Laugardagur 21.01.2012 - 21:14 - FB ummæli ()

Sterki maðurinn

Ég sá í gær fréttatíma í danska sjónvarpinu þar sem fjallað var um ástandið í Ungverjalandi.

Þar er Viktor Orbán forsætisráðherra og hefur verið síðan 2010, en áður gegndi hann embættinu frá 1998-2002.

Ungverjar áttu við miklar efnahagsþrengingar að stríða 2010 eins og fleiri, og Orbán sannfærði stóran hluta þjóðarinnar um að hann hefði lausnirnar.

Það hefur nú ekki sýnt sig ennþá, held ég, en hins vegar fór Orbán strax að herða valdatauma sína.

Hann hafði svo mikið fylgi á ungverska þinginu að hann gat breytt stjórnarskránni upp á sitt eindæmi, og í nýju stjórnarskránni voru stigin ýmis óhugnanleg skref.

Orbán vildi ráðskast með ungverska seðlabankann, hann vildi fá mikil og óskoruð völd yfir því hverjir yrðu hæstaréttardómarar, og hann herti tök yfirvalda á fjölmiðlum með sérstökum lögum.

Sum af þessum hugðarefnum Orbáns kunna að hljóma kunnuglega.

Evrópusambandinu, sem Ungverjar eru aðilar að, blöskraði sú mannréttindaskerðing og valdasamþjöppun sem í nýju stjórnarskránni fólst, og sambandið er nú að þrýsta á Orbán að breyta um kúrs.

Vonandi tekst það, en það sem ég vildi sagt hafa – í þessum fréttatíma var rætt við nokkra vegfarendur úti á götu í Budapest, höfuðborg Ungverjalands.

Þeir voru ekki mjög margir – en allir voru á einu máli um að þeir styddu Viktor Orbán í hvívetna.

Ekki út af neinu sérstöku, svo ég heyrði, heldur bara út af því að „hann er sá eini sem getur komið okkur út úr þessum öldudal, hann er sá eini sem ræður við vandamálin, hann er sá eini sem getur stjórnað okkur“.

Nú ætla ég ekki að þykjast neitt voðalega mikið til í Ungverjalandi.

Ég veit þess vegna ekki vel hvort Orbán er að einhverju leyti hæfur stjórnandi – burtséð frá hinum afar óþægilegu einræðistilhneigingum hans.

En mér fannst þetta hrollvekjandi sönnun þess hve stutt virðist alltaf í þrána eftir STERKA MANNINUM í sál manneskjunnar – þegar eitthvað bjátar á.

Það fara svo sorglega margir að leita að þeim sem á að KOMA OG BJARGA OKKUR.

Og það getur tekið ótrúlega skamman tíma þangað til jafnvel víðsýnt og gáfað fólk er farið að taka undir að þó STERKI MAÐURINN sé kannski dálítið fyrirferðarmikill, þá verði að láta sér það lynda því HANN SÉ SÁ EINI sem geti kippt hlutunum í lag.

Ungverjar virtust illa haldnir af þessu.

En þetta er að sjálfsögðu úr sögunni hjá okkur, er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!