Sunnudagur 27.11.2011 - 15:40 - FB ummæli ()

Syndir sósíalista

Á nýliðnum fundi sagnfræðinga var rætt um íslenska kommúnista og sósíalista.

Tilefni fundarins voru ásakanir frá Þór Whitehead og einnig Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um að þeir hefðu verið hálfgerðar strengjabrúður sovéskra kommúnista.

Ýmsir hafa andmælt því (sjá til dæmis hér) og bent á að þjóðernisstefna hafi verið mjög rík í íslenskum vinstrimönnum, og jafnvel sterkari en hvöt þeirra til að hlýða skoðanasystkinum þeirra eystra.

Um fundinn fjalla ég kannski nánar síðar, en í bili fannst mér merkilegast að heyra ábendingu doktor Ragnheiðar Kristjánsdóttur á þessum fundi.

Hún sagði, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að þjónkun vinstrimanna við Moskvu, eða alþjóðahyggja þeirra almennt, hefði ekki verið slík að það stappaði nærri landráðum af einhverju tagi:

„En það má jafnframt færa rök fyrir því að þjóðernisáhersla þeirra hafi, þegar til lengri tíma er litið, verið til óþurftar, bæði fyrir þann hóp sem kommúnistar töldu sig berjast fyrir, og fyrir íslenska þjóðríkið.

Þannig virðist mér sem að um og upp úr seinna stríði hafi sjálfstæðisbaráttan verið orðin slíkt aðalatriði í stjórnmálaorðræðu íslenskra sósíalista að það hafi í raun yfirskyggt þá áherslu á efnahagslegt og félagslegt jafnrétti sem átti að vera kjarninn í sósíalískri stefnu þeirra.

Meira hafi farið fyrir raunverulegri og ímyndaðri sjálfstæðisbaráttu en baráttunni fyrir jöfnuði. Þetta er vissulega einföldun á flóknum veruleika íslenskra stjórnmála, en samt sem áður held ég ein birtingarmynd – og hér kemur enn grófari einföldun – á því rótgróna einkenni íslenskra stjórnmálamenningar að leggja meiri áherslu á sjálfstæði frá útlendu valdi en innviði samfélagsins.

Hannes Hafstein orðaði þessa tilhneigingu svo árið 1888 að sjálfstæðisbarátta Íslendinga snerist fyrst og fremst um að selflytja valdið frá Danmörku til Reykjavíkur. Tilgangurinn væri ekki að gera menn frjálsari heldur að ná fram því sem þætti meira í munninn fyrir þjóðina sem þjóð.

Vegna ofuráherslu sinnar á þjóðernissinnaðan málflutning lögðu róttækir vinstrimenn sitt af mörkum til að næra þá þjóðernissinnuðu umræðuhefð sem oft hefur að mínu mati, og þetta er persónulegt pólitískt mat frekar en fræðilegt, kannski, oft staðið okkur fyrir þrifum.

Þetta tjón sem þeir þannig tóku þátt í að vinna þegnum íslenska ríkisins er í mínum huga alvarlegt þott það geti tæpast kallast landráð – að minnsta kosti ef við höldum okkur við það hvernig landráða hafa yfirleitt verið skilgreind með lögum.

En það má kannski segja sem svo að ef við höldum okkur við það sem gerðist, en ekki það sem hefði getað gerst,  þá hafi Íslendingum fremur orðið meint af þjóðernisstefnu íslenskra kommúnista en alþjóðahyggju þeirra eða hlýðni við Moskvuvaldið.“

Mér finnst þetta fín ábending hjá Ragnheiði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!