Mánudagur 26.09.2011 - 06:34 - FB ummæli ()

Við eigum þetta ekki skilið

Ég brá mér frá í tvær vikur í september.

Auðvitað bjóst ég ekki við að það yrði nein bylting á Íslandi á meðan.

En samt vonaði ég undir niðri að eitthvað gott myndi gerast.

Það hefði verið svo gaman að koma til baka og fá óvæntar jákvæðar fréttir úr samfélaginu.

En nei.

Það helsta sem virðist hafa gerst þessar tvær vikur er málþóf á Alþingi.

Ofsafengnara og heimskulegra en nokkru sinni fyrr.

Fyrirgefiði, þó ég spyrji: En hvað í ósköpunum höfum við eiginlega gert af okkur í fyrra lífi til að verðskulda þetta?!

Það verður brýnna og brýnna að létta bölmóði hrunsins af þjóðinni, finna nýjar leiðir til uppbyggingar og sópa burt þeirri rifrildispólitík sem hér hefur heltekið allt síðustu árin.

Hruninu er lokið. Það þarf og verður að byggja nú upp – bæði samfélagið og andlegt ástand þjóðarinnar.

Og hvað gera stjórnmálamennirnir þá?

Jú – þeir bjóða upp á nýja umferð af málþófi. Með skipulögðum frammíköllum, andsvörum og öllu galleríinu.

Eina ferðina enn.

Ja svei!

Jú – og svo hefur það gerst að risin er bylgja stjórnmálastéttarinnar til að kveða niður þá skelfilegu hugmynd að nýtt afl og nýtt fólk megi eða eigi að koma til sögunnar í íslenskri pólitík.

Af því það er svo ómerkilegt fólk!

Annað en þetta vandaða fólk sem nú situr á þingi, ha?

Hvenær verðum við frjáls undan þessu?

Í gærkvöldi var sýnd í sjónvarpinu heimildarmynd um stjórnlagaráð.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það stjórnarskrárfrumvarp sem við í stjórnlagaráði bjuggum til með hjálp ótal áhugamanna um land allt sé ljómandi gott plagg, sem geti haft margar mjög góðar breytingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag.

En vinnubrögðin sem við notuðum til að ná sátt eru líka til eftirbreytni í sjálfu sér.

Og sýndu hvað er hægt.

Það er hægt að fara aðrar leiðir til að skila okkur út úr þokusudda hrunsins heldur en málþóf á Alþingi.

Hvað svo sem við kunnum að hafa gert af okkur í fyrra lífi: Við eigum þetta ekki skilið lengur!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!