Miðvikudagur 30.03.2011 - 11:55 - FB ummæli ()

Hamingjan hjálpi ykkur

Ég hef lagt það í vana minn að fara svolítið varlega þegar nýjar fréttir berast af einhverjum fjármálagjörningum útrásarvíkinganna, sem virðast við fyrstu sýn vera rakin glæpaverk.

Það er vissulega stundum freistandi að stökkva á vagninn og hrópa með hinum: Helvítisandskotansdjöfulsinsútrásarvíkingarnirykkarglæpamennogþrjótar!

En ég hef reynt að stilla mig um það.

Annars vegar er ástæðan einfaldlega sú að ég skil yfirleitt ekki nógu mikið í þessum fjármálagjörningum og botna til dæmis oft ekki almennilega í því hvar glæpurinn liggur – eða á að liggja.

Hins vegar verður að viðurkennast að ekki hefur allt staðist sem þeir sem rannsaka hrunið hafa lagt upp með.

Það má út af fyrir sig heita ósköp eðlilegt. Þetta eru flókin mál og taka tíma.

En það hvetur mann líka til varkárni.

Ég man til dæmis eftir því þegar slitastjórn Glitnis tilkynnti hróðug að hún væri búin að finna einhverja hundruði milljarða sem Jón Ásgeir hefði laumað á leynilegan bankareikning, á sama tíma og hann kvaðst vera í lentur allnokkrum fjárhagsörðugleikum eftir hrunið.

Daginn eftir kom svo í ljós að Jón Ásgeir átti ekkert þessa peninga, heldur einhver verslanakeðja sem hann hafði ekki lengur neitt með að gera.

Og slitastjórnin hefði bara þurft eitt símtal til að ganga úr skugga um þetta.

Þessar tvær ástæður hafa hrætt mig frá því að taka mjög sterkt til orða.

Fyrr en þá allar upplýsingar liggja örugglega fyrir.

Og enn um sinn mun ég ekki kalla neinn þann glæpamann, sem ekki hefur hlotið dóm.

En þegar maður les svona fréttir, þá reynir vissulega á þolinmæðina.

Sérstakur saksóknari og Serious Fraud Office á Bretlandi eru nú að rannsaka hvort 28 milljarðar króna hafi flogið út af reikningum Kaupþings inn á reikninga á Tortóla-eyju, aðeins fáum augnablikum eftir að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri afhenti Kaupþingi 80 milljarða króna í neyðarlán … sama dag og neyðarlögin voru sett!

Inná reikninga á Tortóla sem yfirmenn Kaupþings réðu yfir, og þeir peningar hafi síðan gufað upp.

Við skulum slá varnagla – kannski er þetta ekki rétt.

En EF þetta er rétt … þá er mér eiginlega öllum lokið.

Dettur ekkert í hug nema gnísta tönnum.

Og jú … fara með kvæðið hans Steins.

Hannes Hafstein orti kvæði um Skarphéðin í brennunni. Það var hetjukvæði – Skarphéðinn var að vísu innilokaður í brennunni og myndi brátt deyja.

En hann brá sér þó hvorki við sár né bana.

Glotti bara við tönn.

Og þannig fannst manni stundum að okkur Íslendingum væri ætlað að bregðast við hruninu.

Við áttum bara að taka því eins og Skarphéðinn í brennunni þegar peningalegur heimur okkar hruni.

Og siðferðilegur.

Við áttum bara að glotta við tönn, og ekki kvarta þó brennumenn, það er að segja hrunverjar – stjórnmálamenn, embættismenn, úrásarvíkingar og bankamenn – þó þeir slyppu sjálfir kátir og hressir frá brennunni sem þeir höfðu kveikt.

Steinn Steinarr taldi kvæði Hannesar Hafsteins forkastanlega rómantík.

Og hann orti því eins konar leiðréttingu á því kvæði.

Ég hef vitnað til þess áður, kvæðis Steins um Skarphéðin.

Þannig líður mér þegar ég heyri fréttir eins og þær sem Eyjan birtir nú um rannsóknina á Kaupþingsmönnum.


Það er lygi, sem sagt er.

Ég leitaði útgöngu,

ég leitaði útgöngu í máttvana skelfingu

deyjandi manns.

En leiðin var lokuð.

Og ég heyrði ykkur hvísla

út í hlæjandi sólskinið:

Látum hann farast.

Hvað sakar það okkur?

Hvað getum við að því gert?

Hamningjan hjálpi ykkur!

Hefði ég sloppið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!