Sunnudagur 7.10.2018 - 10:48 - Rita ummæli

Bankahrunið: Svartur svanur

Í dag eru tíu ár liðin frá bankahruninu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið „svartur svanur“, eins og líbanski rithöfundurinn Nassem Taleb kallar óvæntan, ófyrirsjáanlegan atburð, sem er engum að kenna, heldur orsakast af því, að margt smátt verður skyndilega eitt stórt.

Það fór saman, að sölu ríkisbankanna lauk í árslok 2002 og að þá fylltist allur heimurinn af ódýru lánsfé vegna sparnaðar í Kína og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans. Jafnframt nutu íslenskir bankar hins góða orðspors, sem íslenska ríkið hafði aflað sér árin 1991-2004, svo að þeim buðust óvenjuhagstæð lánskjör erlendis. Þrennt annað lagðist á sömu sveif. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu bankarnir fengið aðgang að innri markaði Evrópu; nýir stjórnendur þeirra höfðu aldrei kynnst mótvindi og gerðu því ráð fyrir góðu veðri framvegis; og eigendur bankanna áttu langflesta fjölmiðla og bjuggu því ekki við aðhald. Afleiðingin af öllu þessu varð ör vöxtur bankanna við fagnaðarlæti þjóðarinnar. Þeir uxu langt umfram það, sem hið opinbera hafði tök á að styðja í hugsanlegum mótvindi.

En útþensla íslensku bankanna olli gremju keppinauta þeirra í Evrópu og tortryggni evrópskra seðlabankastjóra, sem töldu hana ógna innstæðutryggingum og litu óhýru auga, að íslensku bankarnir nýttu sér í útbúum á evrusvæðinu lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu eins og aðrir evrópskir bankar utan evrusvæðisins (til dæmis breskir) gerðu. Ákveðið var í fjármálakreppunni að veita Íslandi enga aðstoð. Við þetta bættist stjórnmálaþróunin í Bretlandi. Þar óttaðist Verkamannaflokkurinn uppgang skoskra þjóðernissinna, sem fjölyrtu um „velsældarboga“ frá Írlandi um Ísland til Noregs og sjálfstætt Skotland framtíðarinnar færi undir. Stjórn Verkamannaflokksins ákvað í fjármálakreppunni að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, á meðan hún jós fé í alla aðra banka landsins. Þetta leiddi til falls Kaupþings. Stjórnin bætti síðan gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum að þarflausu gegn Íslendingum og siga á þá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Velsældarboginn breyttist í gjaldþrotaboga, eins og Alistair Darling orðaði það síðar.

Bandaríkjastjórn sat aðgerðalaus hjá, enda var Ísland nú ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í hennar augum. Íslands óhamingju varð allt að vopni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.10.2018 - 13:44 - Rita ummæli

Falsfrétt frá Össuri Skarphéðinssyni

Nú er mikið talað um falsfréttir. Eitt dæmi um slíkar fréttir er í nýlegri Facebook-færslu Össurar Skarphéðinssonar. Hann skrifar:

Brynjar Níelsson segir að tíu ára afmæli hrunsins sé notað í pólitískum tilgangi. Í frægri skýrslu Hannesar Gissurarsonar um hrunið er ein af niðurstöðunum þessi: “Ábyrgðina ætti því ekki að finna hjá Oddssyni heldur gömlum andstæðingum hans í pólitík…” – Taka þessi orð ekki af tvímæli um að Brynjar Níelsson hefur rétt fyrir sér að þessu sinni?

Össur slítur orð mín úr samhengi og rangfærir. Þau hljóða svo í skýrslunni (SIC er Rannsóknarnefnd Alþingis):

While the SIC in its Report confirms many of the unequivocal warnings that the CBI governors uttered in confidential meetings with government ministers in the year preceding the bank collapse, in its general discussion it faults one of them, David Oddsson, for being a former politician so that old political opponents tended to dismiss his advice. The SIC complains of “a certain degree of distrust and cooperation problems” between Oddsson and leading Social Democrats. But whether or not Oddsson distrusted the Social Democrats as much as they may have distrusted him seems of little relevance because the issue was that he was warning them and that they were ignoring his warnings. It was not that they were proposing something which he was dismissing for his own personal reasons. The fault therefore should have been found not with Oddsson, but with his old political opponents who apparently could not set aside old grievances in the face of an approaching danger for the Icelandic nation of which he was warning them.

