Laugardagur 24.12.2011 - 08:27 - FB ummæli ()

Megi nú fara að birta

Þegar ég var lítill drengur hlustaði ég með næstum óttablandinni virðingu á jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu.

Með hátíðlegri rödd þularins sendi fólk hugheilar jólakveðjur til ættingja og vina og auðvitað um leið til allrar þjóðarinnar.

Hugheilar – göfugt orð sem annars heyrist aldrei nema í jólakveðjum.

Og ég hugsaði: „Mikið hlýtur það fólk að eiga undir sér sem sendir allri þjóðinni hugheilar kveðjur sínar á svona hátíðarstundu.“

Þegar ég óx úr grasi og fór að standa á eigin fótum hugsaði ég stundum með mér hvort ég ætti nú að stíga það stóra skref að senda vinum og ættingjum jólakveðju í útvarpinu.

Mundi það ekki hljóma dæmalaust fallega að heyra hljómríka rödd þularins bera kveðju mína upp um fjöll og firnindi, og til sjávar sem sveita?

En mér fannst ég ekki hafa nóg til þess unnið, ekki ennþá, svo ég lét það bíða.

Nú er ég kominn yfir fimmtugt og finnst ég enn ekki orðinn nógu stálpaður í sinni, til að vera verðugur þess að senda þjóð minni kveðjur á þennan tignarlega hátt.

Ætli það verði ekki seint?

Sem betur fer er í millitíðinni búið að finna upp netið.

Og það ætla ég nú að nota til að senda ættingjum og vinum og já – þjóðinni allri! – mínar einlægustu og fegurstu jólakveðjur.

Og megi nú fara að birta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!