Fimmtudagur 23.06.2011 - 07:44 - FB ummæli ()

Bláir silkiborðar

Stjórnlagaráð er nú farið að móta tillögur sínar um um endurskoðun á stjórnkerfi landsins. Mér sýnist að tillögur þar að lútandi verði bráðgóðar – skeleggar og mjög til bóta, en valdi þó fæstar einhverjum umbyltingum sem erftitt er að vita til hvers munu leiða.

Nú er verið að spekúlera í hvað eigi að gera við ríkisráð.

Ríkisráð eru fundir ríkisstjórnar með forseta Íslands. Þessir fundir eru haldnir þegar ríkisstjórnir biðjast lausnar eða taka við, en svo er mælt fyrir um tvo formlega ríkisráðsfundi á ári.

Spurningin er hvort á að halda í þessa fundi, og hvers vegna.

Þetta kann að virðast eðlilegur samstarfsvettvangur – þangað til maður fréttir, eins og við í stjórnlagaráðinu gerðum um daginn, hvernig fundirnir fara fram.

Þetta eru fínir hádegisverðir, og látum það nú vera, en fundirnir sjálfir felast í að upp eru lesin í heyranda hljóði öll þau lög sem samþykkt hafa verið frá síðasta ríkisráðsfundi.

Þau eru borin inn á fundinn, upprúlluð með blátt silkiband hnýtt utan um, og innsigli, og svo er lesið í gríð og erg.

Hálfs árs gamlir lagabálkar og jafnvel eldri í sumum tilfellum.

Annað er ekki gert, ef ég skildi lýsinguna á ríkisráðsfundum rétt.

Og kunningi minn sem starfaði í ráðuneyti segir mér að þar sé allt nötrandi síðustu dagana fyrir ríkisráðsfund – er til nóg af bláum silkiborðum? Er búið að strauja þá?

Nú er spurningin, á stjórnlagaráð að halda í þessa stofnun, ríkisráðið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!