Ég bæti síðan við:

In the second place, this criticism by the SIC also may be regarded as a formal error: There were three CBI governors, in addition to Oddsson Eirikur Gudnason and Ingimundur Fridriksson. If Gudnason and Fridriksson, both of them economists with long experience in central banking and not with any known political affiliation, had disagreed with Oddsson, then he would not have been able to speak on behalf of the CBI. But the two other CBI governors had become convinced, with Oddsson, of the imminent danger. If old foes of Oddsson did not want to listen to him because of his past political career, then they should at least have taken his two colleagues seriously.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.9.2018 - 14:06 - Rita ummæli

„Hollenska minnisblaðið“

Þriðjudaginn 25. september 2018 fór skýrsla mín um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins á netið frá fjármálaráðuneytinu. Þar eru tveir kaflar um Icesave-deilu Breta við Íslendinga. Fimmtudaginn 27. september skrifaði aðalsamningamaður Íslands í fyrstu lotu málsins, Svavar Gestsson, á facebooksíðu sína: „Svokölluð skýrsla HHG um hrunið er komin út. Hún er eiginlega Reykjavíkurbréf; þau eru ekkert skárri á ensku. Auðvitað er sleppt óþægilegum staðreyndum eins og hollenska minnisblaðinu.“

Þótt Svavar hefði þá haft tvo daga til að lesa skýrsluna hefur farið fram hjá honum að á 154. bls. hennar segir neðanmáls: „In the chaos during the bank collapse, a memo of mutual understanding had been signed by Icelandic officials after talks with their Dutch counterparts, accepting some of the Dutch claims, but it had no legal validity and the Icelandic government made it clear afterwards that it was not bound by it in any way.“

Ég sleppti því ekki „óþægilegum staðreyndum“ eins og minnisblaðinu, sem var að vísu ekki hollenskt, heldur á ensku og undirritað af hollenskum og íslenskum embættismönnum 11. október 2008. Eins og ég benti á hafði þetta minnisblað ekkert lagalegt gildi frekar en fjöldi minnisblaða, sem undirrituð hafa verið um til dæmis fyrirhuguð álver og Íslendingar muna eftir. Geir H. Haarde hringdi í hollenska forsætisráðherrann til að tilkynna honum að Íslendingar myndu ekki fara eftir þessu minnisblaði embættismannanna.

Tvennt er hins vegar athyglisvert. Svavar kallar minnisblaðið „óþægilega staðreynd“. Óþægilega í huga hverra? Aðeins þeirra sem töldu það hafa eitthvert gildi, sem það hafði ekki að mati neinna nema ef til vill samningamanna Hollendinga í Icesave-deilunni. Er Svavar í liði þeirra? Í öðru lagi er Svavar bersýnilega ónákvæmur í vinnubrögðum. Hann fullyrðir að ég sleppi staðreyndum sem ég ræði um í skýrslu minni. Líklega hefur hann ekki nennt að hanga yfir skýrslu minni frekar en yfir Icesave-samningnum forðum, og er árangurinn eftir því.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.9.2018 - 16:01 - 2 ummæli

Óvönduð vinnubrögð Marinós G. Njálssonar

Marinó G. Njálsson hefur birt athugasemdir við skýrslu mína um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, þótt hann viðurkenni, að hann hafi ekki lesið hana, aðeins íslenskan útdrátt úr henni. Furða ég mig á því, hvað mönnum gengur til, sem taka til máls opinberlega og hinir hróðugustu án þess að hafa kynnt sér umræðuefnið. Hér mun ég leiðrétta Marinó lið fyrir lið. Áhugasamir lesendur geta borið staðhæfingar Marinós og svör mín saman og flett upp í skýrslu minni:

 1. Marinó bendir á, að beiting hryðjuverkalaganna sé ekki áhrifaþáttur í falli Glitnis og Landsbanks, því að þeir bankar hafi verið fallnir, áður en þau voru sett að morgni 8. október. Það er alveg rétt, enda segi ég það hvergi, sem hann leggur mér í munn. Af hverju gerir hann mér upp skoðanir? Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Marinó segir: „Bretar sökuðu Kaupþing ekki um ólöglega flutninga fjármagns frá Bretlandi til Íslands, heldur flutninga sem voru á skjön við fyrirheit.“ Þetta er rangt hjá Marinó. Þeir Alistair Darling og Gordon Brown sökuðu báðir Kaupþing um ólöglega flutninga fjármagns til Íslands. Margar tilvísanir eru í skýrslu minni og raunar líka í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Darling segist til dæmis sjálfur hafa sagt Geir H. Haarde þetta í símtali þeirra 3. október 2008. „I told the Icelandic prime minister that it appeared that large sums of money had been taken out of the UK from the Kaupthing branches, which was a serious breach of FSA regulations. The FSA had to find out by the end of the afternoon whether or not that breach had taken place. If it had, they would close the bank.“ (Sjá 77. bls. í skýrslu minni.) Brown sagði Geir í símtali þeirra 5. október, að svo virtist sem ólöglegir fjármagnsflutningar frá KSF til Kaupþings næmu ekki 600 milljónum punda, heldur 1,6 milljónum punda. (Sjá 80. bls. í skýrslu minni.) Á blaðamannafundi 12. nóvember sagði Brown: „There was an issue about money that had been taken out of London and returned to Iceland and we wanted back in London.“ (Sjá 92. bls. í skýrslu minni.) Í skýrslu minni er vitnað í skýrslu RNA um allt þetta, en jafnframt ræddi ég margoft um þetta við þá Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen, sem tóku við símtölunum frá breskum ráðamönnum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
 1. Marinó heldur því fram, að bankarnir hafi verið löngu fallnir, svo að neitun Danske Bank á fyrirgreiðslu í sambandi við sölu á norska Glitni hafi ekki skipt neinu máli. Hann má hafa þessa skoðun, og eðli málsins samkvæmt er erfitt að sanna hana eða hrekja. En hann fullyrðir allt of mikið, þegar hann talar um „svikamyllu“ í kringum Kaupþing í Bretlandi. Bankinn sætti rækilegri rannsókn árum saman í Bretlandi, en ekkert misjafnt fannst um KSF, dótturfélag Kaupþings. Ég vitna einmitt í skýrslu minni í ummæli breskra blaðamanna, eftir að stjórnvöld urðu að gefast upp á rannsókn sinni, og töldu þeir þetta mikla sneypuför. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Marinó heldur því fram, að sú staðreynd, að KSF var gjaldfær og traustur banki, þótt Bretar hafi lokað honum, skipti engu máli um bankahrunið. En lokun KSF felldi einmitt Kaupþing! Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar. Marinó er ekki fyrsti maðurinn, sem vill, að ég skrifi um eitthvað annað en ég hef áhuga á að skrifa um.
 1. Ég er út af fyrir sig sammála Marinó um, að vogunarsjóðir réðu ekki úrslitum. En Marinó virðist ekki vera kunnugt um skýrslu, sem Deloitte gerði að ósk slitastjórnar Landsbankans, en hún sýndi, að Icesave-féð var að langmestu leyti notað í Bretlandi, fyrst í fjárfestingar og síðan í endurfjármögnun þessara fjárfestinga. Það var ekki notað í ný lán til eigenda stærsta hlutarins í bankanum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Marinó virðist gleyma því, að hagur UBS, stærsta banka Sviss, var svo bágborinn, að honum varð að bjarga tvisvar, einu sinni fyrir fjármálakreppuna og í henni sjálfri. Spurningin er, hvers vegna Sviss fékk aðstoð, en ekki Ísland. Bandaríkjamenn munaði ekki um veita Íslandi aðstoð, sem um munaði. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
 1. Marinó hefur rangt fyrir sér, að Rússalánið hefði ekki skipt máli um bankahrunið. Tilboðið um það kom, áður en Kaupþing féll. Hugsanlega hefði Kaupþing bjargast, hefði lánið verið veitt. Áhlaupið á það hefði stöðvast og stjórnvöld sefast. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína og kynnt sér tímalínu atburða.
 1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Auðvitað hafði það áhrif á stærð gjaldþrota bankanna, umfang bankahrunsins, að eignir voru sums staðar hirtar á smánarverði. Ég hefði raunar einmitt verið beðinn sérstaklega að kanna þetta mál.
 1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Brunaútsölur voru engin söguleg nauðsyn, enda fóru þær ekki fram í Svíþjóð og Bretlandi, svo að dæmi séu tekin. Brunaútsölurnar fóru fram í Noregi, Finnlandi og Danmörku, af því að stjórnvöld þar knúðu þær fram, eins og fram kemur í skýrslu minni. Hér hefði Marinó betur lesið hana.
 1. Ég treysti mér ekki til að hafa eindregna skoðun á því, hvort íslenska bankakerfið hafi átt fyrir skuldum, hefði það fengið lausafjárfyrirgreiðslu, eins og fram kemur í skýrslu minni. Ég er hins vegar sammála fjármálafræðingunum Ásgeiri Jónssyni og Hersi Sigurgeirssyni í þeirra vönduðu bók um það, að eignasöfn íslensku bankanna voru líklega hvorki verri né betri en eignasöfn erlendra banka almennt séð.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
 1. Marinó hefur rangt fyrir sér. Gögn er að finna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um tillögur seðlabankastjóranna, og vitna ég í þau í skýrslu minni á 183. bls. Þau eru í 6. bindi, 19. kafla: um flutning Kaupþings, bls. 122 og 124, um færslu Icesave-reikninga úr útbúi í dótturfélag, bls. 124; um sölu norska Glitnis, bls. 256–7. Eins og oft hefur komið fram, varaði Davíð Oddsson líka opinberlega við útþenslu bankanna í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Í skýrslu minni er einnig sagt frá fjölda funda, þar sem seðlabankastjórarnir vöruðu við, allt frá nóvember 2005. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
 1. Marinó hefur rangt fyrir sér. UBS, RBS og Danske Bank hefðu allir fallið, hefðu þeir ekki fengið lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabönkum landa sinna, og þeir seðlabankar hefðu ekki getað veitt þessa lausafjárfyrirgreiðslu, hefðu þeir ekki getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann. Þetta eru alkunnar staðreyndir. Ég vitna í skýrslu minni í ótal gögn um þetta, en bendi Marinó um Danske Bank meðal annars á bókina Andre folks penge: Historien om den danske finanskrise eftir Niels Sandøe og Thomas Svaneborg. Það er hins vegar rétt, að Ísland hefði þurft hlutfallslega miklu meiri lausafjárfyrirgreiðslu en flest önnur ríki (ef til vill að Skotlandi undanteknu, ef horft er á það sem ríki).
 1. Marinó er hér að andmæla niðurstöðu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, sem ég vitna í. Hann vissi þetta auðvitað ekki, af því að hann hafði ekki lesið skýrslu mína. Hefði hann betur gert það.
 1. Þarfnast ekki leiðréttingar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.9.2018 - 17:52 - Rita ummæli

