Sunnudagur 12.08.2012 - 09:22 - FB ummæli ()

Að velta um borðum víxlaranna eða flytja pönkbæn í dómkirkju

Ekki vilja allir láta mikið að sér kveða við að mótmæla meðferð rússneskra yfirvalda á pönkhljómsveitinni Pussy Riot. Sumir segja sem svo að þótt stúlkurnar í hljómsveitinni verðskuldi kannski ekki margra ára fangelsi, þá verði ekki framhjá því litið að þær hafi svívirt einlæga guðstrú fjölda fólks með uppistandi sínu í dómkirkjunni í Moskvu. Og fótumtroðið alla góða siði.

Það sé skiljanlegt að trúuðum Rússum sé heitt í hamsi.

Og það er nú það.

Þótt ótrúlegt megi virðast er alls ekki á hreinu fyrir hvað Jesúa frá Nasaret var krossfestur af Rómverjum á sínum tíma, líklega eftir hvatningu æðstupresta Gyðinga í Jerúsalem.

Hann var þó að minnsta kosti alls ekki líflátinn fyrir kærleiksboðskap sinn. Þótt kærleiksboðskapur Jesúa væri vissulega fallega orðaður var ekkert frumlegt eða merkilegt við hann. Fjöldi fólks í mörgum löndum hafði áður kennt allt það sem Jesúa kenndi.

Og yfirvöld höfðu ekkert á móti slíkum boðskap, nema síður væri. Hvorki Rómverjar né Gyðingar.

Hann var heldur ekki tekinn af lífi fyrir að brjóta lögmál Gyðinga. Það er jú haft eftir honum að hann hafi ekki komið til að brjóta lögmálið, heldur uppfylla það – og það er ekkert ólíklegt að hann hafi í rauninni sagt eitthvað mjög í þá áttina.

Og hann var alveg áreiðanlega ekki handtekinn og krossfestur fyrir að lýsa því yfir að hann væri sonur guðs. Í fyrsta lagi er vafasamt að hann hafi í rauninni sagt eitthvað þvíumlíkt – nema þá í mjög almennri merkingu. Í öðru lagi höfðu Gyðingar heyrt annað eins án þess að krefjast þess að menn væru teknir af lífi. Og í þriðja lagi hefði Rómverjum staðið hjartanlega á sama. Þeir höfðu engan áhuga á guðfræðilegri þrætubók hinna ýmsu trúarhópa og prédikara Gyðinga.

Og hvað stendur þá eftir? Hver var hin raunverulega dauðasök Jesúa frá Nasaret?

Jú, athyglin hlýtur að beinast mjög að uppákomunni í musterinu. Svona er sagt frá henni í guðspjallinu, sem kennt er við Matteus:

„Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,’ en þér gjörið það að ræningjabæli.““

Þessi atburður er í rauninni ansi einkennilegur. Peningavíxlararnir og dúfnasalarnir höfðu nefnilega mjög mikilvægu hlutverki að sinna í musterinu.

Gyðingar sem búsettir voru í öðrum löndum og komu í pílagrímsferð til Jersúsalem þurftu að færa guði fórnir. Til dæmis og ekki síst dúfur. Hinir útlensku peningar þessara aðkomumanna voru hins vegar taldir „óhreinir“ og því sátu víxlarar í forgarði musterisins og skiptu útlensku peningunum í mynt sem æðstuprestarnir töldu guði þóknanlega. Þarna voru sem sé við lýði gjaldeyrishöft. Og hin guði þóknanlega mynt var svo notuð til að kaupa dúfur sem síðan voru drepnar á altari guðs.

Það var í öllu falli ekkert óeðlilegt við nærveru víxlara og kaupmanna, og í raun illskiljanlegt að Jesúa hafi ráðist að þeim og velt um borðum þeirra.

Kannski hefur hann staðið einhvern þeirra að því að reyna að svindla á aðkomumönnunum, hvað veit maður? En þeir bæði máttu og áttu að vera þarna – það vissu allir trúaðir Gyðingar.

Kannski leit Jesúa á þetta sem einhvers konar gjörning.

Hvað sem því líður er ekki vafi á því að rétttrúuðum Gyðingum, sem urðu vitni að brambolti Jesúa í hinu ginnheilaga musteri, hefur þótt hann svívirða einlæga trú sína og fótumtroða alla góða siði.

Í raun er langlíklegast að þetta pönk Jesúa í musterinu hafi ráðið úrslitum um að æðstuprestarnir vildu láta refsa honum harðlega. Og að Rómverjum hafi þótt hann slík ógn við allsherjarreglu að réttast væri að krossfesta hann bara.

Ég ætla ekki að líkja stelpunum í Pussy Riot við Jesúa frá Nasaret að öðru leyti.

En mér sýnist óneitanlega að glæpur beggja sé, að breyttu breytanda, býsna svipaður.

Uppistand á svokölluðum helgum stað. Móðgun við einlæga trúarvitund tiltekins hóps.

Og þá þarf auðvitað ekki að orðlengja hvað það er sárgrætilegt að nú sé búið að smíða svo mikinn kumbalda kringum guðdóm Jesúa frá Nasaret, að gott og trúað fólk telji jafnvel eðlilegt að refsa eigi nokkrum kátum stelpum stranglega fyrir ósköp sambærilegan hlut og meistarinn frá Nasaret var krossfestur fyrir.

Ef eitthvað er, þá gekk Jesúa töluvert lengra.

Sjá hér.

Stelpurnar í Pussy Riot eru svo hérna.

Á föstudaginn kemur verða mótmæli við rússneska sendiráðið í Reykjavík. Sjá Facebook-síðu mótmælanna hér.

Allir ættu að mæta sem láta sig mannréttindi varða.

Ekki síst trúað fólk sem metur fordæmi meistara síns mikils.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!