Fimmtudagur 20.07.2017 - 18:31 - FB ummæli ()

Þegar lög ganga gegn réttarvitund

Mér finnst fátt bera þess sterkari merki að reglur um uppreist æru séu barn síns tíma, en að tekið sé fram að sá sem óski hennar þurfi að leggja fram vottorð frá „tveimur valinkunnum einstaklingum“. Upp í hugann kemur mynd af tveimur miðaldra körlum í þrískiptum jakkafötum sem ábyrgjast félaga sinn „for he‘s a jolly good fellow“ og allt það.

Auðvitað er þetta ekki svona, en þetta er myndin sem ég fæ upp. Þið verðið að afsaka. Hún byggir líklega á áratugalöngu sambandi við vald hinna valinkunnu.

Það hafa orðið grundvallarbreytingar á viðhorfum til eðlis, alvarleika og afleiðinga kynferðislegs ofbeldis  á undanförnum árum og áratugum. Á sama tíma hefur framkvæmd varðandi uppreist æru verið hin sama. Það gengur ekki lengur. Það er ekki bara hlutverk ríkisins að gæta réttinda sakborninga eða dæmdra manna, brotaþolar eiga líka mikilvægan rétt. Það virðist stundum gleymast í umræðu fólks sem hefur áhuga (eðlilega) á að réttarríkið standi undir nafni.

Það er alls ekki þannig að ég vilji sjá breytingu á þeirri grundvallarnálgun að hér á landi séu afbrotamenn ekki eingöngu dæmdir til refsingar, heldur sé markmiðið betrun og endurhæfing til að takast á við lífið að nýju. Að fólk eigi afturkvæmt sem góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar að afplánun lokinni. Það er mikilvægt að vernda réttindi sakborninga, en réttarríki sem stendur undir nafni verður að vernda réttindi brotaþola og hagsmuni almennings.

Ég tek fyllilega undir sjónarmið þeirra sem tóku afstöðu gegn því að Robert Downey fengi lögmannsréttindin aftur. Það gengur að mínu mati ekki upp að dæmdur kynferðisbrotamaður fái þann stimpil frá samfélaginu að hann sé hæfur til að gæta hagsmuna brotaþola í slíkum málum fyrir dómi. Ekki heldur að sá stimpill geti verið grundvallarmannréttindi viðkomandi – eða skipt sköpum í því að hann nái að fóta sig aftur í samfélagi siðaðra manna.

Núgildandi reglur um uppreist æru virðast hafa orðið til í öðrum veruleika en þeim sem við búum nú í. Veruleika þar sem kúgun og kynferðisofbeldi var ekki til, bara embætti og peningar. Lítið virðist hafa verið hugað að því að það þyrfti t.d. að vernda börn og aðra sem höllum fæti standa gegn slíkum ofbeldismönnum.

Ég fagna þeirri elju sem tilteknir lögfræðingar hafa sýnt í umræðunni við að skýra tilgang laganna og afleiðingar. Það eru nefnilega lögin um uppreist æru sem eiga að vera í sviðsljósinu í þessari umræðu, ekki einstakir brotamenn og afbrot þeirra, alveg sama hversu svívirðileg þau eru. Umræðan hefur að mínu mati leitt í ljóst að hér er við úrelt lög og stjórnsýsluframkvæmd að sakast. Ég er ein 63 þriggja kjörinna fulltrúa Alþingis þar sem lög eru sett. Þegar þing kemur saman í haust, verð ég í hópi þeirra þingmanna sem beita sér fyrir breytingum á þessum lögum. Fyrir þá sem brotið hefur verið á og fyrir íslenskt réttarríki.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Hanna Katrín Friðriksson
Þingmaður Viðreisnar.
RSS straumur: RSS straumur