Miðvikudagur 25.01.2012 - 12:21 - FB ummæli ()

Minni samgöngur milli lands og Eyja!

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur þungar áhyggjur af stöðugum ferðalögum íslenskra embættismanna til Brussel.

Þetta er afar umdeilanlegt sjónarmið, eins og til dæmis kemur fram hér.

Og vissulega virðist það nokkuð sérkennilegt, viðhorf Ögmundar í garð embættis- og stjórnmálamanna sem halda á málum Íslands í útlöndum.

Og Egill Helgason bendir hér á að Norðmenn, samherjar okkar í EES, telji bráðnauðsynlegt að hafa góð og mikil samskipti við ESB í Brussel.

Þeir hafa bersýnilega ekki áhyggjur af því að „ánetjast“ eins og Ögmundur orðaði það svo skemmtilega.

Ögmundur var aftur á móti að skrifa undir samning við forráðamenn Vestmanneyinga sem mun stórbæta samgöngur milli lands og Eyja.

Sjá hér.

Þá er spurningin: Er það endilega mjög sniðugt fyrir Eyjamenn?

Munu forráðamenn þeirra ekki bara sífellt fleiri og fleiri ferðir til Reykjavíkur og halda þar til á kostnað bæjarins? Og fólkið ánetjast þannig meginlandinu, enda heillandi að fara fleiri og fleiri ferðir og fá jafnvel dagpeninga í hvert skipti.

Nei, væri ekki Eyjamönnum fyrir bestu að hafa sem minnstar samgöngur við meginlandið?

Þannig geta þeir haldið árunni hreinni, rétt eins og Ögmundur vill að við Íslendingar í heild gerum gagnvart Evrópusambandinu.

Þetta er náttúrlega hótfyndni.

En er fullyrðing Ögmundar um embættismennina með Brusselveikina það ekki líka?

Að minnsta kosti er hún varla sæmandi fyrir ráðherra í ríkisstjórn – mann sem sjálfur stýrir fjölda embættismanna sem eru á ferð og flugi, landi og þjóð vonandi til heilla, og hefur jafnvel sjálfur orðið ber að því að skjótast stöku sinnum uppí flugvél.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!