Miðvikudagur 18.07.2012 - 08:11 - FB ummæli ()

Fordómar og tjáningarfrelsi

Hannes Hólmsteinn Gissurarson kenndi mér einu sinni sögu í Menntaskólanum í Reykjavík. Það er langt síðan en hann er þó stundum enn í dag að reyna að setja mér hitt og þetta fyrir, og vill ráða því hvaða málefni samfélagsins ég fjalla um opinberlega.

Ég mun að sjálfsögðu ekki fara eftir því. Það er nú algjört lágmark að maður fái að velja sér sín hugðarefni sjálfur.

Aftur á móti er best að þiggja ráðleggingar Hannesar í þessari grein hér.

Þar mælist hann til þess að ég hafi skoðun á brottrekstri Snorra Óskarssonar úr stöðu barnakennara á Akureyri vegna skoðana hans á samkynhneigð.

Ég get vel viðurkennt að þetta mál hefur vafist svolítið fyrir mér.

Í aðra röndina þykir mér ekkert mjög óeðlilegt að meiri kröfur séu gerðar til þeirra sem kenna börnunum okkar en annarra um að útbreiða ekki hatursáróður.

Ef Snorri í Betel hefði keyrt öskubíl Akureyrarbæjar hefði að sjálfsögðu verið forkastanlegt að láta hann fara úr starfi vegna skoðana sinna.

Að hann skuli vera barnakennari er hins vegar öllu verra. Nú hljótum við að gera ráð fyrir því að Snorri hafi ekki verið að messa um sína guðstrú yfir börnunum, en eigi að síður er það væntanlega ansi óþægilegt fyrir ungan samkynhneigðan nemanda að sækja tíma hjá kennara sem nemandinn veit að telur samkynhneigða setta undir dauðasök.

Þó svo tímarnir séu bara í reikningi eða einhverju þess háttar.

Kennarinn er samt í valdastöðu gagnvart nemandanum, stöðu sem sýnir að samfélagið tekur mark á honum og treystir honum.

Og í því tilfelli finnst mér að réttur nemandans sé meiri en kennarans.

Þá á ég líka í raun og veru mjög erfitt með að líta svo á að fordóma, hatur og fyrirlitningu í garð samkynhneigðra eigi menn  að líta á sem einhverja réttmæta „skoðun“ sem eigi fyrirvaralaust að verja í nafni tjáningarfrelsis.

Og ég skammast mín ekki hót fyrir að viðurkenna það.

Og verð að segja að mér þykir ansi klént hjá mínum gamla kennara að gefa í skyn að gamaldags forstokkaðir fordómar sem tók mörg þúsund ár að kveða nokkuð í kútinn útheimti frelsi til að hugsa öðruvísi!!!

En hitt verð ég líka að viðurkenna, að ef Snorri hefur verið rekinn einvörðungu fyrir þau ummæli sem Hannes tilgreinir í pistli sínum (sem ég veit ekki almennilega), þá virðist sú brottrekstrarsök ærið vafasöm.

Ef hún er sem sagt eingöngu þessi hér:

„Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Þetta er bara lýsing á afstöðu tiltekinna kristinna hópa (og líka til dæmis kaþólsku kirkjunnar).

Ég gæti alveg hafa skrifað þessi orð sjálfur, til dæmis í útvarpsþætti um öfgatrúarhópa.

Sjálfsagt hefur samhengið hjá Snorra í Betel verið töluvert mikið annað en það hefði verið hjá mér, en nákvæmlega þessi orð eru bara lýsing, ekki staðhæfing.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!