Svavar Gestsson og skýrsla mín

Svavar Gestsson skrifar á Facebook síðu sína: „Svokölluð skýrsla HHG um hrunið er komin út. Hún er eiginlega Reykjavíkurbréf; þau eru ekkert skárri á ensku. Auðvitað er sleppt óþægilegum staðreyndum eins og hollenska minnisblaðinu.“ Nokkrir einstaklingar merkja við, að þeim líki þessi færsla, þar á meðal Mörður Árnason, Vésteinn Ólason og Karl Steinar Guðnason.

Á bls. 154 í skýrslu minni segir: „In the chaos during the bank collapse, a memo of mutual understanding had been signed by Icelandic officials after talks with their Dutch counterparts, accepting some of the Dutch claims, but it had no legal validity and the Icelandic government made it clear afterwards that it was not bound by it in any way.“

Af hverju rjúka menn til og gefa sér ekki einu sinni tíma til að fara með leitarorðin „Dutch“ eða „memo“ um skjalið? Lærðu þeir Mörður og Vésteinn þessa textarýni í íslensku í Háskólanum?

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.9.2018 - 14:49 - Rita ummæli

Svar til Trausta Salvars Kristjánssonar blaðamanns

Trausti Salvar Kristjánsson skrifaði mér:

Sæll Hannes. Er að gera frétt uppúr Facebookfærslu almannatengils í Brussel (íslenskur) sem hefur greint heimildaskrá skýrslunar hjá þér. Hann virðist komast að þeirri niðurstöðu að aðeins hafirðu rætt við einn vinstrimann, Alistair Darling. Hann flokkar viðmælendur eftir lit, bankamenn eru rauðir, hægrimenn eru bláir og gulir eftirlitsaðilar. Ég spyr því hvort þú sért sammála greiningu hans, hvort þú vitir um stjórnmálafstöðu allra viðmælenda (eftirlits og bankamanna) og loks hvort þessir viðmælendur gefi rétta og heilsteypta mynd af atburðunum. Einnig, voru aðrir og fleiri viðmælendur í lengstu útgáfu skýrslunnar ? Kv T

