Laugardagur 07.04.2018 - 08:18 - Lokað fyrir ummæli

Málið okkar

Furðu sætir, að sumir blaðamenn, sem hafa valið sér það starf að semja texta, skuli ekki vanda sig betur. Enskan skín sums staðar í gegn, til dæmis þegar þeir skrifa, að einhverjir hafi tekið eigið líf, í stað þess að þeir hafi stytt sér aldur eða ráðið sér bana. Og þeir nota ekki umritunarreglur úr rússnesku, sem settar voru með ærinni fyrirhöfn og eru aðgengilegar á vef Árnastofnunar. Maður, sem nú er mjög í fréttum, heitir Sergej Skrípal, þótt á ensku sé nafn hans ritað Sergei Skripal.

Stundum velti ég fyrir mér, hvort spá danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks muni rætast að breyttu breytanda: Enskan gangi af íslenskunni dauðri, ekki danskan. Íslenskir kennarar og rithöfundar gengu ötullega fram í málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð á síðari hluta nítjándu aldar og á öndverðri síðustu öld. Þeir útrýmdu að heita má flámælinu og þágufallssýkinni. Þeir smíðuðu orð, sem féllu vel að tungunni, um ný fyrirbæri. En nú er ekki örgrannt um, að slík fyrirhöfn þyki brosleg.

Þegar ég sýndi Milton og Rose Friedman söguslóðir á Íslandi haustið 1984 spurði Rose: „Af hverju takið þið ekki upp ensku? Er það ekki miklu hagkvæmara?“ Milton andmælti henni með breiðu brosi: „Nei, Rose, ég er ekki sammála þér. Íslenskan er þeirra mál, og þeir vilja auðvitað halda í hana.“

Röksemd Miltons Friedmans er enn í fullu gildi. Ástæðan til þess, að við viljum (vonandi flest) tala íslensku, er, að hún er málið okkar. Hún er samgróin okkur, annað eðli okkar, ef svo má segja, órofaþáttur í tilvist okkar. Hún veldur því, að Ísland er ekki einvörðungu verstöð eða útkjálki, heldur bólstaður sjálfstæðrar og sérstakrar þjóðar.

Bæta má við röksemdum fyrir skoðun Miltons og gegn tillögu Rose. Ein er, að við þurfum ekki að týna niður íslenskunni, þótt við lærðum ensku svo vel, að við töluðum hana næstum því eins vel og eigin tungu (eins og við ættum að gera). Málið er eins og frjálst atvinnulíf, eins gróði þarf ekki að vera annars tap. Við getum sem hægast verið tvítyngd.

Önnur er sú, að íslenskan er ekki aðeins sérstök, heldur líka falleg. Þetta sjáum við best á vel heppnuðum nýyrðum eins og þyrlu og tölvu. Fara þessi orð ekki miklu betur í munni en helikopter og komputer?

Þriðja viðbótarröksemdin er, að með málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð þjálfum við okkur í móðurmálinu, spreytum okkur á nýjum verkefnum, um leið og við endurnýjum og styrkjum sálufélag okkar við þær þrjátíu og þrjár kynslóðir, sem byggðu landið á undan okkur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir