Þriðjudagur 03.05.2011 - 04:23 - FB ummæli ()

Mín sök á hruninu

Frjálshyggjan olli hruninu á Íslandi.

Um það er engum blöðum að fletta.

Frjálshyggjan sannfærði heila kynslóð af stjórnmálamönnum um að rétt væri og æskilegt að gefa athafnamönnum sem allra frjálsastar hendur.

Og að sem allra allra minnstar skorður ætti að setja á hugmyndaflug þeirra, og hvöt þeirra til að græða.

Leggja ætti á hilluna gamlar hugmyndir um að gróði væri eitthvað ósiðlegur og varasamur.

Þvert á móti væri hann drifkraftur samfélagsins.

Því einn maður sem græðir, hann dregur aðra með sér til betri efna.

Þetta er frjálshyggjan í hnotskurn.

Sú frjálshyggja sem náði smátt og smátt algerum völdum í íslenskri pólitík.

Hún var upprunnin í Sjálfstæðisflokknum, en varð líka allsráðandi í Framsóknarflokknum, og náði miklum ítökum í Samfylkingunni þegar fram liðu stundir.

Og meðal athafnamanna þóttust menn hafa himin höndum tekið að hafa fengið frjálshyggjuna upp í hendurnar.

Bankamenn og bissnissmenn, báðir voru jafn kátir.

Tilhneiging þeirra til að smeygja sér framhjá eftirliti með gerðum sínum hafði nú fengið hugmyndafræðilegan stuðning á hinum æðstu stöðum.

Hvöt þeirra til að græða sem mest og sem skjótast hafði nú verið blessuð af málsmetandi mönnum.

Og því meira sem þeir græddu, þeim mun betra fyrir samfélagið.

Græðum á daginn, grillum á kvöldin – með hinum ódauðlegu orðum Hannesar Hólmsteins.

Þannig stigu stjórnmálamenn, bankamenn og kaupsýslumenn hinn sama dans.

Vera má að hann hafi byrjað sem dannaður og úthugsaður menúett, en hann endaði sem ofsalegur hrunadans.

Og kannski gat aldrei öðruvísi farið.

En frjálshyggjupostularnir vilja ekki horfast í augu við ábyrgð sína.

Þeir sjálfir gerðu ekkert rangt, og það var heldur ekkert rangt við stefnuna.

Þetta kemur glöggt fram í viðtali sem Friðrik Sophusson, einn af helstu frjálshyggjumönnum Sjálfstæðisflokksins, átti við Heimdallarblað á dögunum.

Það var ekkert að stefnunni – hún var frábær, segir Friðrik.

Og sama segja þeir allir, frjálshyggjumennirnir.

Stefnan var rétt, stefnan var rétt, stefnan var rétt – þetta endurtaka þeir hver í kapp við annan.

Það voru einstaklingarnir sem brugðust!

(Eða réttara sagt SUMIR einstaklingar.)

Þessi áhersla á að stefnan hafi verið fullkomlega rétt, en einstaklingarnir verið breyskir og ekki þess umkomnir að fylgja henni – hún er gamalkunn úr sögunni.

Við þekkjum hana úr sögu ofstopafullra trúarbragða – þegar heitir trúmenn hafa verið að reyna að krafsa yfir glæpaverk sem framin hafa verið í nafni trúarinnar og guðs.

Við þekkjum hana aldeilis prýðilega úr sögu kommúnismans, en þegar sú helstefna hrundi í hverju landinu á fætur öðru, þá spruttu alltaf upp menn sem sögðu í viðtölum við að Heimdallarblöð að stefnan hefði samt verið rétt, það hefði bara forklúðrast svolítið að framfylgja henni.

Þetta benti ég á í pistli hér á Eyjunni um daginn.

Að það þýddi ekkert fyrir Friðrik Sophusson að halda því fram að stefna frjálshyggjunnar hefði verið svo dáindis góð, en ekki átt neina sök á hruninu.

Því í grein sem helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hólmsteinn, hefði skrifað árið 2004 hefði hann lýst hinu „íslenska kraftaverki“ – hvorki meira né minna! – sem ótvíræðum sigri frjálshyggjunnar.

Og gefið skýrt til kynna hver yrðu næstu frjálshyggjuskrefin í „íslenska efnahagsundrinu“ – einkavæðing menntakerfis, heilbrigðiskerfis, orkukerfis, og svo framvegis.

Þetta er allt svo augljóst mál að það er alveg þýðingarlaust að þræta fyrir þetta, hélt ég.

Hannes segir að vísu núna að allt hafi verið í góðu lagi til ársins 2005, en eftir það hafi hallað stórlega undan fæti.

Árð 2005 lét nefnilega hinn mikli og ástsæli leiðtogi af störfum í pólitík (í orði kveðnu).

Og Hannes segir að þá hafi vondir menn tekið völdin í sæluríkinu.

Það er óþarfi að eyða of mörgum orðum í þetta.

Í fyrsta lagi var fylgt nákvæmlega sömu stefnunni eftir 2005 og áður.

Og svo seint sem haustið 2007 kom Hannes sjálfur í sjónvarpið og hvatti til þess að enn yrði „gefið í“ í frjálshyggjunni og útrásinni.

Sjá hér.

Og í öðru lagi, þá fór nú hinn mikli og ástsæli leiðtogi ekki langt.

Hann kom sér fyrir í Seðlabankanum og hefði þaðan verið í lófa lagið að gera margvíslegar ráðstafanir sem hefðu getað mildað hrunið mjög verulega.

(Icesave, anyone?)

En gerði ekki.

En látum það liggja milli hluta – ég var sem sagt að reyna að vekja athygli Friðriks Sophussonar á því hve fráleitt það væri að frjálshyggjan, sem til skamms tíma ríkti einráð í Sjálfstæðisflokknum, hefði ekki átt neinn þátt í hruninu.

Þá fékk ég í staðinn þennan pistil hér á síðunni AMX sem gömlu frjálshyggjumennirnir halda úti til að reyna að verja síðustu vígi sín, lendur og orðspor.

Spæling!

Af því að ég taldi á sínum tíma að ákærur í Baugsmálinu gamla hefðu verið runnar af pólitískum ástæðum (eða á maður kannski bara að segja persónulegum ástæðum?) og því hefði átt að sýkna sakborninga í málinu, þá má ég ekki hafa skoðun á því hvort frjálshyggjan hafi átt þátt í hruninu.

Raunar er hrunið augljóslega mér að kenna.

Áhersla hinnar gömlu hirðar Davíðs Oddssonar á Baugsmálið er náttúrlega löngu orðin áráttukennd.

En hún er auðskiljanleg vegna þess að Baugsmálið er eina dæmið um að hinn mikli og ástsæli leiðtogi hafi reynt að sporna við uppgangi auðkýfinganna sem lögðu bankakerfið í rúst í boði frjálshyggjunnar og eftirlitsleysisins.

Eitthvað reifst hann út í Kaupþing, en henti þó í Kaupþingsmenn einhverjum milljarðatugum á síðustu andartökunum fyrir hrun – í einhverjum undarlegasta og óskiljanlegasta gjörningi hrunsins.

Og ekki reyndi hann á neinn hátt að sporna gegn Björgólfsfeðgum og Icesave.

Þannig að andstaðan við Baug er eftir á séð eina raunverulega haldreipi þessa hóps.

Og vissulega reyndist Baugur byggður á sandi eins og önnur íslensk útrásarfyrirtæki, og hrundi með braki og brestum.

En ég mæli samt með því að þegar reynt er að ganga á hólm við frjálshyggjuhópinn um þá STEFNU sem hann fylgdi, og hvaða ábyrgð sú stefna, og framkvæmd hennar, og þeirra persónulegu gjörðir, höfðu á hrunið – þá sé ekki bara brugðist við með gamalkunnu glefsi um Baug og Baugspenna, heldur reynt að svara á heiðarlegan hátt.

Við myndum, sem samfélag, hafa svo miklu meira gagn af því.

Og gætum jafnvel lært eitthvað af því.

Hvað spælingar AMX varðar, þá hef ég þegar fjallað um þau efni oftar en einu sinni eftir hrunið, ef ég man rétt.

Og ég er reyndar út af fyrir sig alveg sammála því að vissulega ber mér að axla minn hluta ábyrgðarinnar á hruninu.

Sem einstaklingur og fjölmiðlamaður.

Ég tek heils hugar undir að ég hefði átt að vara við því sem í vændum var.

En ég var því miður ekki nógu glöggur til að koma auga á það.

Það er mín sök, og ykkur að segja, þá dauðskammast ég mín.

Í því sambandi er ekki mest um vert hvort ég hafði rétt eða rangt fyrir mér um sekt eða sýknu í dómsmálinu um Baug.

Skoðanir mínar í því máli réðust fyrst og fremst af því að mér fannst – og finnst enn – að það mál hafi átt sér óeðlilegt upphaf.

En mín ábyrgð felst líka miklu frekar í að hafa verið alltof glámskyggn á hvað var að gerast í heild.

Gamli anarkistinn – hann var farinn að trúa því í fullri alvöru að þessi frjálshyggjutilraun, hún væri bara að ganga furðu vel upp!

Og sú staða sem ég hafði í fjölmiðlum, hana notaði ég ekki til að vara þrotlaust við hinu yfirvofandi hruni.

Því ég kom ekki auga á það.

Ég á mér auðvitað einhverjar málsbætur, eins og flestir.

Ég hætti að koma nálægt daglegum fréttum í fjölmiðlum haustið 2005 þegar afsköffuð var sú ágæta útvarpsstöð Talstöðin. Eftir það fylgdist ég svo sem bara með viðburðum eins og hver annar samfélagsþegn.

Flutti og skrifaði pistla, en þeir voru fyrst og fremst byggðir á því sem ég sá og las í öðrum fjölmiðlum, ekki á eigin rannsóknum.

Og þá var útrásin, hvað sem leið Baugsmálum, ennþá að mestu eins og spennandi ævintýri sem maður vissi ekki annað en myndi ganga upp.

Eða ég vissi alla vega ekki betur.

Jafnvel augljósar furður eins og flugfélagafléttur Pálma Haraldssonar, þær voru bara taldar merki um einstakt bissnissvit í blöðunum.

Eins og ég hef tekið fram áður – ég hef því miður hvorki vit né forsendur til að meta bissnissfréttir upp á mitt eindæmi.

Svo ég varð að treysta á þá sem ég vonaði að væru traustsins verðir.

Að þeir segðu mér það ef þetta væri allt byggt á sandi.

En það gerðu þeir ekki.

Nema Steingrímur og Ögmundur, og ég hafði ekki vit á að hlusta á þá.

Eiginlega allir aðrir tóku undir útrásarfrjálshyggjukórinn með Hannesi og Davíð.

Leynt eða ljóst.

Það hafði gífurleg áhrif á mig að Ólafur Ragnar Grímsson virtist ekki bara telja þetta í lagi, heldur beinlínis frábært!

Þó ég áttaði mig auðvitað á því að flestallt í þjóðernisbríma Ólafs Ragnars væri í meira lagi vafasamt og raunar ansi vandræðalegt, þá hélt ég í einlægni að hann myndi ekki mæra útrásina nema af því hún væri traustsins verð.

Það hafði líka veruleg áhrif að Ingibjörg Sólrún bakkaði útrásina upp. Ég treysti henni hundrað prósent.

Og þó ég væri í flestum atriðum andstæðingur Davíðs Oddssonar í pólitík, þá viðurkenni ég fúslega eftir á að ég hélt að hvað sem öðru liði – þá hefði hann vit á efnahagsmálum.

Og einkum og sér í lagi trúði ég því að hann myndi aldrei hætta sínum eigin orðstír með því að etja okkur út í botnlaust kviksyndi.

En þó ég geti tínt til svona hinar og þessar málsbætur og bent á fólk sem ég tók mark á og sagði mér að það væri allt í lagi með útrásina og bankarnir væru stöðugir og vel reknir og stjórnmálamennirnir væru ekki komnir á kaf í peningasukk og spillingu og frjálshyggjan væri málið, þá fríar það mig auðvitað ekki sök.

Ég hefði átt að treysta þeim vísbendingum sem bentu til að pottur væri brotinn.

Það gerði ég ekki.

Ég ber því mína persónulegu ábyrgð, og líka sem fjölmiðlamaður.

Auðvitað eru þeir margir sem bera meiri sök á hruninu en ég, en ég ætla samt ekki að skorast undan mínum parti ábyrgðarinnar.

Og ég skal trúa ykkur fyrir því að lengi lengi eftir hrunið, þá vaknaði ég iðulega í svitabaði á nóttunni uppfullur af sektarkennd yfir því að hrunið væri allt mér að kenna.

Það voru kannski svolítið ýkt viðbrögð, en það var fótur fyrir þeim.

En gleymum því samt aldrei að þrátt fyrir allt, þá var það frjálshyggjan sem átti langsamlega mestan þátt í hruninu.

Og frjálshyggjumennirnir, jafnt í pólitíkinni sem í bönkunum sem í bissnissnum.

Undan því getur enginn komist.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!