Sunnudagur 22.05.2011 - 10:19 - FB ummæli ()

Hvar eru góðu eldgosin?!

Ómar Ragnarsson sagðist í útvarpinu í morgun hafa fylgst með 23 eldgosum. Það eru líklega nokkurn veginn öll þau eldgos sem orðið hafa á minni ævi.

Einhvern veginn var maður alveg gjörsamlega hættur að taka eldgos hátíðlega.

Jú, ég man hvað eldgosið í Heimaey var grafalvarlegt mál, en hefur orðið eitthvert tjón að ráði í eldgosum á Íslandi eftir það?

Eldgos virtust orðin bara svona lítil og krúttleg túristagos.

Reglulega gaus eitthvað smávegis í Grímsvötnum, en það voru aðallega bara svona huggulegir gosstrókar í fáeina daga – svo ekki meir.

Meira að segja ógnvaldurinn mikli, Hekla, virtist gjörsamlega búin að skipta um hegðun frá því sem maður les um í heimildum.

Í staðinn fyrir stórhættuleg risagos, þá gaus hún allt í einu fjölmörgum smágosum.

Ekkert af þessu var neitt hættulegt, svo ég var að minnsta kosti hættur að taka mikið mark á eldgosum – nema svona sem smá dægradvöl.

Eldgos voru hætt að vera ógnvekjandi.

Þau voru ekki lengur Mikki refur, þau voru Lilli klifurmús.

Þangað til í fyrra.

Þegar Eyjafjallajökull (af öllum eldfjöllum á Íslandi!) sýndi með öskuregni sínu hvað eldgos geta verið í alvörunni.

Og í útvarpinu í morgun virtist stefna í eitthvað alvarlegt líka.

Myrkur á Kirkjubæjarklaustri.

Mannlíf „líklega ekki í hættu að svo stöddu“.

Maður varð einhvern veginn þrumu lostinn.

Eldgos – að haga sér svona illa? Hvað var orðið af litlu sætu eldgosunum sem við vorum orðin vön?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!