Fimmtudagur 06.09.2012 - 08:26 - FB ummæli ()

Orðstír deyr aldregi

Ekki hefur orðstír Gunnlaugs M. Sigmundssonar vaxið í mínum augum eftir málaferli hans gegn Teiti Atlasyni.

Sumt í málflutningi Gunnlaugs er með furðulegum ólíkindum.

Hann heldur því til dæmis fram að hann hafi litið svo á að viðtal sem Mogginn tók við hann eftir greinar Agnesar Bragadóttur hafi verið ígildi afsökunarbeiðni!

Sjá hér.

Það er vægast sagt mjög einkennilegur skilningur á fjölmiðlun.

Og ef marka má Fréttablaðið í morgun virðist Gunnlaugur beinlínis hafa logið fyrir dómi í gær.

(Ég nenni ekki að segja „farið frjálslega með staðreyndir“ en það er það sem átt er við!)

Fréttablaðið hafði á sínum tíma tekið viðtal við Gunnlaug vegna málshöfunar hans gegn Teiti og þar sagði Kögunarmeistarinn að mál Teits væri „eitt allsherjarbull í gölnum manni“.

Fyrir dómi í gær sagði Gunnlaugur hins vegar að um óformlegt spjall við blaðamann hefði verið að ræða, ekki viðtal, hann hefði aldrei veitt leyfi fyrir því að eitthvað yrði haft eftir honum, og loks að hann hefði aldrei kallað Teit „galinn mann“ heldur sagt að hann hafi „hegðað sér eins og galinn maður“.

Fréttablaðið segir í morgun að þetta sé vitleysa í Gunnlaugi.

Upptaka af samtali blaðamanns við hann sé til. Þar kynni blaðamaður sig sem slíkan, ræði síðan við Gunnlaug um málshöfðun hans án þess að nokkurn tíma örli á fyrirvara hjá Gunnlaugi um að birta megi eitthvað úr samtalinu, og samtalið sé nákvæmlega – það er að segja orðrétt – eins og það var birt í blaðinu.

Gunnlaugur gallaði Teit sem sagt galinn mann, en reyndi svo að þræta fyrir það fyrir dómi í gær. Orðstír hans vex reyndar og vex.

En kannski ekki endilega í rétta átt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!