Fimmtudagur 27.10.2011 - 13:48 - FB ummæli ()

Sveitaleg yfirpróduktión

Ég hef verið að glugga í safn bréfa sem Halldór Laxness skrifaði Ingu fyrri konu sinni á árunum 1927-1929 og Halldór Guðmundsson og Einar Laxness önnuðust útgáfu á. Þetta er bráðskemmtilegur lestur, og afar fróðlegur – en það fer reyndar óstjórnlega í taugarnar á mér að þeir tvímenningar skuli segja í formála um útgáfuna að bréfin séu birt „að mestu óstytt“. Hér þarf að fylgja sögunni hvað hefur verið strikað út. Kannski er enginn missir að því, en það er slæmt að vita ekki hvers eðlis þeir kaflar voru sem lentu undir hnífnum.

En það er fengur að svo ótal mörgu í þessum bréfum. Upp á síðkastið hefur verið uppi sú mynd af Halldóri Laxness sem persónu að hann hafi verið frekar „cold fish“. Því kemur dálítið á óvart sú ágæta hlýja og ástríki sem hann sýnir í bréfunum.

Þessi bréf auka náttúrlega við skilning manns á Laxness og sýna mannlegu hliðina á honum. Og það er gaman að mörgu – eins og til dæmis þegar Halldór er á ferð í Sovétríkjunum 1932 og skrifar til Ingu:

„Aldrei hef ég komið í land, þar sem fólkið er jafn laust til alt kóketterí eins og hér. Ég get ekki hugsað mér borg sem verkar eins kynlaust og Moskwa, – og samt er hvergi jafn sveitaleg yfirpróduktión af börnum.“

Sveitaleg yfirpróduktión af börnum – þarna finnst mér skemmtilega að orði komist!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!