Föstudagur 30.12.2011 - 17:46 - FB ummæli ()

Burt með ráðherrana

Einu sinni voru til starfsheitin „hjúkrunarkona“, „fóstra“ og „flugfreyja“.

Eins og augljóst má vera af orðunum voru eingöngu konur í þessum stéttum.

Svo fóru tínast einn og einn karlmaður í þessi störf, og þá varð kvenleiki orðanna til vandræða.

Það sér það hver maður að það var engin leið að fúlskeggjaður karl með typpi og allt kallaðist „hjúkrunarkona“ í símaskránni.

Þá varð til orðið „hjúkrunarfræðingur“.

Á sama hátt urðu „fóstrur“ að „leikskólakennurum“ og „flugfreyjur“ að „flugþjónum“ (sem er opinbert starfsheiti stéttarinnar, þótt konur í flugþjónsstörfum séu vissulega enn kallaðar flugfreyjur).

Þetta gekk átakalítið fyrir sig. Það þótti einfaldlega liggja í augum uppi að karlmenn gætu varla borið mjög kvenlæg starfsheiti.

En sama máli gegndi ekki um ýmis starfsheiti sem gáfu til kynna karlmennsku þess sem starfinu gegndi.

Og alveg sérstaklega var orðið „ráðherra“ talið ósnertanlegt.

Orðið „herra“ felur beinlínis í sér að sá sem ber þann titil er karlmaður. Eigi að síður voru konur þær, sem seint og um síðir fóru að komast til metorða í íslenskri pólitík, skikkaðar til að bera þetta starfsheiti.

Þó engum dytti sem fyrr segir í hug að bjóða hjúkrunarfræðingi af karlkyni upp á að kallast hjúkrunarkona.

Ástæðan fyrir því að allar raddir um að breyta starfsheiti „ráðherra“ hafa verið kveðnar í kútinn er samt vonandi ekki fyrst og fremst karlremba.

Ég held nefnilega tregðan til að skipta um starfsheiti stafi frekar af hrifningu íslenskra stjórnmálamanna á því hvað orðið er belgingslegt og „mikilfenglegt“.

Það beinlínis drýpur af því valdhrokinn.

Ráð-HERRA – sá hlýtur að vera mikill maður!

Sumir halda að orðið „ráðherra“ eigi sér ógnarlangan þegnrétt í tungunni, og þess vegna sé dónalegt að hrófla við því.

En það er ekki rétt.

Undir lok 19. aldar, þegar Íslendingar voru farnir að krefjast aukinnar sjálfstjórnar frá Dönum, þá var ævinlega talað um að landsmenn fengju „ráðgjafa“ til að sinna sínum málum.

Svo þegar heimastjórninni var komið á 1904, þá hét það allt í einu að Hannes Hafstein yrði „ráðherra“.

Ég veit ekki hvort það var Hannes sjálfur sem réði þessu, svo embættisheiti hans yrði tignarlegra, eða hvort íslenskir stjórnmálamenn almennt sameinuðust um að belgja svona út ráðgjafaheitið.

Gaman væri að frétta af því hver fann upp á þessu.

En altént hefur þessi titill – „ráðHERRA“ – alveg áreiðanlega átt sinn sálfræðilega þátt í því að íslenskir ráðamenn, sem komast í þetta embætti, hafa farið að líta á sig sem smákónga sem séu nánast einráðir hver á sínu sviði.

Það er best að breyta þessu.

Því hefur oft verið hreyft en aldrei neitt orðið úr.

Hvernig væri að ganga nú í málið?

Á tungum nágrannalandanna kallast þeir sem gegna ráðherraembættum yfirleitt „þjónar“ („minister“ þýðir þjónn, en það er algengt starfsheiti ráðherra á Vesturlöndum) eða „ritarar“.

Drífum nú í að breyta þessu hér hjá oss!

Forsætisþjónn – fjármálaþjónn – etc. Þetta mun kannski hljóma skringilega í nokkrar vikur eða mánuði, en svo venst það.

Og við græðum annars vegar meiri hógværð þeirra stjórnmálamanna sem eiga vitaskuld að líta á sig sem þjóna okkar, og hins vegar er dregið úr karlrembunni.

Þjónn er vissulega karlynsorð, en það felur þó ekki beinlínis í sér að sá sem gegnir því starfsheiti sé með typpi eins og raunin er um ráðherrann.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!