Fimmtudagur 20.10.2011 - 16:50 - FB ummæli ()

Er loks að linna flumbrugangi stórkarlanna?

Það var ansi merkilegt viðtalið sem Helgi Seljan átti við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í Kastljósi í gærkvöldi.

Um jarðskjálftana í Hveragerði – en líka um ýmis önnur brennandi málefni Orkuveitunnar frá fyrri tíð.

Bjarni er náttúrlega nýtekinn við OR og gaf til kynna að hann vildi helst ekki þurfa að svara mikið fyrir fortíð fyrirtækisins.

En hann gerði það nú samt, og tónninn í hinum forstjóra var satt að segja verulega athyglisverður.

Því hann var svo hreinskilinn!

Bjarni er greinilega ekki maður sem tekur stórt upp í sig opinberlega, en hann viðurkenndi samt í reynd að næststærsta virkjun á Íslandi (á Hellisheiðinni) hefði verið reist í fljótfærni og að mjög lítt athuguðu máli.

Og þótt hann vildi ekki nota orðið „mútur“ sem Helgi varpaði fram til að lýsa samningi Orkuveitunnar við sveitarfélagið Ölfus – og fól í sér að OR átti að reisa fjárrétt, leggja ljósleiðara og setja upp ljósastaura við Þrengslaveginn – þá fór ekki milli mála að hann skildi alveg það orðaval.

Ég held að fólk ætti að horfa vandlega á þetta viðtal.

Hér er það.

Auðvitað hefur sumt af þessu verið kunnugt lengi, Lára Hanna Einarsdóttir skrifaði til dæmis á sínum tíma mikið um hinn makalausa samning OR við Ölfusinga.

En framganga Bjarna er vonandi merki um að sá stjórnendakúltúr sem hér hefur alltof lengi viðgengist sé á undanhaldi – þar sem menn settu undir sig hausinn og önuðu áfram eins og naut í flagi, viðurkenndu aldrei mistök og hristu fyrirlitlega af sér allar efasemdir um framkvæmdir, framkvæmdir og aftur framkvæmdir.

Athyglisvert er að á mánudaginn var Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í öðru viðtali við Helga Seljan í Kastljósi. Þó Hörður hafi ekki virkað alveg eins „viljugur til hreinskilni“ eins og Bjarni, þá fékk Helgi þó upp úr honum að lokum að ofmat þeirrar orku sem hægt væri að virkja á svæðinu við Húsavík hefði orðið til þess að skrúfa upp væntingar Húsvíkinga um álver og aukna atvinnu í bænum.

Væntingar sem voru í raun eingöngu byggðar á gyllivonum Landsvirkjunar.

Þannig hafa í einni og sömu vikunni forstjórar tveggja stærstu orkufyrirtækja Íslands verið í viðtölum, þar sem þeir hafa svo gott sem slátrað stórkarlalegum áformum Íslendinga í háhitamálum – og gefið lítið fyrir fáranlegan flumbrugang og væntingar sem kýldar hafa verið upp í framkvæmdum við háhitavirkjanirnar undanfarin ár.

Kannski miðar okkur eitthvað, þrátt fyrir allt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!