Fimmtudagur 22.12.2011 - 09:46 - FB ummæli ()

Ævintýralega flottar þjóðleiðir, og fleiri bækur

Í jólabókaflóðinu beinist yfirleitt mest athygli að skáldsögum en það eru fleiri bækur á kreiki. Hér eru nokkrar sem mér finnst athyglisverðar:

1001 þjóðleið eftir Jónas Kristjánsson er náttúrlega ævintýralega flott. Þarna eru taldar upp göngu- og reiðleiðir um allt land, sýndar á mjög aðgengilegu korti og stutt og gagnorð lýsing á hverri leið. Svo fylgir diskur með GPS-upplýsingum um leiðirnar. Ekki kann ég nú ennþá að nota svoleiðis, en þetta er ógnarfínt og fróðlegt.

Táknin í málinu eftir Sölva Sveinsson er einstaklega fróðleg líka, skrá í stafrófsröð yfir óteljandi tákn í bókum og hvað þau merkja. Bæði bókmenntaleg tákn og myndræn. Vissuði til dæmis að döðlur eru karllægt tákn?!

Þá er ævisaga Napóleons komin út, eftir sænskan höfund. Mjög skemmtileg og gagnleg bók – og þótt hún sé þykk, þá finnst manni helst að hún mætti vera enn þykkari. Ekki mikið af nýlegu lesefni hefur verið til um Napóleon á íslensku, svo hér er bætt úr brýnni þörf!

Ég er ekki enn búinn að lesa Dauðann í Dumbshafi eftir Magnús Þór Hafsteinsson en hef fullan hug á því. Hún fjallar enda um efni sem ég las um mér til óbóta á yngri árum, skipalestir bandamanna sem fóru um Ísland á leið sinni til Rússland í síðari heimsstyrjöld. Mér sýnist bók Magnúsar Þórs sneisafull af fróðleik … og gaman að endurnýja kynnin við PQ-17 og þá félaga alla!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!