Ég svaraði honum að bragði:

Væri ekki nær, að þessi ágæti almannatengill greindi rökfærslur mínar? Til dæmis þá að Bretar hafi beitt hryðjuverkalögunum að þarflausu, af því að tilskipun frá 3. október náði sama tilgangi? Eða þá að Bretar hafi mismunað eftir þjóðerni með því að loka aðeins þeim bresku bönkum, sem voru í eigu Íslendinga, en bjarga öllum öðrum bönkum? Eða þá að Bandaríkjamenn hafi veitt Sviss og Svíþjóð aðstoð, en neitað okkur um hana, þótt Sviss og Svíþjóð hafi aldrei verið bandamenn þeirra, en við verið það lengi? Eða þá að íslensku bankarnir hafi ekki reynst eiga lakara eignasafn en aðrir bankar, sem sumir hverjir hafi síðan orðið uppvísir að því að hagræða vöxtum, veita villandi upplýsingar og stunda peningaþvætti?

Þá svaraði hann:

Það er nú ekki mitt að dæma um. Ég er bara að kalla eftir viðbrögðum frá þér vegna þessar gagnrýni hans. Telurðu hana eiga rétt á sér ? Hefðir þú mátt ræða við fleiri af vinstri vængnum ?

Þá svaraði ég:

Ég fór ekki eftir stjórnmálaskoðunum í vali á viðmælendum, heldur stöðu þeirra í bankahruninu. Þess vegna ræddi ég við forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands, seðlabankastjórana þrjá og seðlabankastjóra Bretlands og Svíþjóðar og fjármálaráðherra Bretlands. Þessi ágæti almannatengill verður að koma athugasemdum á framfæri við kjósendur og ráðherra með veitingarvald, ef hann er eitthvað óánægður með val þeirra. Annars er ég alltaf reiðubúinn að ræða við vinstri menn. Þeir hafa hins vegar verið lítt fúsir til að ræða við mig. Til dæmis heilsa sumir vinstri sinnaðir kennarar í Háskólanum mér ekki einu sinni, þótt ég heilsi þeim alltaf með virktum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.9.2018 - 18:25 - Rita ummæli

Svör Félagsvísindastofnunar við spurningum Kjarnans

Kjarninn sendi nokkrar fyrirspurnir til Félagsvísindastofnunar um skýrslu mína, og finnst mér rétt, að spurningar hans og svör hennar birtist hér. Ljóst er, að Kjarninn beinir athygli sinni að aðalatriðum, eins og nafn miðilsins sýnir, en ekki neinu hismi.

Spurning: Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Hannes Hólmsteinn að hann hafi „skrifað mjög langa skýrslu og skilað henni á til­sett­um tíma. Hún var um 600 blaðsíður og sá ég í sam­ráði við Fé­lags­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands að hún væri alltof löng.“ Hvenær var 600 blaðsíðna skýrslunni skilað til Félagsvísindastofnunar?
Svar: Félagsvísindastofnun tók ekki við 600 bls. skýrslu þar sem ljóst var að það væri mun lengri skýrsla en ásættanlegt væri.
Spurning: Af hverju þurfti að skera hana niður?
Svar: Í verksamningi var gert ráð fyrir 40-50 bls. skýrslu og óskaði ég eftir því við Hannes að hann stytti hana áður en hann skilaði henni til stofnunarinnar til yfirlestrar.
Spurning: Í hverju fólst samráðið milli Félagsvísindastofnunar og Hannes Hólmsteins um styttingu skýrslunnar?
Svar: Hannes stytti skýrsluna með það að markmiði að taka út þá umfjöllun sem ekki félli undir þann verksamning sem gerður var við ráðuneytið.
Spurning: Voru sendir út afmarkaðir kaflar úr þessari útgáfu skýrslunnar til aðila sem nefndir voru í henni til að gefa þeim kost á andsvörum og athugasemdum?
Svar: Hannes sendi afmarkaða kafla úr skýrslunni til aðila sem nefndir voru í henni til að gefa þeim kost á andsvörum og athugasemdum en ég hef ekki upplýsingar um hverjir þessir aðilar voru eða hverju eða hvort þeir svöruðu.
Spurning: Er rétt að hluti þeirra hafi boðað málsóknir vegna meiðyrða ef ekki yrðu gerðar breytingar á skýrslunni?
Svar: Félagsvísindastofnun hafa ekki borist málshótanir vegna meiðyrða ef skýrslunni yrði ekki breytt.
Spurning: Hvenær var 320 blaðsíðna skýrslunni skilað inn til Félagsvísindastofnunar?
Svar: Félagsvísindastofnun barst 320 (eða 331) bls. skýrsla til yfirlestrar þann 26. janúar 2018.
Spurning: Var „þriðja atrennan“ í niðurskurði gerð í samstarfi og samráði við Félagsvísindastofnun?
Svar: Stytting á þeirri skýrslu var gerð í samráði og samstarfi við Félagsvísindastofnun.
Spurning: Er hægt að nálgast annars vegar 600 blaðsíðna útgáfuna og hins vegar 320 blaðsíðna útgáfuna?
Svar: Fyrri útgáfur skýrslunnar eru ekki aðgengilegar enda voru þær í uppkasti sem ekki var tilbúið til birtingar.

