvinnulíf, sem á þeim byggir, verði þróað, án þess að vera að neinu marki byggt upp á fjárfestingu útlendinga.

8. Þjóðfélag, sem missir aldrei sjónar á verndun fegurðar og sérkenna íslenskrar náttúru og rétti allra landsmanna til að njóta þeirra, en hafna skyndigróða, sem síðar gæti spillt verðmætum, sem ekki verða til fjár metin.

9. Þjóðfélag jafnaðar, sem stefnir að útrýmingu hvers konar misréttis milli stétta og milli þegnanna eftir búsetu, en viðurkennir í reynd þjóðfélagslegt mikilvægi allra starfsgreina og jafnar því efnaleg met á milli þeirra.

10. Þjóðfélag frelsis og lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins í kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna, heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.

11. Þjóðfélag, þar sem samfélagið í heild mótar meginstefnuna, en einstaklingarnir njóta ákvörðunarfrelsis að þeim mörkum, að þjóðarheildin bíði ekki tjón af.

12. Þjóðfélag, þar sem réttur skoðanalegs minnihluta er virtur og réttarstaða hans tryggð.

13. Þjóðfélag ábyrgra þegna, sem byggja störf sín á félagslegri samhjálp og samvinnu og stýra í raun þjóðfélagsþróuninni að þeim leiðum, en hafna annars vegar forsjá og stjórn peningavaldsins með eigingirnina að leiðarljósi, og hins vegar alráðu ríkisvaldi.

14. Þjóðfélag, sem setur metnað sinn í að verja, skapa og vernda sjálfstæða íslenska menningu og menningararfleifð, en rækir jafnframt hið mikilvæga hlutverk smáþjóðarinnar á alþjóðavettvangi og tekur heils hugar þátt í hverju því alþjóðlega samstarfi, sem stefnir að lausn þeirra miklu vandamála allra þjóða að tryggja frið í heiminum og brúa gjána, sem nú skilur ríkar þjóðir og snauðar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2016 - 08:36 - 3 ummæli

Sögufölsun Kaupþingsstjóra

Á meðan sumir stjórnendur föllnu bankanna sitja á sakamannabekk og berjast gegn enn einni aðför saksóknara sem þegar hefur komið þeim í fangelsi, hrjúfrar einn lykilstjórnandi Kaupþings sig í nýjum hægindastól hjá verðbréfafyrirtæki og reynir að endurskrifa söguna sér í hag.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur sem var kostaður af Kaupþingi til að reka svokallaða greiningardeild, sem stundum virtist leggja frekar áherslu á að greina stöðuna bönkunum í hag en að gera það hlutlægt og með því styrkja stöðu og verð bankanna, er kominn í hlýjuna að nýju.  Glópagullið dregur.

Ásgeir er nú í yfirstjórn Virðingar og titlaður „efnahagsráðgjafi“. Hann skrifar reglulega um hugleiðingar sínar og stundum reynir hann að verja fortíð sína. Sem er sjálfsagt mál svo fremi sem sú vörn byggi ekki á rangfærslum.

En því miður grípur hann nú til rangfærslna til að réttlæta þá blindu sem glópagullið sló á hann á sínum tíma. Í nýjum pistli segir Ásgeir:

„Það sem skipti þó mestu var að eftir að bankarnir þrír drógu sig til baka hófu samfélagsbankar landsins – íbúðalánajóður og sparisjóðirnir – stórsókn inn á fasteignalánamarkaðinn til þess að endurheimta þá markaðshlutdeild sem hafði tapast til bankanna. Saman veittu þessar samfélags-lánastofnanir gríðarlegu fjármagni til fasteignalána 2007-2008 sem nægði til þess að fóðra húsnæðisbóluna í  1-2 ár til viðbótar.  Þessi sókn skildi síðan eftir ein verstu fasteignalán í nútímasögu landsins sem skattgreiðendur þurftu síðar að súpa seyðið af og lesa má nánar um í tveimur rannsóknarskýrslum Alþingis…“

Þetta er hreinlega rangt hjá Ásgeiri.  Það voru allt að 100% ófjármögnuð fasteignalán bankakerfisins sem skattreiðendur hafa þurft að súpa seyðið af, en ekki lán Íbúðalánasjóðs sem sjaldnast náðu nema í besta falli 60%-70% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis vegna afar lágra hámarksfjárhæða.

Þetta veit Ásgeir þótt hann segi annað sem „efnahagsráðgjafi“ Virðingar.

Viðs skulum kryfja staðhæfingu Ásgeirs um meinta „stórsókn“ Íbúðalánasjóðs inn á fasteignamarkaðinn 2007 og 2008.  Sannleikurinn er sá að íbúðalán Íbúalánasjóðs hélst svipað frá því í ágúst 2004 þegar bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn og sprengdi hann í loft upp sem endaði með hruni og allt fram yfir hrun.  Þetta má sjá á eftirfarandi línuriti sem sýnir íbúðalána banka og Íbúðalánasjóð í íslenskum krónum:

Bankarnir dældu úr fasteignalánum og settu efnahagslífið á hvolf

Heildarfjárhæð íbúðalána ÍLS var á svipuðu róli 2004 og fram yfir hrun. Smellið á myndina til að stækka hana!

Þótt framangreind mynd virðist benda til þess að bankarnir hafi fregið sig út af íbúðalánamarkaðnum í lok árs 2007 eins og Ásgeir er að reyna að gefa í skyn og falsa þannig söguna, þá var það bara alls ekki svo. Þeir fóru bara að lána gengistryggð íbúðalán í staðin. Og ef ég mann rétt þá mælti Ásgeir með töku slíkra lána sem „óháður“ framkvæmdastjóri greiningardeildar Kaupþings.

Menn vita nú hvar gjaldeyrislánin enduðu með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur.
Skoðum þróun gengistryggðra lána bankakerfisins til heimila 2004 til og með 2008. Athugið að gengistryggð íbúðalán voru ekki sérgreind í gögnum bankanna fyrr en um mitt ár 2007, sama tíma og Ásgeir reynir í dag að gefa í skyn að bankarnir hafi dregið sig út af íbúðalánamarkaði. Gengistryggð lán eru gul í grafinu og greinilegt að bankarnir juku verulega slík útlán allt fram að hruni!

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Það sést því hér svart á hvítu að fullyrðingar hins ágæta fræðimanns Ásgeirs Jónssonar sem eðlilega blindaðist af glópagulli bankanna á sínum tíma stenst ekki skoðun. Ég held hann ætti að læra af þeirri reynslu og ekki hætta fræðimannaheiðri sínum með vísvitandi sögufölsunum sem ætlað er að breiða yfir fyrri mistök.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.11.2016 - 12:12 - 2 ummæli

Samfylkingin getur átt framtíð!

Samfylkingin getur átt framtíð.  Oddný Harðardóttir veitti flokknum þá framtíð með þvi að segja af sér. Við tekur nýr maður í landsmálapólitík sem hefur getið sér gott orð í bæjarpólitíkinni á Akureyri. Hann er ekki skaðaður af launsátursvígum, meintum svikum vegna hrunsins og öðrum fortíðarvandamálum Samfylkingarinnar.

Ég vona að efnilegur, nýr leiðtogi Samfylkingarinnar nái að rétta úr kútnum. En ef ekki þá deyr Samfykingin drottni sínum í næstu kosningum. Þá verður bara að hafa það. Það eru fleiri sem geta tekið upp kyndlinn í anda norræns sósíaldemókratisma.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.10.2016 - 15:11 - 5 ummæli

Framsókn klofin í herðar niður (eða flísast úr Framsókn?)

Klofningurinn í Framsóknarflokknum er algjör. Það er að koma í ljós eftir kosningar þar sem Sigmundur Davíð hervæðist í fjölmiðlum. Stuðningsmenn hans margir hafa verið afar harðorðir á samfélagsmiðlunum. Þoldu algerlega ekki að tapa á flokksþingi. Vigdís Hauksdóttir gerir nú opinberlega atlögu beint að kjörnum formanni Sigurði Inga.

Sigurður Ingi mun standa þessa atlögu að sér ef hann vill. Og hann er með þétt lið að baki sér. En þingflokksfundir Framsóknar verða ekki mikils virði eftir það.

Annað hvort mun Framsóknarflokkurinn klofna endanlega eða þá að þessir tveir herramenn verða að yfirgefa sviðið.

Ef það verður niðurstaðan þá liggur lausnin fyrir. Lilja Dögg Alfreðsdóttir tekur við sem formaður og Silja Dögg Gunnarsdóttir tekur við sem varaformaður. Ritari verður áfram Jón Björn Hákonarson.

Þessi klofningur þarf hins vegar ekki að koma í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn taki þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn. Þvert á móti. Fyrir hina flokkana er pólitískt auðveldara gagnvart kjósendum að fá með klofinn Framsóknarflokk án Sigmundar Davíðs en „heilan“ Framsóknarflokk með  SDG innanborðs.

… og meirihlutinn er nægur til að gefa svigrúm fyrir þingmenn til að sitja hjá í málum sem þeir eru ekki alveg sáttir við!

Viðbót:

Hef strax fengið nokkur viðbrögð við þessum pistli þar sem menn staðhæfa að „Klofningur í Framsókn“ sé ofmælt. Sigmundur Davíð standi nú nánast einn. Ég ofmeti styrk hans. Ef það er rétt ætti fyrirsögnin að vera „Flísast úr Framsókn“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.9.2016 - 18:22 - 5 ummæli

Um ósanngirni og traust

„Traust milli al­menn­ings og kjör­inna full­trúa er grunn­for­senda far­sæll­ar stjórn­un­ar. Þegar traustið hverf­ur eða lask­ast, eykst tor­tryggn­in, auk­in tor­tryggni leiðir til auk­ins óróa,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson í færslu á samfélagsmiðli þar sem hann leitast við að skýra hvers vegna hann tók þá erfiðu ákvörðun að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins.  Lengst af sterkum, farsælum og óumdeildum formanni sem á undanförnum mánuðum hefur setið undir harðri gagnrýni og ásökunum vegna mistaka sinna, ásökunum sem að oft á tíðum hafa verið ósanngjarnar og gengið allt of langt.
Því miður skiptir ekki öllu máli af hverju traust laskast. Þegar það hverfur þá hverfur það. Það getur þess vegna verið vegna misskilnings eða rangfærslna. Það er bara svo helvíti erfitt að fá það til baka.
Það er vandinn sem Sigmundur Davíð stendur frammi fyrir. Hver raunverulegur sannleikur er skiptir bara ekki lengur máli hjá almenningi. Traustið er farið hjá þeim kjósendum sem ekki eru því harðari Framsóknarmenn. Sem standa yfirleitt með sinni forystu fram í rauðan dauðann og ekki síst þegar þeim finnst ósanngjarnt að þeim vegið. Og ég veit að það hefur að sumu leiti verið ósanngjarnlega að Önnu Stellu og Sigmundi Davíð vegið.
Hef reyndar setið undir ámælum fyrir að taka upp hanskann fyrir þau þegar árásirnar hafa gengið yfir allan þjófabálk.
Sigmundur Davíð getur fengið óskorað traust meirihuta flokksþings Framsóknarmanna. En því miður fyrir hann er hætt við að hann nái ekki aftur töpuðu trausti almennings. Frekar en aðrir sterkir leiðtogar sem gegnum aldirnar víða um heim hafa upplifað. Hversu ósanngjarnt sem það kann að vera í hugum margra.
Og með töpuðu traustu almennings er Sigmundur Davíð ekki fýsilegur kostur fyrir aðra flokka í stjórnarsamstarf. Hversu góðan stuðning hann hefur innan eigin flokks.
Sem betur fer sagði ég mig úr Framsóknarflokknum 1.desember 2010. Ég hefði ekki viljað þurfa að standa frammi fyrir því vali sem flokksþingsfulltrúar Framsóknarflokksins standa frammi fyrir um helgina.
Annars vegar að fylkja sér á bak við Sigmund Davíð, formanninn sem náð hefur góðum árangri en missteig sig. Gerði vissulega afar afdrifarík mistök með því að segja ekki frá eignarhaldi konu sinnar á aflandsfélagi erlendis og væntanlega mistökum í skráningu á eignarhaldi félagsins þar sem hann var mögulega fyrir mistök skráður eigandi helmingshluts þess félags. Þá skipir engu að sú skráning hafi verið leiðrétt síðar.  Þau mistök í skráningu skipta því miður fyrir Sigmund Davíð engu í hugum almennings sem tapað hefur traustinu.
Hins vegar góðum og gegnum Framsóknarmanni af gamla skólanum sem hefur staðið sig með ótrúlegum sóma við afar erfiðar aðstæður og hefur náð að byggja upp traust í sinn garð hjá samstarfsflokknum, stjórnarandstöðunni og almenningi. Það hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir Sigurð Inga að standa upp og bjóða sig gegn sitjandi formanni. Og hann gerir það ekki af eigin frumkvæði heldur vegna mikils þrýstings fjölmargra Framsóknarmanna sem óttast einangrun flokksins.
Hið erfiða val sem flokksþing Framsóknarflokksins stendur frammi fyrir er það hvort standa skuli að baki formanns sem mögulega er fórnarlamb ósanngjarnra aðstæðna og árása og sýna almenningi að flokkurinn stendur að baki formanni sínum þegar að honum er vegið að þeirra mati.
Eða að velja rótgróinn Framsóknarmann sem tók við stýrinu í ríkisstjórn þegar ágjöfin hafði laskað formanninn um of, varaformanninn sem stýrði skútunni í vör og ávann sér með því traust stórs hluta samflokksmanna sinna, samstarfsmanna úr öðrum flokkum og almennings.
Ef kalt er litið á málið þá stendur val flokksþings Framsóknarflokksins milli klárrar stjórnarandstöðu og mögulegrar einangrunar – sem vissulega getur gefið sóknarfæri til lengri tíma – annars vegar og mögulegrar ríkisstjórnarþátttöku og að minnsta kosti þokkalegum samstarfsgrunni flokksins við aðra flokka á Alþingi á komandi kjörtímabili hins vegar.
Valið er ekki mitt. Sem betur fer. Valið er flokkþings Framsóknarflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2016 - 15:14 - Rita ummæli

Lýðræði og mannréttindi í hættu!

Lýðræðið er ekki sjálfgefið. Grundvallarmannréttindi eru ekki sjálfgefin. Þvert á móti.

Við vitum hvernig einræðisherrar og herforingjaræði var við stjórn fjölda ríkja í Evrópu lungann úr síðustu öld. Fasistar, nasistar og einræðisherrar sem stjórnuðu í nafni kommúnisma.

Sovétríkin með Stalín, Þriðja ríki Þýskalands með Hitler, Ítalía með Mussolini, Spánn með Franco, Portúgal með Salazar, Grikkland með Kondylis, Metaxa og síðar Ioannidis, Pólland millistríðsáranna með Pilsudski og síðar einræðisherrar og leppar Sovétríkjanna, Rúmenía með fasistan Antonescu og síðar leppar Sovétsins og að lokum Ceaușescu. Og svo náttúrlega öll hin löndin á áhrifasvæði Sovétríkjanna eftir síðari heimsstyrjöldina. Balkanskaginn eftir daga Títós.

Það er unnt að telja fleiri!

Og ef við snúum okkur til Rómönsku Ameríku þá voru herforingjastjórnir og einræðisherrar frekar regla en undantekning á 20. öld.

Nú erum við að horfa aftur á sömu þróun.

Erdogan í Tyrklandi.

Við sjáum tilhneygingu í þessa átt í Ungverjalandi og Póllandi sem dæmi.

Pútín er eins og hann er í Rússlandi. Hvíta-Rússland og Úkraína þar sem öfgafullir þjóðernissinnar hafa sett allt í bál og brand.

Það sem verra er.

Bandaríkin með fasistan Trump sem mögulegan forseta.

Lýðræðið og mannréttindin eru ekki sjálfgefin. Og við þurfum að búa okkur undir að verja bæði lýðræðið og mannréttindin.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.7.2016 - 13:53 - 2 ummæli

Samvinnurekstur um heilsugæslu

Sumir eru að fara af saumunum vegna einkarekinna heilsugæslustöðva í Reykjavík. En opinber rekstur í heilbrigðismálum er ekki endilega besta formið í öllum tilfellum. Samvinnurekstrarformið gæti hentað vel um rekstur heilsugæslustöðva. Vandinn er bara sá að löggjafinn hefir markvisst unnið gegn samvinnurekstrarforminu sem mjög oft gæti átt við.

… og áður en þið sem sjáið rautt þegar minnst er á samvinnurekstur farið að missa ykkur í athugasemdakerfinu þá verð ég að minna ykkur á að samvinnurekstrarformið er eitt. SÍS annað …

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.6.2016 - 18:08 - Rita ummæli

Oddný er sigur Viðreisnar!

Oddný Harðardóttir hafði sigur í formannskjöri Samfylkingarinnar. Sá sigur er einnig sigur Viðreisnar og einnig sigur VG. En ósigur Samfylkingarinnar sem stjórnmálaafls en sigur fyrir hugmyndafræði vinstri hluta þeirra ágætu stjórnmálasamtaka!

Ég held við stöndum frammi fyrir nýjum veruleika í íslenskum stjórnmálum með þessari niðurstöðu. Vinstrið styrkist. Og hægri miðjan styrkist. Og Oddný er Auðhumla Viðreisnar!

Það að Samfylkingin hafi valið til vinstri í þessu formannskjöri gerir að að verkum að afar stór hópur hægri krata mun ekki kjósa þau samtök. Þeir munu margir kjósa Viðreisn.

