Laugardagur 21.03.2020 - 09:56 - Rita ummæli

Spádómsgáfa Tocquevilles

Einn kunnasti hugsuður frjálshyggjunnar er franski rithöfundurinn og aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Spádómsgáfu hans er við brugðið. Tocqueville sat í fulltrúadeild franska þingsins og kvaddi sér hljóðs í janúar 1848. Lýsti hann megnri óánægju almennings: „Ég hygg, að við séum nú í fastasvefni uppi á eldfjalli.“ Fjórum vikum síðar gerði Parísarmúgurinn byltingu. Í seinna bindi hins mikla riti síns, Lýðræðis í Vesturheimi, sem kom út árið 1840, sagði Tocqueville, að eina hættan á byltingu í Bandaríkjunum væri vegna hinna þeldökku þræla þar í landi. Tuttugu og einu ári síðar skall þar á borgarastríð.

Tocqueville sá einnig Kalda stríðið fyrir í fyrra bindinu árið 1835: „Á okkar dögum stefna tvær stórþjóðir að sama marki, þótt þær komi úr ólíkum áttum: Rússar og Bandaríkjamenn. Báðar uxu úr grasi í kyrrþey. Á meðan menn höfðu um annað að sýsla, birtust þær skyndilega á fremsta bekk, og heimurinn fékk að vita af upphafi þeirra og afli nánast á sama tíma. Aðrar þjóðir virðast hafa náð þeim mörkum, sem náttúran setur þeim, en þessar tvær þjóðir eru að færa út kvíar.“

Enn sagði Tocqueville: „Bandaríkjamenn glíma við þær hindranir, sem náttúran setur þeim, Rússar við menn. Önnur þjóðin reynir að ná tökum á óbyggðum og villimennsku, hin á siðmenningu. Því er það, að Bandaríkjamenn vinna land með plógi bóndans, en Rússar með sverði hermannsins. Til að ná árangri treystir önnur þjóðin á eiginhagsmuni og nýtir sér atorku og skynsemi einstaklinganna án þess þó að stjórna þeim. Hin safnar öllu valdi saman á hendi eins manns. Önnur hefur frelsi að leiðarljósi, hin ánauð. Þær hefja ferð sína á ólíkum stöðum og feta ólíkar slóðir. Eigi að síður virðist hvor um sig hafa verið kjörin til þess af sjálfri forsjóninni að ráða örlögum síns helmings heimsins.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir