Fimmtudagur 15.06.2017 - 10:25 - FB ummæli ()

Byssur og sjálfsmynd þjóðar

Sýnileiki vopnaðrar sérsveitar á fjöldasamkomum hér á landi varðar alla Íslendinga. Málið snýst vissulega um þá raunverulegu ógn sem stafar af hryðjuverkum, en ekki síður um sjálfsmynd friðsamrar smáþjóðar. Það er einfaldlega grundvallarbreyting á þeirri sjálfsmynd okkar að hér verði vopnaðir sérsveitarmenn sýnilegir á fjöldasamkomum í stað þess að vera með vopnin tiltæk í bílum sínum eins og verið hefur. Yfirmenn lögreglunnar hafa fært rök fyrir þeirri breytingu, það er þeirra hlutverk. Ég er hins vegar ekki sátt við að það sé þeirra að ákveða einhliða og án umræðu slíka byltingu á íslensku samfélagi.

Ég vil upplýsta umræðu um þessi mál. Slíkt hlýtur að vera mögulegt án þess að þjóðaröryggi sé ógnað. Hvernig er greiningarvinnunni háttað hér? Hvernig hefur vopnaburður lögreglu þróast í þeim löndum sem við berum okkur alla jafna saman við? Hver hafa áhrifin verið, lærdómurinn sem dreginn er af? Hvaða önnur úrræði koma til greina? Og síðast en ekki síst, hvaða áhrif hefur vopnaburður lögreglu á samfélög?

Þessa umræðu þarf að taka án þess að við föllum í þá gryfju að tala lögregluna okkar niður. Starf hennar er sannarlega ekki orðið auðveldara og hún á skilið að hafa nauðsynleg úrræði við hendina þegar hún er að gæta að hagsmunum okkar, heilsu og lífi. Þannig á lögreglan að hafa aðgang að vopnum í þeim tilfellum sem það skiptir máli. Almennur, sýnilegur aðgangur er hins vegar grundvallarbreytingin sem málið snýst um.

Þeir sem ekki skilja að þetta er risastórt mál fyrir þorra fólks, eru illa læsir á íslenskt samfélag. Þetta er einfaldlega ekki mál sem má keyra áfram á hnefanum. Íslenskt samfélag á önnur og betri vinnubrögð skilið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Hanna Katrín Friðriksson
Þingmaður Viðreisnar.
RSS straumur: RSS straumur