Þriðjudagur 03.05.2011 - 14:58 - FB ummæli ()

Sjón jafn góður og Laxness?

Breska blaðið Times Literary Supplement kemur út vikulega og birtir vandaða og ítarlega ritdóma um nýjar bækur um hvaðeina milli himins og jarðar.

Bókmenntagagnrýnendur TLS eru ekkert óskeikulir, en þeir leggja mikinn metnað í skrif sín, og það er því í sjálfu sér svolítill gæðastimpill fyrir rithöfunda að fá birta dóma um bækur sínar í þessu blaði.

Tala nú ekki um ef dómarnir eru jákvæðir.

Í nýjasta eintaki TLS er fyrsti og lengsti dómurinn um skáldverk ritsmíð Carolyne Larrington um skáldsöguna From the Mouth of the Whale.

Og það er óhætt að segja að hann sé mjög lofsamlegur.

Þessi skáldsaga er þýdd úr íslensku af Victoriu Cribb.

Hér á landi heitir hún Rökkurbýsnir, kom fyrst út 2008 og höfundurinn er Sjón.

Carolyne Larrinton, sem er sérfræðingur í enskum miðaldabókmenntum, byrjar dóm sinn á því að minnast á Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur sem óumdeilanlega séu þekktust íslenskra rithöfunda um þessar mundir.

En með fullri virðingu fyrir þeim, þá búi fleira í íslenskum bókmenntum en glæpasögur – og svo hefst mikil lofrulla um bók Sjóns.

Ég nenni ekki að þýða það allt, en það er gaman að sjá hvað þessi „rammíslenska“ bók Sjóns hefur hitt gjörsamlega í mark hjá þessum ritdómara TLS.

Hún endar ritdóminn á því að segja:

„Rökkurbýsnir ættu að opna fyrir fólki þá veröld íslenskra bókmennta, sem er handan glæpasagna eða frásagna frá Reykjavík um ófullnægð ungmenni borgarlífsins. Veröld náttúrunnar og hugmynda, sem stenst samanburð við Ísland Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness.“

Gaman að þessu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!