Fimmtudagur 12.05.2011 - 11:47 - FB ummæli ()

Leyndarhyggja frá 2007 í Hörpu?

Þórunn Sigurðardóttir stýrir tónlistarhúsinu Hörpu.

Hún vildi ekki gefa fjölmiðlunum upplýsingar um hverjir væru á listanum yfir boðsgesti við opnun hússins á laugardagskvöld.

Sjá hér.

Spurningarnar snerust náttúrlega fyrst og fremst um það hvort Björgólfur Guðmundsson yrði á meðal boðsgestanna.

Nú er komið í ljós að svo verður. Fjölmiðlar komust að því með öðrum hætti en að spyrja Þórunni.

Ykkur að segja þá nenni ég ekki að hafa skoðun á því hvort eðlilegt sé að Björgólfi Guðmundssyni sé boðið á opnun Hörpu.

Það getur í raun hver maður sagt sér sjálfur.

En ég hlýt að amast við því viðhorfi sem fram kom í fréttinni hjá Þórunni Sigurðardóttur.

Nú er Þórunn hin mætasta kona, forkur til vinnu og áreiðanlegur mikill fengur að henni fyrir tónlistarhúsið.

En af hverju segir hún við blaðamann að hún geti auðvitað ekki gefið upp gestalistann og hann „hljóti að skilja það“.

Ekki skil ég það.

Harpa er svo sannarlega ekkert venjulegt prívathús.

Að þar eigi að vera í gangi einhver leyndarmál um jafn ómerkileg mál og lista yfir boðsgesti, það má furðum sæta.

Auðvitað hefði bara átt að opna húsið, hleypa alþýðunni inn, en sleppa sérstökum boðsgestum.

En fyrst sú leið var ekki farin, þá er algjör lágmark að gestalistinn sé ekki leyndarmál.

Þórunn held ég að hljóti bara að hafa ruglast eitthvað í stressinu fyrir opnun hússins.

Leyndarhyggja eins og sú sem birtist í orðum hennar um að gestalisti fína fólksins sé „auðvitað“ leyndarmál, eins og allir „hljóti að skilja“ – sú leyndarhyggja held ég að hljóti að tilheyra 2007.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!