Föstudagur 15.06.2012 - 22:12 - FB ummæli ()

Lúffið ekki!

Ríkisútvarpið segir að ekkert samkomulag hafi enn verið gert um þinglok.

Ég ætla rétt að vona ekki.

Því ef slíkt samkomulag felur í sér að hætt verði við rannsókn á einkavæðingu bankanna, endurskoðun fiskveiðipólisíunnar verði lokuð inní skáp, þá lýsi ég fullkomnu frati á slíkt samkomulag.

Þá tek ég undir hvert orð sem Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar segir hér.

Og sömuleiðis það sem Agnar Kristján Þorsteinsson segir hér í þessu bréfi sem hann hefur sent þingmönnum stjórnarflokkanna.

Við stjórnarþingmenn segi ég aðeins þetta:

Þið eruð kosin á þing til að ljúka tilteknum verkefnum.

Þið eruð ekki kosin til að láta undan taumslausri frekju Málþófsflokksins og Andsvaraflokksins.

Samkomulag er yfirleitt gott – en aðeins ef báðir aðilar vilja gera slíkt samkomulag.

Í þessu tilfelli væruð þið bara að lúffa.

Ljúkið ykkar verkefnum – þið hafið öll tól og tæki til þess.

Tröll hirði ykkar sumarfrí – rétt eins og tröll hafa alltaf hirt mín sumarfrí ef ég á einhverjum verkum ólokið.

Að svo mæltu tek ég mér það bessaleyfi að birta hér orðrétt bréfið sem Agnar Kristján sendi þingmönnum.

Ég tek undir nánast hvert orð.

 

 

“Sæl verið þið,

Það eru ömurleg tíðindi sem berast af þingi um að stjórnin hafi ákveðið að lúffa fyrir fantaskap Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarmannana þeirra.

Og ekki nóg með það heldur sé ætlun ykkar að slaufa af rannsókn á einkavæðingu bankanna, breytingar á kvótakerfi verða settar í hendurnar á fjórum mönnum í stað þess að láta alla flokka á þingi koma nálægt breytingum og/eða standa við upprunalegt loforð um fyrningarleið eða aðrar breytingar sem hnekkt hefðu ofurvaldi kvótagreifanna yfir íslensku samfélagi.  Væntanlega í meðförum þessara fjögurra aðila mun ekkert verða úr breytingum á kvótakerfinu til hins betra og munu þær daga upp líkt og tilraunir til stjórnarskrárbreytinga í gegnum tíðina, hvað þá að þetta tækifæri muni koma aftur.

Fjandakornið hafi það, það er alveg þessvegna hægt að afhenda kvótagreifunum formlega völdin núna því þeirra vilji er greinlega ofar þjóðþinginu fyrst þið lúffið nú fyrir þeim.

Ekki nóg með það heldur ætlið þið einnig að gefa eftir rammaáætlun sem beðið hefur verið eftir afgreiðslu á og væntanlega þá fara eftir vilja álgreifanna í haust þegar kemur að afgreiðslu hennar þ.e. ef hún verður nokkurn tímann afgreidd .

Hvað eruð þið að hugsa eiginlega? Hversvegna sjáið þið ekki það sem flestir sjá að þið eruð að láta undan ofbeldi skólafanta sem telja sig eiga leikvöllinn og hafa réttinn til þess að stela nestinu, berja á minnimáttar og haga sér eins og dólgar í kennslustundum?

Þið eigið ekki að láta vaða svona yfir ykkur því þetta fólk ef fólk má kalla, er fyrir löngu komið út fyrir línuna sem telst eðlilegt í málþófi. Það er fantast á ykkur af frekju og þið gefið eftir í anda Chamberlaínískrar friðþægingarstefnu í stað þess að segja að nóg sé komið og grípa til 64. greinar þingskapalaga.

Semsagt, láta sverfa til stáls og koma á aga hjá því ofbeldisfólki hægri öfganna sem ráða för innan skólaleikvallarins sem Alþingi er.

Ok, þið munuð örugglega fá einhvern skít á ykkur fyrir að gera það og áróðursmaskínur öfgahægrisins í Hádegismóum og AMX munu flippa yfir í skítkastinu en gjaldið sem þið greiðið nú fyrir þessa friðþægingu gagnvart þessum öflum er of hátt.

Og mun verða hærra í haust þegar þeir endurtaka leikinn gagnvart ykkur aftur og aftur þar sem þið gefið eftir í hvert einasta sinn.

Takið því ykkur tak, slítið þessu samkomulagi og klárið fyrirliggjandi mál með 64. greininni ef þörf krefur gegn þessu liði sem neitar að viðurkenna eigin ábyrgð á Hruninu.

Afrit sent á óháða þingmenn sem fengu ekki að vera memm.

Kveðja,

Agnar Kristján Þorsteinsson

P.S. Hvenær hefst svo rannsókn á Magma-málinu og ÖLLUM störfum einkavinavæðingarnefndar? Það er nefnilega svo margt rotið í þeim málum.

P.S.S. Eruð þið ekki svo til í að hjóla í bankaleyndina, fjármagnsflutninga til skálkaskjóla og annað sem skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi felur sig á bak við?”

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!