Ég hef sjálfur aðeins því að bæta við svör Félagsvísindastofnunar, að ég hef fullan hug á því að vinna úr fyrri handritum mínum og uppköstum rit til útgáfu. Ég er auðvitað fús að svara fyrirspurnum Kjarnans um dagsetningar, blaðsíðutöl og önnur mikilvæg atriði eftir föngum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.9.2018 - 08:31 - Rita ummæli

Villan í leiðréttingu Soffíu Auðar

Um síðustu helgi benti ég á tvær yfirsjónir í nýlegri ritgerð Soffíu Auðar Birgisdóttur um kvæðabálk Þórbergs Þórðarsonar, Marsinn til Kreml. Þórbergur hafði sett vísuorð á þýsku inn í bálkinn: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt/denn geht uns nochmals so gut.“ Þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur. Neðanmáls kvað Þórbergur orðin vera úr Horst Wessel-söngnum.

Önnur yfirsjón Soffíu Auðar var smávægileg, að í fyrri vísuorðinu á að vera vom, en ekki von, og sjá þýskumælandi menn það á augabragði. Hin er stærri, að vísuorðin eru ekki úr Horst Wessel-söngnum, heldur úr einu hergöngulagi, „Sturmlied,“ stormsveita nasista, SA. Í næsta tölublaði, 17. september, viðurkenndi Soffía Auður yfirsjónir sínar, en sagði mig sjálfan hafa gert villu. Vísuorðin væru alls ekki úr „Sturmlied“ SA-sveitanna, en það væri eftir Dietrich Eckhard.

Því miður er þessi „leiðrétting“ Soffíu Auðar ekki rétt, og hefði komið sér vel fyrir hana að kunna þýsku. Sturmlied er hér samnafn, ekki sérnafn, og merkir blátt áfram stormsveitarsöng. Það villir eflaust Soffíu Auði sýn, að öll nafnorð eru með stórum staf í þýsku, ekki sérnöfnin ein. Söngurinn, sem vísuorðin eru úr, er í mörgum þýskum heimildum kallaður „Sturmlied“. Til dæmis má nefna bókina Die Weimarer Republik (Hannover: Fackelträger Verlag, 1982), bls. 214, og bækling, sem þýsk gyðingasamtök gáfu út í apríl 1932: „Welch eine Schande, daß es möglich ist, daß junge Menschen Lieder singen, wie es in einem „Sturmlied“ der SA heißt: und wenn das Judenblut vom Messer spritzt, dann geht’s noch mal so gut.“ Það er til skammar, að ungt fólk skuli geta sungið söngva eins og „Sturmlied“ SA: og þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur.

Soffía Auður hefur líklega flett upp orðinu „Sturmlied“ í Wikipediu á ensku og þá rekið augun í söng Eckhards. En hann kemur málinu ekki við.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.9.2018 - 04:06 - Rita ummæli

Þórbergur um nasistasöng

Guðmundur G. Hagalín sagði eitt sinn, að Þórbergur Þórðarson hefði verið þjóðfífl Íslendinga, ekki þjóðskáld. Hafði Hagalín eflaust í huga ýmis afglöp Þórbergs, til dæmis þegar hann kvaðst eftir árás Hitlers á Pólland 1. september 1939 skyldu hengja sig, ef Stalín réðist líka á Pólland. Eftir að Stalín réðst á Pólland 17. september, varð Þórbergur að landsviðundri. Ég leiðrétti í bókinni Íslenskum kommúnistum 1918-1998 ýmsar missagnir Þórbergs.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifaði í Skírni 2015 ritgerð um kvæðið „Marsinn til Kreml“, sem Þórbergur orti til höfuðs Hannesi Péturssyni, eftir að nafni minn hafði leyft sér að birta í Stúdentablaðinu 1956 ljóð gegn Kremlverjum, sem þá höfðu nýlega barið niður uppreisn í Ungverjalandi. Í ritgerð sinni minntist Soffía Auður á, að Þórbergur tilfærði í kvæði sínu tvö vísuorð úr Horst Wessel söng þýskra þjóðernisjafnaðarmanna: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt/denn geht uns nochmals so gut“. Neðanmáls í kvæði sínu þýddi Þórbergur þau svo: Þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur.

Þótt Soffía Auður leiðrétti í ritgerð sinni nafnið á varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem Þórbergur fór rangt með í kvæðinu, lét hún þess ógetið, að vera á „vom“ en ekki „von“ í fyrra vísuorðinu, eins og allt þýskumælandi fólk sér á augabragði. Það er þó smáatriði í samanburði við þann mikla annmarka, sem farið hefur fram hjá Soffíu Auði og ritrýnendum Skírnis, að þessi ógeðfelldu vísuorð eru alls ekki úr Horst Wessel söngnum, sem er prentaður í prýðilegri þýðingu Böðvars Guðmundssonar í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2015. Þau eru úr „Sturmlied“, sem SA-sveitir þjóðernisjafnaðarmanna kyrjuðu iðulega á þrammi sínu um þýskar borgir á fjórða áratug. Þetta hergönguljóð var andgyðinglegt tilbrigði við þýskan byltingarsöng frá 1848, Heckerlied.

Vísuorðin tvö koma meðal annars fyrir í áhrifamikilli og læsilegri sjálfsævisögu Richards Krebs, sem var flugumaður Alþjóðasambands kommúnista og skrifaði undir dulnefninu Jan Valtin. Hún nefndist á íslensku Úr álögum og kom út í tveimur bindum 1941 og 1944, og endurútgaf ég hana með formála og skýringum 2016.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.9.2018 - 09:37 - Rita ummæli

Gylfi veit sínu viti

Dagana 30.-31. ágúst skipulagði Gylfi Zoëga prófessor ráðstefnu í Háskóla Íslands um bankahrunið 2008 með ýmsum kunnum erlendum fyrirlesurum og nokkrum íslenskum, þar á meðal þeim Þorvaldi Gylfasyni, Stefáni Ólafssyni og Guðrúnu Johnsen. Þótt Gylfi fengi styrki til ráðstefnunnar frá Háskólanum og Seðlabankanum var hún lokuð og á hana aðeins boðið sérvöldu fólki. Íslendingarnir sem töluðu á ráðstefnunni voru nánast allir úr Hrunmangarafélaginu, sem svo er kallað, en í það skipa sér þeir íslensku menntamenn sem líta á bankahrunið sem tækifæri til að skrifa og tala erlendis eins og Íslendingar séu mestu flón í heimi og eftir því spilltir.

Þegar að er gáð var þó sennilega skynsamlegt af Gylfa Zoëga að hafa ráðstefnuna lokaða. Það var aldrei að vita upp á hverju sumir íslensku fyrirlesararnir hefðu getað tekið í ræðustól. Þorvaldur Gylfason hefur til dæmis látið að því liggja á Snjáldru (Facebook) að þeir Nixon og Bush eldri hafi átt aðild að morðinu á Kennedy Bandaríkjaforseta 1963 og að eitthvað hafi verið annarlegt við hrun að minnsta kosti eins turnsins í Nýju Jórvík eftir hryðjuverkin haustið 2001. Ein athugasemd Þorvaldar er líka fleyg: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“

Einnig kann að hafa verið skynsamlegt af Gylfa Zoëga að velja aðallega Íslendinga úr Hrunmangarafélaginu til að tala á ráðstefnunni. Þegar hann kemur sjálfur fram við hliðina á þessu æsta og orðljóta fólki, sem hrindir venjulegum áheyrendum frá sér með öfgum, virðist hann í samanburðinum vera dæmigerður fræðimaður, hófsamur og gætinn. Var leikurinn ef til vill til þess gerður?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir