Fimmtudagur 19.01.2012 - 14:29 - FB ummæli ()

Baltasar

Það er full ástæða til að óska Baltasar Kormáki til hamingju með hinn góða árangur sem nýja myndin hans er að ná í Ameríku. Og Lilju konunni hans líka – sem vafalítið á sinn þátt í árangri hans.

Baltasar hefur náð frábærum árangri – og vissulega máske ööööörlítið óvæntum ef litið er töluvert aftur í tímann, til þess tíma þegar hann stökk fram á sjónarsviðið.

Fyrstu árin vissi maður kannski ekki alveg hvað maður átti að halda um Baltasar.

Hann reiddi persónutöfrana í þverpokum, hafði mikið sjálfstraust og var duglegri en andskotinn – en slíka eiginleika hafa nú ýmsir án þess að ná að þroska þá eða gera eitthvað úr þeim.

En Baltasar reyndist hafa tvennt til viðbótar uppí erminni – mikla seiglu og mjög umtalsverða listræna hæfileika.

Svo það er ekkert nema gott um það að segja hvað hann er kominn langt á framabrautinni.

Það er bara eitt.

Ég er nú ekki búinn að sjá Contraband en hinar bíómyndirnar hans hafa verið fínar og góðar, og í alla staði til fyrirmyndar.

Ég hef fulla trú á að Contraband sé það líka.

(Enda er hann með afar góðan klippara sér við hlið!)

Ég held samt að ennþá að minnsta kosti sé Baltasar sem LISTAMAÐUR flottastur sem leikstjóri á leiksviði.

Þar hafa hugmyndaauðgi hans, listræn sýn og samstarfshæfileikar virkilega blómstrað.

Hér dugir að nefna hið nýlegasta dæmi, sem er Gerpla.

Sprúðlandi fjör! Mjög myndræn hugsun. En líka ansi djúpskreið sýn á bæði verkið og lífið.

Svo – með djúpri virðingu fyrir bíómyndunum – þá skulum við vona að piltur verði áfram svolítið á leiksviðinu líka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!