Laugardagur 29.02.2020 - 09:03 - Rita ummæli

Bænarskrá kertasteyparanna

Engum hefur tekist betur að mæla fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum en franska rithöfundinum Frédéric Bastiat. Ein kunnasta háðsádeila hans á tollverndarmenn er „Bænarskrá kertasteyparanna“, sem birtist árið 1846. Framleiðendur kerta, vax, tólgs, eldspýtna, götuljósa og annars ljósmetis senda bænarskrá til franska fulltrúaþingsins. „Við þurfum að sætta okkur við óþolandi samkeppni erlends aðila, sem nýtur slíks forskots í ljósframleiðslu, að vara hans flæðir inn á innlendan markað á hlægilega lágu verði. Um leið og hann kemur á vettvang, hættir vara okkar að seljast, neytendur flykkjast til hans, og einn geiri fransks atvinnulífs sér fram á fullkomna stöðnun með margvíslegum afleiðingum. Þessi aðili er enginn annar en sólin.“

Höfundar bænarskrárinnar benda á, að löggjafinn geti skapað þörf fyrir tilbúið ljós með því að takmarka aðganginn að náttúrlegu ljósi, til dæmis með því að skylda fólk til að loka dyrum og byrgja glugga á daginn. Við það geti framleiðsla á tólg til dæmis aukist, svo að kvikfjárrækt verði umfangsmeiri, en það leiði aftur til víðáttumeiri bithaga og örvi framleiðslu á kjöti, ull og tilbúnum áburði. Takmörkun á náttúrlegri ljósframleiðslu sé atvinnulífinu í hag.

Bastiat tekur annað dæmi til samanburðar. Ef glóaldin (appelsína) frá Lissabon er helmingi ódýrari en glóaldin frá París, þá er það vegna þess, að náttúrlegur og um leið ókeypis hiti frá sólinni veitir framleiðendum í Lissabon náttúrlegt forskot. Þeir þurfa aðeins að leggja á sig helminginn af fyrirhöfn framleiðendanna í París. Þetta nota tollverndarmenn sem röksemd fyrir að takmarka innflutning glóaldina frá Portúgal. En ef framleiðsluvara er bönnuð fyrir að vera að hálfu leyti ókeypis, á þá ekki að banna vöru, sem er að öllu leyti ókeypis?

Bastiat sýnir með þessum dæmum, að alþjóðleg verkaskipting veitir okkur aðgang að alls konar gæðum, sem við ráðum ekki sjálf yfir. Fiskur er veiddur ódýrar á Íslandi og vín ræktað ódýrar í Síle en víða annars staðar, og aðrir jarðarbúar njóta þess síðan í frjálsum alþjóðaviðskiptum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir