Miðvikudagur 26.10.2011 - 10:20 - FB ummæli ()

Með fingraför á sálinni

Íslendingar virðast stundum eiga alveg óstjórnlega erfitt með að festa hugann við kjarna málsins lengur en 2-3 daga.

Nú virðist til dæmis vera upphafin mikil umræða um að sá góði drengur og sérlega hæfi sérfræðingur í bankasýslu Páll Magnússon hafi verið hrakinn úr starfi af fáeinum vondum þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, og ástæðan eingöngu sú að aumingja Páll hafði einhvern tíma sést í hópi framsóknarmanna.

Að öðru leyti var hann og er guðs engill.

Ég er auðvitað að ýkja dálítið hressilega – en tónninn sem ég er að vísa til birtist til dæmis hérna.

En þeir sem þessu halda fram – þar á meðal Páll sjálfur honum til nokkurs álitshnekkis, verð ég að segja, og svo náttúrlega Bjarni Benediktsson sem stökk umsvifalaust á þennan vagn eins og aðra sem leið eiga hjá Valhöll og fjasaði í fréttunum um „pólitísk fingraför“ á málinu – þeir virðast ekki geta munað stundinni lengur að það voru ekki Helgi Hjörvar eða Sigríður Ingibjörg sem „hröktu“ Pál úr embætti.

Það var almenn hneykslun í samfélaginu öllu.

Það var fólk almennt sem fylltist þvílíkri andstyggð á ráðningu Páls til Bankasýslunnar að auðvitað gat ráðningin ekki staðið – þótt furðu lengi væri þumbast við, og loks reynt að kenna flokkapólitík um allt saman.

Og ástæðurnar fyrir þeirri andstyggð fólks voru ekki andúð á Páli persónulega, og heldur ekki í sjálfu sér sú staðreynd að hann sé framsóknarmaður.

Heldur þær tvær ástæður sem ég hef hamrað á frá byrjun:

Hann uppfyllti augljóslega ekki skilyrði laga um yfirmann bankasýslunnar.

Og hann var – hvað sem hver segir – innsti koppur í búri einkavinavæðingar bankanna, og á af þeirri ástæðu einni ekki að koma nálægt endurskipulagningu bankakerfisins. Hversu hæfur sem hann kann að vera á öðrum sviðum.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að risastór meirihluti þjóðarinnar vildi ekki þessa ráðningu, og þetta eru ástæðurnar fyrir því að hún gat ekki gengið í gegn.

En þeir sem eru fixeraðir á pólitíska flokka virðast ekki geta horfst í augu við að stundum hafi FÓLK áhrif. Það hljóta bara að vera flokkspólitísk fingraför á öllum hlutum!

Þeir sem svo hugsa, það eru jú líklega fyrst og fremst þeir sem eru sjálfir með fingraför á sálinni – kámug pólitísk fingraför.

Vonandi kemur einhvern tíma sú tíð að við getum þvegið þau af sál okkar.

En það þarf greinilega nýtt fólk til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!