Sunnudagur 26.02.2012 - 14:04 - FB ummæli ()

Búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað

Veturinn 2008-2009 fór gremja í samfélaginu sívaxandi.

Hrunið hafði orðið um haustið, og það varð æ augljósara að það myndi valda miklum búsifjum í samfélaginu næstu árin.

Á sama tíma lét ríkisstjórn Geirs Haarde eins og ekkert væri, og það væri bara eðlilegasti hlutur í heimi að hún sæti sem fastast, og allt hennar fólk.

Það var eiginlega ótrúlegt að horfa upp á hve þetta fólk var óforskammað með því að líma sig við sína valdastóla.

Mótmæli brutust út öðruhvoru, bæði í kringum laugardagsfundi Harðar Torfasonar og ýmis önnur tækifæri.

Í lok janúar, þegar þing kom saman að nýju eftir langt og gott jólafrí, og hófst handa um að ræða hina ódauðlegu tillögu Sigurðar Kára um að selja brennivín í matvörubúðum, þá var fólki nóg boðið.

Þá var mér að minnsta kosti nóg boðið.

Ég fór á Austurvöll til að taka þátt í mótmælum við þingsetningu.

Það var strax auðfundið að það bjó gífurlegur kraftur og gífurleg gremja í mótmælendum.

Andrúmsloftið beinlínis kraumaði.

Fólk ætlaði einfaldlega ekki að láta bjóða sér þessa svívirðu lengur – að hrunstjórnin sæti enn, og hennar fylgifiskar í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

Það var enginn að hugsa um nýja valdhafa, eða hverjir ættu síðan að setjast í stjórn – það var einfaldlega reiði í garð hrunvaldanna sem stýrði þessum mótmælum.

Mótmælin stóðu í viku, og enduðu með því að ríkisstjórnin fór loks frá.

Þessa viku gekk á ýmsu.

Mótmæli voru prjónuð af fingrum fram, og fóru stigvaxandi.

Sumir mótmælendur gengu of langt, og stundum gekk lögreglan of langt – einkum fyrstu dagana þegar mestur taugaóstyrkur réði ríkjum.

En á heildina litið héldu báðir aðilar stillingu sinni, svo að aðdáunarvert mátti heita.

Því það hefði svo sannarlega getað soðið illilega upp úr þegar æsingurinn var mestur.

Þessa viku lærði ég að bera óblandna virðingu fyrir Geir Jóni Þórðarsyni yfirlögregluþjóni sem fór fyrir aðgerðum lögreglunnar.

Hann lét ekki sinn hlut í skiptum við mótmælendur, en sýndi líka lipurð og skilning þegar svo bar undir.

Þetta var snaggaralega gert hjá Geir Jóni.

Þeim mun dapurlegra þykir mér nú að hann skuli tromma upp í útvarpinu og staðhæfa fullum fetum að þessum mótmælum, búsáhaldabyltingunni, hafi verið „stjórnað af alþingismönnum“.

Ég er eiginlega alveg dolfallinn.

Af því ég var á staðnum.

Og ég var ekki og er ekki strengjabrúða nokkurs manns.

Ef ég hefði orðið var við einhverja minnstu stjórn utan frá, hvaðan sem hún hefði komið, þá hefði ég látið mig hverfa á stundinni.

Ég vona að þeir sem þekkja mig geti vottað um að það er rétt.

Og ég varð ekki var við að nokkur annar á Austurvelli lyti stjórn nokkurs manns – allra síst alþingismanns.

Stundum sáust einstaka þingmenn Vinstri grænna á Austurvelli eða úti í glugga.

Væntanlega hafa þeir verið sammála mótmælendum – að ríkisstjórnin ætti að fara frá.

En ég varð ekki var við að þessir þingmenn nytu sérstakrar virðingar mótmælenda.

Mér fannst reyndar að þeir ættu ekki að skipta sér af, og ég held að flestum öðrum á Austurvelli hafi fundist það líka.

Enda stóðu þeir stutt við.

Geir Jón Þórðarson er nú kominn í pólitík. Hann hefur boðið sig fram í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og á grundvelli þeirrar virðingar sem hann aflaði sér í búsáhaldabyltingunni hefði ég alveg getað hugsað mér að styðja hann.

En ekki lengur.

Því þessi fullyrðing Geir Jóns er röng.

Alröng.

Búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað.

Kannski er hægt að finna einhver dæmi um að einhverjir þingmenn hafi talað við einhverja mótmælendur í síma.

Það getur vel verið – ég væri nú satt að segja undrandi ef ekkert slíkt hefði átt sér stað þessa viðburðaríku daga.

En ég ítreka – ég var á staðnum, og þeirri miklu reiði sem ríkti á Austurvelli og braust út í búsáhaldabyltingunni var ekki stýrt af neinum þingmönnum.

Og ég er satt að segja verulega gramur í garð Geir Jóns og annarra sem vilja halda þessari vitleysu fram.

Þetta er greinilega fólk sem ekki trúir því að neitt geti verið sjálfsprottið meðal fólksins sjálfs, eða einstaklinganna.

Öllu hljóti að vera stjórnað úr einhverjum reyklausum bakherbergjum.

En búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað.

Svo einfalt er það.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!