Mánudagur 30.07.2012 - 16:52 - FB ummæli ()

Er hin mikla framsýni Kínverja bara misskilningur?

Kínverjar hugsa ekki í árum, þeir hugsa í öldum.

Þennan frasa hefur hver étið eftir öðrum á Vesturlöndum upp á síðkastið. Frasanum er ætlað að sýna hvað Kínverjar séu miklu útspekúleraðri en hinir skammsýnu Vesturlandamenn.

Og því mikil ástæða fyrir okkur að passa okkur.

Jafnan þegar þessi frasi berst í tal, þá dúkkar upp sama frásögnin.

Um Sjú En-laí sem var forsætisráðherra Kína í grilljón ár á tímum Maós formanns.

Þegar Nixon Bandaríkjaforseti kom til Kína árið 1972 er sagt að annaðhvort hann eða einhver aðstoðarmanna hans hafa verið að spjalla við Sjú og meðal annars spurt hver væri skoðun hans á áhrifum frönsku byltingarinnar á framvindu mála í Evrópu.

Og Sjú En-laí hugsaði málið andartak en sagði svo: „Það er of snemmt að segja til um það.“

Þetta hefur altso verið talið frábært dæmi um hina miklu framsýni og djúpa sögulega vitund Kínverja. Franska byltingin braust út 1789 svo þarna voru liðin tæp 200. Samt vildi Sjú ekki leggja endanlegan dóm á áhrif hennar.

Ég var að spekúlera í þessu á Facebook áðan. Þá benti Gunnar Hrafn Jónsson mér á það sem ég vissi ekki, að það er nýlega komið upp úr dúrnum að þessi frægu orð Sjú En-laí byggðust á tómum misskilningi.

Hann átti nefnilega ekki við frönsku byltinguna 1789, heldur rósturnar sem urðu í París 1968 milli stúdenta annars vegar og lögreglunnar hins vegar.

Í blaðinu Financial Times birtist þann 10. júní síðastliðinn svohljóðandi frásögn blaðamannsins Richard McGregors:

„Á málstefnu í Washington um nýja bók [Henry] Kissingers, On China, reyndi Chas Freeman, fyrrverandi starfsmaður utanríkisþjónustunnar að leiðrétta hið langlífa ranghermi.

„Ég man vel eftir þessum samræðum. Þetta var misskilningur sem var of skemmtilegur til að vera leiðréttur,“ sagði Freeman.

Hann sagði að Sjú hefði orðið ringlaður þegar hann var spurður um frönsku byltinguna og Parísarkommúnuna. „En þetta voru nákvæmlega þau hugtök sem stúdentar notuðu til að lýsa því sem þeir stóðu í 1968, og þannig skildi Sjú líka þessi orð.“

Geremie Barme frá Þjóðarháskóla Ástralíu sagði að tilvitnunin í orð Sjús hefði passað fullkomlega við þá skoðun sem útbreidd er á Vesturlöndum um „austræn undirferli“ sem hugsi langt fram í tímann og séu „óhemju djúpskreið“. En í Kína sé aftur á móti talað um að stjórnvöld séu skammsýn, skelfilega praktísk og fari allt annað en fínlega í hlutina.“

Doktor Barme bætti við kínverskir heimildarmenn með aðgang að skjölum utanríkisráðuneytisins í Beijing segi að samkvæmt skjölunum sé enginn vafi á að Sjú hafi verið að tala um uppþotin 1968.

Kínverskar heimildir sýni fram á að samtal Sjú hafi verið við Henry Kissinger.

Talskona doktors Kissingers segir að „hann muni þetta ekki nákvæmlega en skýring Freemans virðist mun meira sannfærandi“.

Aðgæsla Sjús í orðavali endurspeglaði líka stórhættulegt pólitísk andrúmsloftið í Bejing á þeim tíma [menningarbyltingarinnar] og forsætisráðherrann hefði aldrei hætt á að fella dóma um þá róttæku frönsku maóista sem höfðu sig í frammi í óeirðunum í París.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mistúlkun á orðum kínversks leiðtoga hefur fest rætur í vitund fólks á Vesturlöndum.

Því er oft haldið fram að Deng Xiaping, sem hleypti markaðsumbótum Kínverja af stað, hafi sagt: „Að verða ríkur er stórfenglegt“, en í reynd finnast engar heimildir fyrir því að hann hafi sagt það.

Þá er oft sagt að í Kína sé algeng bölbæn: „Megir þú lifa á áhugaverðum tímum“, en þessi bölvun er ekki til í Kína, segja fræðimenn.“

Svo mörg voru þau orð í FT. Orð Sjús voru sem sagt ekki til vitnis um visku hans og djúphygli, heldur bara varkárni í að fella dóm um atburði sem urðu fyrir 3-4 árum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!