Mánudagur 24.09.2012 - 18:01 - FB ummæli ()

Hvað er svona hættulegt?

Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri og leiðarahöfundur spyr nokkurra spurninga um stjórnarskrármálið, sem ég leyfi mér að birta hér í heild.

Því þetta eru allt spurningar sem ég hef sjálfur glímt við:

„Þeir sem eru spurðir, fá tækifæri til að hugsa, móta afstöðu, taka ákvarðanir, taka ábyrgð, gera mistök, læra af mistökunum og þroskast. Þeir sem eru aldrei spurðir, aldrei treyst og allt er ákveðið fyrir þá, eru líklegri til að læra hjálparleysi, uppgjöf og fylgisspekt, frekar en gagnrýna hugsun og virka þátttöku.

Hvað er svona slæmt við það að Íslendingar fái að kjósa um nýja stjórnarskrá?

Hvers vegna er kvartað svona mikið yfir því að almenningur hafi fengið að kjósa beint fulltrúa utan stjórnmálaflokkanna til þess að skrifa stjórnarskrá eftir forskrift þjóðfundar?

Hvað er svona sjálfsagt við það að stjórnmálamennirnir skrifi stjórnarskrána fyrir okkur hin? Hvers vegna er Sjálfstæðisflokkurinn að skrifa sína eigin stjórnarskrá í Valhöll?

Hvers vegna eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að reyna að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna?

Hvers vegna vilja þeir ekki treysta almenningi til að taka ákvörðun um sína eigin hagsmuni? Óttast þeir að hagsmunir allra verði ofan á, í staðinn fyrir hagsmuni sumra?

Hvers vegna töluðu þeir í 50 klukkutíma um það, hvort almenningur fengi að kjósa um stjórnarskrána 20. október?

Af hverju finnst Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að tíðarandinn á Íslandi sé of „hættulegur“ til þess að það henti að kjósa um stjórnarskrá? Lýðræði hverra bannar að fólkið ráði nema stjórnmálamennirnir séu sammála niðurstöðunni?

Af hverju vill forseti Íslands ekki leyfa almenningi að kjósa um stjórnarskrána nema stjórnmálaflokkarnir séu sammála því, en vill samt láta kjósa um milliríkjadeilu sem stjórnmálaflokkarnir eru ósammála um? Hvað truflar hann við stjórnarskrá sem leyfir þjóðinni að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu án hans milligöngu? Hvernig getur hann sætt sig við stjórnarskrá sem var upphaflega skrifuð með forsetann sem konung?

Hvað er að því að lýðræðið stýri því hvort náttúruauðlindir séu þjóðareign, hvort kjósa megi persónur fremur en flokka, hvort almenningur geti sjálfur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort þjóðin eigi kirkju eða ekki?

Hverjir telja sér ógnað ef fólkið fær að ráða meiru? Hverjir ætla að sannfæra þig um að hætta við þetta?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!