Fimmtudagur 20.10.2011 - 14:11 - FB ummæli ()

Skrípó? Held nú ekki!

Ritstjóri Eyjunnar hefur kosið að gera mjög hátt undir höfði í fréttaveitu sinni bloggfærslu sem Harpa Hreinsdóttir birti í gær um bók Þráins Bertelssonar, Fallið.

Bók Þráins fjallar eins og vonandi flestir vita um fyllerí sem hann lenti á í Færeyjum í sumar, og þó einkum og sér í lagi þá meðferð sem hann dreif sig í eftir fylleríið – því Þráinn er alkóhólisti og á ekki að drekka brennivín.

Fallið var honum því vitaskuld mikið áfall og í bókinni fjallar Þráinn vítt og breitt um tilfinningar sínar og hugleiðingar af þessu tilefni, horfist í augu við sjálfan sig og svipast um meðal samferðamanna sinna.

Þetta er falleg og einlæg og þó um leið undarlega skemmtileg bók. Hún er greinilega skrifuð af innri þörf – þetta er spegilmynd af höfundinum og hans vandamáli og hans lausn á því vandamáli, og í speglinum bregður líka fyrir öðru fólki.

Af hverju Harpa Hreinsdóttir finnur hjá sér innri þörf til að gera lítið úr og hæðast af heilmiklu yfirlæti að þessari einlægu bók Þráins, það er mér hulin ráðgáta.

Og alveg sérstaklega hvernig hún getur lesið „sjálfsupphafningu“ út úr bókinni.

Það er nú eitthvað annað. Þegar minnst er á að kjaftakerlingar af báðum kynjum muni smjatta á að alþingismaðurinn Þráinn sé lentur inná Vogi, þá er það bara staðreynd sem allir sem þekkja hinnar raunalegri hliðar íslensks samfélags ættu að vita.

En einkum hlýt ég að skjóta skildi fyrir Þráin hvað snertir þá fyrirsögn sem hún velur bloggpistli sínum og endurtekur síðan í textanum.

Að þetta sé „skrípóbók“.

Harpa Hreinsdóttir má auðvitað hvað skoðun sem hún vill á bók Þráins Bertelssonar – annaðhvort væri nú. Hún virðist vera þeirrar skoðunar að í bókinni ætti að vera fræðilegri umfjöllun um alhóhólisma, og að þar ættu að vera fleiri sögur um konur – og þessar skoðanir er henni vitaskuld heimilt að hafa.

Þótt það kunni nú aldrei góðri lukku að stýra þegar maður skrifar um bækur að skrifa frekar um það sem manni sjálfum finnst að bókin ætti að vera um, en ekki bókina sjálfa.

Henni er líka alveg heimilt að þykja bókin yfirborðskennd. Ég botna reyndar ekki í því, af því bókin gefur sig ekki út fyrir að vera neitt annað en hún er – frásögn af persónulegum raunum Þráins Bertelssonar og nokkurra vina hans og kunningja. Og mér persónulega þykir sú frásögn alveg hreint ljómandi djúp, takk fyrir!

En orð Hörpu að þetta sé „skrípóbók“ finnst mér verulega aðfinnsluverð.

Það lýsir svo miklum hroka – vonandi óvart, en hroka samt – að ég sjálfur myndi biðjast afsökunar ef ég hefði notað þetta orð um bók eins og Fall Þráins Bertelssonar. Þráinn hefur augljóslega lagt sál sína í verkið og þó einhver lesandi sé máske ekki fyllilega sáttur við útkomuna, þá finnst mér alveg einkennilega ljótt að komast svo að orði að afraksturinn sé „skrípóbók“.

Sér í lagi vegna þess að bókin er svo augljós EKKI neitt skrípó. Þvert á móti.

Þó hún sé vissulega ansi fyndin á köflum!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!