Laugardagur 09.11.2019 - 17:13 - Rita ummæli

Við múrinn

Berlínarmúrinn féll fyrir réttum þrjátíu árum, en sigur Vesturveldanna í Kalda stríðinu var ekki síst að þakka festu, framsýni og hyggindum þeirra Ronalds Reagans og Margrétar Thatchers. Þó var sagt fyrir um þessi endalok löngu áður í bók, sem kom út í Jena í Þýskalandi 1922, Die Gemeinwirtschaft eftir Ludwig von Mises, en þar rökstuddi hann, að kommúnismi gengi ekki upp. Þess vegna yrðu kommúnistar að grípa til kúgunar.

Kúgunin fór þó alveg fram hjá átta manna sendinefnd frá Íslandi á svokölluðu heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín í júlílok 1973. Formaður nefndarinnar var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, og í skýrslu hennar var æskulýðssamtökum kommúnista þakkaðar „frábærar móttökur og vel skipulagt mót“. Enn sagði í skýrslu þeirra Þorsteins: „Þjóðverjarnir, sem við hittum, voru yfirleitt tiltakanlega opnir, óþvingaðir og hrokalausir.“

Auðvitað voru öll slík samtöl þaulskipulögð og undir ströngu eftirliti. En á sama tíma voru fimm ungir lýðræðissinnar staddir í Vestur-Berlín. Einn þeirra var Davíð Oddsson laganemi. Eftir að hann las skýrslu þeirra Þorsteins, skrifaði hann í Morgunblaðið, að hann hefði allt aðra sögu að segja úr stuttri heimsókn til Austur-Berlínar. Þetta væri lögregluríki, umkringt gaddavírsgirðingu og múr.

Tveir ungir Íslendingar við múrinn: annar klappaði svo kröftuglega uppi í salnum fyrir gestgjöfum sínum, að kvalastunurnar niðri í kjöllurum leynilögreglunnar drukknuðu í hávaða; hinn lagði við hlustir og heyrði hjartsláttinn í fangaklefunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir