Þriðjudagur 21.05.2019 - 16:33 - Rita ummæli

Auðnum fórnað fyrir ástríður

Í bókinni Fjármagni á 21. öld heldur Thomas Piketty því fram, að auður sé að hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að þjóðskipulagið sé að verða svipað því, sem var á fyrri hluta 19. aldar, þegar dreifing tekna og eigna var mjög ójöfn. Piketty vitnar óspart í skáldsögu Honorés de Balzacs, Föður Goriot, máli sínu til stuðnings, en hún kom út í íslenskri þýðingu Sigurjóns Björnssonar árið 2017.

Þegar sú saga er hins vegar lesin, sést, að hún er ekki um það, að auðurinn festist í höndum einstakra manna, heldur einmitt um hitt, hversu fallvaltur hann sé. Goriot var auðugur kaupmaður, sem elskaði dætur sínar tvær út af lífinu og hafði afhent þeim nær allt sitt fé. Hann er dæmi um mann, sem lætur ástríður ráða, ekki fégirnd. Dætur hans, sem giftust aðalsmönnum, eru báðar í fjárhagsvandræðum, því að friðlar þeirra eru þurftafrekir, en eiginmennirnir naumir á fé. Grípur önnur þeirra til þess óyndisúrræðis að hnupla ættardýrgripum eiginmannsins og selja.

Aðalsöguhetjan, sem býr á sama fátæklega gistiheimilinu og Goriot, hinn ungi og metnaðargjarni Eugène de Rastignac, lifir langt umfram efni. Piketty vitnar óspart í ræðu, sem dularfullur náungi á gistiheimilinu, Vautrin, heldur yfir Rastignac um, hvernig hann eigi að öðlast frama með því að brjóta öll boðorð. En Vautrin hafði sjálfur fórnað starfsframa sínum fyrir myndarlegan afbrotamann, sem hann hafði lagt ást á (og er þetta ein fyrsta lýsingin í franskri skáldsögu á samkynhneigð). Vautrin er að lokum handtekinn fyrir ýmsa glæpi og getur því varla talist heppilegur kennari um það, hvernig eigi að safna auði og öðlast frama.

Í lok ræðu sinnar segir Vautrin, að á bak við illskýranleg auðæfi leynist jafnan einhver óupplýstur glæpur, sem eigi eftir að gleymast. Mario Puzo, höfundur Guðföðurins, einfaldaði síðar þessi orð: „Á bak við  mikil auðæfi leynist ætíð glæpur.“ Er sú afdráttarlausa fullyrðing miklu hæpnari en hin, sem Balzac lagði í munn Vautrins. Hvað sem því líður, er skáldsagan Faðir Goriot ekki um auð, heldur vöntun hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2019. Myndin er af Balzac.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir