Föstudagur 30.09.2011 - 15:02 - FB ummæli ()

Sandur

Ég kom frá Úsbekistan fyrir viku. Fór þangað með ferðahópi sem mín góða móðir, Jóhanna Kristjónsdóttir, stýrði.

Þetta var einstök lífsreynsla. Ég uppgötvaði að ég hafði gert mér afar takmarkaða hugmynd um hvernig mannlífið liti út í Úsbekistan, þarna í miðri Mið-Asíu.

Þar reyndist vera alveg einstaklega vingjarnlegt og alúðlegt fólk – forvitið, skemmtilegt og fallegt.

Úsbekistan er að mörgu leyti auðugt land – þar er olía, gas, úran, gull …

Og þó við Íslendingarnir höfum auðvitað ekki séð nema brot af landinu, þá fékk maður ekki á tilfinninguna að þar ríkti sár fátækt í einhverjum kimum samfélagsins.

En þar er samt þrjátíu prósenta atvinnuleysi og nær engar atvinnuleysistryggingar.

Úsbekar eru samt duglegir við að búa sér til vinnu, og á torgi einu í bæ í hinum ægifagra Ferganadal rákumst við á hóp kvenna að störfum.

Allir götusóparar í Úsbekistan eru konur og þær vinna líka margvísleg önnur störf, en þetta voru reyndar þær einu sem ég rakst á sem voru í byggingarvinnu.

Ef svo má þó segja.

Þær voru svona tuttugu talsins og gengu tvær og tvær saman og báru sand á poka á milli sín.

Úti á miðju torginu var sandhrúga þar sem karlmaður nokkur mokaði nokkrum skóflufyllum upp á poka kvennanna, og svo gengu þær í mestu rólegheitum af stað með sandinn.

Þær voru alls ekki að flýta sér.

Þær röltu þetta sem sandinn svona 80 metra eða svo, og sturtuðu honum þar af pokanum í aðra sandhrúgu.

Og töltu svo til baka í sömu rólegheitum, og hvíldu sig stundum svolítið á milli.

Við hliðina á sandhrúgunni var svolítil grafa sem hefði getað náð næstum allri sandhrúgunni í einu upp í skóflu sína og fært hana í einu vetfangi, en enginn sá ástæðu til nota hana.

Þetta var rólegheita þægindastarf.

Ég þarf vonandi ekki að taka fram að ég er ekki að nefna þetta til að gera lítið úr starfi kvennanna, fjarri því. Bara sýna að sinn er siður er í landi hverju, og mér fannst þetta raunar sérkennilega fallegt verklag.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!