Fimmtudagur 06.09.2012 - 20:53 - FB ummæli ()

Spádómur

Fyrsta platan sem ég keypti mér um ævina var Blood On The Tracks með Bob Dylan.

Eitt af helstu meistaraverkum hans.

Næstu tvær plötur á eftir, Desire og Street-Legal, voru líka fínar, jafnvel sú seinni. Og ég útvegaði mér flestar af eldri plötunum hans. Við Dylan fylgdumst vandlega að í lífinu í mörg ár.

Svo rofnaði kunningsskapurinn eins og gengur og gerist. Ég hætti að flýta mér út í búð eftir nýjum plötum hans, þó alltaf hafi verið þar nokkur frábær lög og ljóð innan um.

Nú í fyrsta sinn í áratugi bregður svo við að ég beinlínis hlakka til þegar næsta Dylan-plata kemur út, þann 11. september. Hún á að heita Tempest og margir óttast að hún verði síðasta platan hans.

Af því The Tempest var síðasta leikrit William Shakespeares.

Aldrei þessu vant hefur Dylan sleppt lausum á netið tveimur lögum af nýju plötunni og þau lofa góðu.

Einkum Duquesne Whistle – bráðskemmtilegt en undirtóninn er þyngri en ætla mætti, eins og raunar má sjá af því áhrifaríka vídeói sem fylgir laginu. Ungur maður verður skotinn í stelpu en við tekur furðu grimmilegt ofbeldi.

En á meðan gengur Dylan sjálfur undarlega áhugalaus um götur með skemmtilega hirð sína.

Ég ætla að spá því að hann hafi þessa hirð með sér þegar hann fer í desember að taka á móti Nóbelsverðlaununum sem ég hef ákveðið að sænska akademían muni veita honum í haust.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!