Föstudagur 03.02.2017 - 18:04 - FB ummæli ()

Gamlir draugar komnir á stjá

Sjávarútvegurinn hefur staðið undir lífskjörum og aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina og gerir enn. Breytingar á síðustu árum og áratugum hafa gert útgerðina að öflugri og sókndjarfri atvinnugrein. Sérstaða Íslands er ekki hvað síst fólgin í því að hér er sjávarútvegur ekki niðurgreiddur af almannafé. Sá árangur sem hefur náðst er verulega til eftirbreytni, bæði hér á landi hvað varðar aðrar atvinnugreinar og fyrir sjávarútveg annarra þjóða. Það er ekki tilviljun að þar hefur gjarnan verið leitað til Íslands eftir fyrirmyndum.

Við eigum að vera stolt af þessari sérstöðu og standa vörð um hana. Íslenskt samfélag hefur á undanförum áratugum fært ákveðnar fórnir til að gera sjávarútveginn samkeppnisfæran, sjálfbæran og óháðan beinni ríkisaðstoð. Það væri mikil eftirsjá að þessari sérstöðu. Þess vegna væri óráð að endurvekja gamla drauga og taka útgerðina út fyrir sviga í íslensku atvinnulífi þegar kemur að því að vinnuveitendur og launþegar semja um kaup og kjör.

 Mikilvæg kortlagning á áhrifum verkfallsins

Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að aðilar á vinnumarkaði leysi kjaradeilur sín á milli án inngripa ríkisvaldsins. Opinberlega hafa bæði sjómenn og útvegsmenn tekið undir þetta sjónarmið. Ef marka má ónefnda heimildarmenn Morgunblaðsins er nú komið annað hljóð í strokkinn. Það væri áhugavert að heyra formlega í talsmönnum samningsaðila varðandi það hvort hér hafi átt sér stað stefnubreyting. Ef sú er raunin, hvað veldur? Af hverju er æskilegt að binda enda á verkfall með lagasetningu? Hvernig er rökstutt að það sé samfélagslegt verkefni að niðurgreiða launagreiðslur útgerðarinnar? Eru ekki brýnni verkefni sem bíða?

Verkfallið var orðið mánaðargamalt þegar nýr ráðherra tók við. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setti vinnu í gang við að kortleggja áhrif verkfallsins og hefur kallað eftir tilnefningum í vinnuhóp frá velferðar- og sveitarfélagaráðuneytum, auk Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ASÍ og SA. Úttekt á áhrifum verkfallsins á byggðir, atvinnulíf og þjóðarhag almennt er stjórnvöldum mikilvæg til þess að fá yfirsýn yfir vandann. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að deiluaðilar; sjómenn og útvegsmenn, fái skýra mynd af afleiðingum verkfallsins vegna þess að ábyrgðin á lausn kjaradeilunnar er á þeirra herðum.

Það er merkilegt að sjá þingmann Framsóknarflokksins skjóta á ráðherra sem hefur í embætti sjávarútvegsráðherra í tæpan mánuð. Framsóknarflokkurinn fór með þennan málaflokk í þrjú og hálft ár, en sjómenn hafa verið samningslausir í 6 ár. Er ekki hér verið að kasta steinum úr glerhúsi? Og fyrir forvitni sakir, hverjar eru aðgerðirnar sem þingmaðurinn er að leggja til af hálfu stjórnvalda?

Flokkar: Óflokkað

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Hanna Katrín Friðriksson
Þingmaður Viðreisnar.
RSS straumur: RSS straumur