Laugardagur 16.04.2011 - 19:45 - FB ummæli ()

Ingólfur Margeirsson

Ingólfur Margeirsson var einn af kunnustu og bestu blaðamönnum landsins þegar ég byrjaði í bransanum fyrir eitthvað um 30 árum. Höfuðbækistöðvar hans voru þá á Þjóðviljanum, þar sem hann tók óvenjulega skemmtileg og lífleg viðtöl, sem hann skreytti með eigin teikningum.

Það var eitthvað alþjóðlegt við þessi viðtöl hans – eitthvað á heimsmælikvarða hugsa ég.

Seinna var hann á Helgarpóstinum og Alþýðublaðinu, og gerði fræga útvarpsþætti um sögu Bítlanna, og hélt úti viðtalsþáttum í sjónvarpinu með vini sínum Árna Þórarinssyni.

Og hann skrifaði nokkrar fínar bækur, helstar þeirra viðtalsbækur við Guðmundu Elíasdóttur og Árna Tryggvason.

Það var alltaf sama yfirbragðið á öllu sem Ingólfur gerði – það var notalegt og vingjarnlegt, en aldrei yfirborðskennt. Hann fór undir yfirborðið, þótt hann gerði það ætíð kurteislega og af virðingu fyrir viðfangsefninu.

Enda var hann þannig sem maður líka. Vingjarnlegur og skemmtilegur, en líka eftirtektarsamur.

Ég þekkti Ingólf ekki mikið persónulega, en það var ómögulegt annað en vera vel við hann. Og nú þegar hann er látinn, þá hugsa ég til hans sem þeirrar fyrirmyndar sem hann var fyrir unga blaðamenn á sínum tíma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!