Miðvikudagur 11.05.2011 - 15:28 - FB ummæli ()

Ekki á brauði einu saman

Fólk er að henda gaman að þeirri frétt að borgaryfirvöld hafa nú mælst til þess að fólk hætti að gefa öndunum á Tjörninni brauð.

Sjá hér.

Nema sumum er ekki hlátur í hug, heldur telja þetta enn eitt dæmið um sívaxandi forsjárhyggju og stjórnsemi hvurskonar yfirvalda í samfélaginu.

Það skal tekið fram að ég er gjörsamlega á móti forsjárhyggju og stjórnsemi yfirvalda.

En eigi að síður ætla ég hér með að lýsa yfir hátíðlegum stuðningi mínum við þessi mikilvægu tilmæli borgaryfirvalda.

Ekki endilega af því mávarnir éti allt brauðið.

Heldur af því að endurnar hafa ekki gott af öllu þessu brauði.

Ég talaði einu sinni við líffræðing sem hafði gert nákvæma rannsókn á öndunum á Tjörninni.

Hann sagðist eiga heima í nágrenni við Tjörnina og hann ætti mjög bágt með sig á hverjum sunnudegi þegar veðrið væri gott og hann vissi að nú væri fólk að fjölmenna með börnin sín að gefa öndunum.

Því hann langaði svo að hlaupa niður að Tjörn og biðja fólk þess lengstra orða að hætta þessu!

Öndunum væri nefnilega enginn greiði gerður með því að venja þær á þetta endalausa brauðát.

Í fyrsta lagi væri algengasta dánarorsök andanna á Tjörninni kransæðastífla.

Svo feitt væri þeim um hjartarætur – því vel hefðu börnin alið þær … á brauðinu.

Og þær endur sem ekki drepast snemma úr kransæðafitu, þær munu víst heldur ekki lifa neinu sældarlífi.

Það fábreytta fæði sem endurnar á Tjörninni lifa á mun nefnilega leiða til þess að innyfli þeirra verða að hálfgerðum graut, og þær þjást af stöðugum verkjum, og séu jafnvel sárkvaldar flestum stundum.

Þetta er sem sagt hin hliðin á þeim skemmtilega sið að fara með börnin sín niður að Tjörn að aumka sig yfir blessaða fuglana.

Nú er ég vissulega ekki líffræðingur, og get ekki fullyrt það 100 prósent að þessi rannsókn sé óyggjandi.

En þetta hljómaði því miður alltof sannfærandi.

Því ef maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, því skyldu þá endurnar gera það?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!