Miðvikudagur 23.05.2012 - 21:34 - FB ummæli ()

Ég vil fá að svara því sjálfur

Á morgun verða greidd atkvæði um það á þingi hvort draga eigi til baka umsókn að aðild að Evrópusambandinu.

Atkvæðagreiðslan snýst reyndar um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina, en við vitum öll hvað býr að baki – að efla svo andstöðu gegn ESB með áhrifaríkri kosningabaráttu að meirihlutinn greiddi því atkvæði að draga umsóknina til baka.

Ég hef vitanlega ekkert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en tímasetningar skipta máli – og tímasetningin í þessu tilfelli væri mjög furðuleg.

Og ég ætla að biðja þingmenn að hafa eitt í huga.

Það er fullkomlega gilt og virðingarvert sjónarmið ef menn eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Því vafalaust myndi aðild hafa einhverja galla í för með sér.

En aðild myndi líka hafa marga kosti í för með sér.

Og nú er hafið ferli til að komast að því hvort kostirnir eða gallarnir vegi þyngra.

Það er spurning sem ég vil fá svar við.

Sem ég vil að endingu fá að svara sjálfur.

Ég vil ekki að Ögmundur Jónasson eða Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, eða þá Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svari þeirri spurningu fyrir mig.

Og jafnvel ekki Jón  Bjarnason.

Evrópusambandið gengur nú í gegnum erfiðleika – en þegar við munum standa frammi fyrir spurningu um aðild, þá verða þeir erfiðleikar að baki.

Annaðhvort verður sambandið þá sterkara – eða veikara – en það er fráleitt að ætla að meta það núna hvernig því muni reiða af.

Hefðum við viljað að allsherjar mat væri lagt á framtíðarmöguleika Íslands í október 2008?

Nei, við skulum halda áfram samningum, og meta það síðan í rólegheitum hvort Evrópusambandið verður eftirsóknarverður félagsskapur þegar þar að kemur.

Ekki hætta við í miðju kafi – sem mun aðeins verða til að auka deilur og togstreitu í landinu næstu áratugi.

Því hvað sem göllunum líður – þá eru kostirnar af aðild að ESB svo miklir (nema svo einstaklega ólíklega fari að sambandið beinlínis hrynji, en það verður þá komið í ljós á 1-2 misserum) að við eigum rétt á að fá að skoða þá í rólegheitum og taka afstöðu til þeirra.

Reynum því að gera þetta vel, og með hægð, og með yfirvegun – rjúkum ekki til í hugaræsingi og sviptum okkur sjálf möguleika sem hugsanlega gæti bætt samfélagið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!