Fimmtudagur 20.10.2011 - 20:44 - FB ummæli ()

Opið bréf til forsetans

Heill og sæll Ólafur Ragnar.

Ég hef eins og aðrir Íslendingar fylgst með fréttum af bréfaskriftum þínum og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um mögulegar siðareglur forsetaembættisins sem margir hafa talið nauðsynlegt að settar yrðu eftir hrunið.

Ekki fer milli mála að þér finnst það ekki koma forsætisráðherra nokkurn skapaðan hlut við hvort þú kýst að setja þér siðareglur eða ekki.

Í bréfi til Jóhönnu vísaðir þú til þess að þú sem forseti værir þjóðkjörinn og ættir því aðeins undir þjóðina sækja; forsætisráðherra hefði ekkert boðvald yfir þér.

Og þér bæri því engin skylda til að svara einu né neinu sem frá ráðherra kæmi.

Þeir sem fjallað hafa um bréf þitt til Jóhönnu opinberlega hafa einkum staldrað við orðalag þess – hvort það hafi verið óþarflega hvasst.

En mér er alveg sama um það. Ég efast ekki um að Jóhanna Sigurðardóttir þoli alveg að fá hvassyrt bréf.

Og alveg burtséð frá orðalaginu, þá finnst mér reyndar að þú hafir í stórum dráttum rétt fyrir þér. Forsætisráðherra eigi að skipta sér sem minnst af hinum þjóðkjörna forseta.

En í umræðum um orðalag og formsatriði hefur hið upphaflega erindi því miður gleymst.

Sem sé hvað líði siðareglum forsetaembættisins.

Forsætisráðherra kemur það kannski ekki við, en samkvæmt þínum orðum, þá kemur mér það við. Ég er nefnilega partur af þjóðinni og hef verið frá því ég fæddist.

Og þar sem forsetinn sækir völd sín og áhrif til þjóðarinnar, þá hljótum við – samkvæmt þínu eigin áliti – að vera sammála um að þér beri þá skylda til að svara mér varðandi þessar siðareglur.

Ég veit ósköp vel að þú hefur nú þegar gefið til kynna að þér finnist algjör óþarfi að forsetaembættið hafi siðareglur.

En ég er ekki á því.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá því í fyrra segir svo í áttunda bindi (blaðsíðum 170-178):

„Forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim … Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi …[N]okkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. [Þótt] kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.“

Nú má vel vera að þú sért orðinn nýr og betri maður. Öllum förum við vonandi svona frekar skánandi en hitt. En sú lýsing sem birtist þarna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar virðist þó gefa til kynna að öruggast væri að setja forsetaembættinu snöfurlegar siðareglur, svo annað eins og þessi ósköp endurtaki sig helst ekki.

Ertu ekki þrátt fyrir allt sammála því? Verða ekki siðareglurnar örugglega settar von bráðar?

Mér þykir nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta hið fyrsta.

Þó ekki væri vegna annars en þess að forsetakosningar verða jú á næsta ári.

Ég treysti því þess vegna að fá sem fyrst svar, samkvæmt þinni eigin skilgreiningu á að það varði mig sem hluta af íslensku þjóðinni.

Með bestu óskum,

Illugi Jökulsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!