Sigríður Ingibjörg sá um Hara Kiri Samfylkingarinnar með rýtingsstungu í bak fráfarandi formanns Samfylkingarinnar Árna Páls Árnasonar. Hara Kirir sem breytti Samfylkingunni frá mikilvægu pólitísku afli yfir í smáflokk. En kannske gerði Sigríður Brútus það sem gera þurfti! Draga línuna milli vinstrisins og hinnar hófsömu miðju Árna Páls. Lagði grunn fyrir aðskilnaði bins mikilvæga tiltölulega hófsömu vinstris Kötu Jak og hægri kratismans. Allavega þá hafa hægri kratar ekkert lengur neitt sameiginlegt með Samfó.

Og þar liggur sóknarfæri Viðreisnar!

„I told you so“ er soldið klént 🙂  En „I told you so“ er barasta að gerast. Ég byrjaði að spá uppstokkun íslenskra „stéttar“ stjórnmála fyrir áratug eða svo. Og enn einu sinni þá sé ég spádóma mína rætast…  

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2016 - 17:51 - 6 ummæli

Vandræða úthverfið „101 Reykjavík“

Hér á árum áður var Breiðholtið úthverfi. Og í hugum margra „vandræðaúthverfi“. En nú er Breiðholtið löngu hætt að vera úthverfi. Og fjarri því að vera til vandræða. Breiðholtið með Fossvoginum, Smáíbúðahverfinu og Háaleitishverfinu með Kringlumýrina er orðin virk miðja á höfuðborgarsvæðinu.

En hvar liggja úthverfin?

Jú, erfiðustu úthverfin í öllum skilningi eru í póstnúmerum 101 og 107. Afskorin jaðarbyggð.

Á sama hátt og til dæmis hinn ágæti sjávarbær Siglufjörður sem fyrir 100 árum var í alfaraleið og miðju samgangna þar sem samgöngur á Íslandi á þeim tíma voru einungis greiðar á sjó hætti að vera í alfaraleið og bærinn varð skemmtilegur útkjálki með mikla sögu, þá eru póstnúmer 101 og 107 í Reykjavík orðinn útkjálki Reykjavíkur. Með mikla sögu.  Og niðurgreidd störf gegnum stjórnýslu landsins sem var flutt frá Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum 1900 og komst aldrei til fólksins.

Vandræðaúthverfið 101 er hins vegar – ólíkt Siglufirði – með þá stöðu að það eru svo margir stjórnmálamenn og áhrifamenn úr atvinnulífinnu sem námu í tveimur ágætum framhaldsskólum, MR og Verzló, fastir í fortíðinni og gera allt til þess að viðhalda „fyrri stöðu“ þessa erfiða úthverfis í stað þess aðhorfa til heildarinnar. Heildarinnar á höfuðborgarsvæðinu og heildarinnar á Íslandi yfir höfuð.

Þessi fortíðarárátta sem jafna má við rómantíska sýn Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um íslenska „þjóðveldið“ á Þjóðveldisöld, er löngu farin að vera hamlandi fyrir eðlilega þróun bæði höfuðborgarsvæðisins og landsins í heild.

Hvernig væri að ráðamenn í stjórn og stjórnarandstöðu sem aldir eru upp í MR, Verzló og lagadeild HÍ taki hausinn upp úr hlandkoppunum og fari að hugsa um heildina Ísland?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.3.2016 - 23:43 - 3 ummæli

Framsókn hætt sem flugvallarvinur?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur nú bent á hið augljósa. Uppbygging framtíðar Landspítala við innilokaða Hringbraut er bull.  Það á að sjálfsögðu að byggja upp sjúkrahús allra landsmanna frá grunni á nýjum hentugum stað. Það er einfaldasta ig fljótlegasta leiðin. Það hefur verið ljóst um áratuga skeið.

Hringbrautin og Borgarspítalinn – þar sem hefði átt að byggja upp þjóðarsjúkrahús á sínum tíma en kosturinn markvisst eyðilagður með byggingu íbúðahúsnæðis vestan Eyrarlands – geta verið í fullum rekstri þar til flutt er inn í glænýjan nútíma spítala. Hugmyndin um uppbyggingu við Hringbraut er eins og að byggja upp alla kaffihúsamenningu á Kaffi Mokka …

En með hugmyndinni um að byggja framtíðar þjóðarsjúkrahús við Vífilstaði – er forsætisráðherrann ekki að slá nagla í líkkistu Reykjavíkurflugvallar?

Með flutningi þjóðarsjúkrahússins er miklu fljótlegra að flytja bráðasjúkinga sem koma með sjúkraflugi utan af landi frá Keflavík með hagkvæmri þyrlu en að potast í gamaldags sjúkrabíl gegnum föstudagsumferðina úr Vatnsmýrinni í jaðar Heiðmerkur…

Hvað segja „flugvallarvinir“ við þessu?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur