Miðvikudagur 18.01.2012 - 09:01 - FB ummæli ()

Sýndaruppgjör

Slitastjórn Landsbankans hefur nú höfðað mál gegn sjö einstaklingum vegna tugmilljarða, sem runnu út úr bankanum daginn fyrir hrun hans.

Einstaklingarnir eru æðstu stjórnendur bankans, og nokkrir stjórnarmenn.

Að því er mér sýnist við lauslega skoðun á málshöfðun slitastjórnarinnar er því ekki haldið fram að stjórnarmennirnir hafi persónulega gengið út úr bankanum með seðlabúnt í öllum vösum.

Málarekstur gegn þeim er reistur á þeirri ábyrgð sem þeir báru sem stjórnarmenn.

Að sjálfsögðu hef ég ekki minnstu hugmynd um hver verður niðurstaða málshöfðunarinnar, en það verður náttúrlega bara útkljáð fyrir dómstólum, svo sem eðlilegt má heita.

Eða hvað?

Getur verið að innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður réttarfarsmála í landinu, muni beita sér á einhvern hátt fyrir því að málshöfðun slitastjórnarinnar gegn stjórnarmönnunum verði stöðvuð?

Það gæti hvarflað að manni!

Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Ögmundur Jónasson nefnilega um ákærur gegn Geir Haarde um að hann hafi brugðist þeirri ábyrgð sem hann bar sem forsætisráðherra síðustu 17 mánuðina fyrir hrun.

Og þar er að finna merkilega setningu:

„Réttarhöld yfir nokkrum einstaklingum vegna andvaraleysis þeirra og mistaka, geta í mínum huga aldrei orðið annað en sýndaruppgjör við skipbrot pólitískrar kreddu sem kjósendur studdu aftur og aftur.“

Ögmundur er náttúrlega að tala um pólitík, en grundvallaratriði réttarfars hljóta vitaskuld að gilda bæði um pólitík og á öðrum sviðum.

Ráðherrann skrifar því væntanlega áfram undir setninguna þó henni sé breytt lítillega:

„Réttarhöld yfir nokkrum einstaklingum vegna andvaraleysis þeirra og mistaka, geta í mínum huga aldrei orðið annað en sýndaruppgjör við skipbrot fjármálalegrar greddu sem hluthafar studdu aftur og aftur.“

Kannski þykir þetta léttúðugt, ég veit það ekki.

En réttarkerfið í landinu getur varla verið alveg ósnert af því að æðsti yfirmaður réttarfars í landinu hafi gefið svo sterklega til kynna að einstaklingar beri ekki ábyrgð á gerðum sínum – og skuli því ekki sæta ábyrgð fyrir dómstólum – ef ætla má að þeir hafi fyrrum notið víðtæks stuðnings til starfa sinna.

Kjósendur kusu Geir, hluthafar Landsbankans sáluga kusu stjórnarmennina.

Það er „sýndaruppgjör“ að mati ráðherra dómsmála að draga Geir til ábyrgðar – og hlýtur þá ekki það sama að gilda um stjórnarmenn Landsbankans í þeirra máli?

Undirmenn Ögmundar og aðrir starfsmenn í réttarfarskerfi landsins leggja líklega eyrun við þessu!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!