Þriðjudagur 23.10.2012 - 09:19 - FB ummæli ()

Kjörsókn og sátt

Fáeinar athugasemdir

um þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardag

 

Í fyrsta lagi:

Kjörsókn var meiri og stuðningur við tillögur stjórnlagaráðs mun öflugri en flestir virðast hafa gert ráð fyrir.

Um það er engum blöðum að fletta.

Það er kjánalegt að gera lítið úr kjörsókninni. Miðað við allar forsendur málsins og borið saman við álíka atkvæðagreiðslur hér heima og erlendis, þá var kjörsóknin bara í góðu lagi.

Það er enn kjánalegra að gera því skóna að þeir sem sátu heima hefðu kosið á einhvern allt annan veg en hinir sem fóru á kjörstað.

Niðurstöður voru til dæmis í mjög góðu samræmi við síðustu skoðanakönnun sem gerð var um málið.

Ef eitthvað er, þá mætti kannski ætla að heldur fleiri sem hallir voru undir „nei“ hafi drifið sig á kjörstað en hinir, þar sem formaður stærsta stjórnmálaflokksins (í flokksmönnum talið) skrifaði hverjum einasta liðsmanni sínum og hvatti þá til að mæta á kjörstað og segja „nei“.

 

Í öðru lagi:

Vissulega er nú æskilegt að vinna að sem víðtækastri sátt um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Og vonandi gerist það í meðförum Alþingis.

Ef yfirferð lögfræðinga leiðir í ljós einhverja byggingargalla á verki stjórnlagaráðs er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að leiðrétta þá, og allar breytingar sem horfa til aukinnar nákvæmni og skýrari hugsunar verða vel þegnar.

Í þessu sambandi má rifja upp það sem stundum gleymist, að stjórnlagaráð kom jú saman nú á útmánuðunum að beiðni eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis og fór yfir fáeina staði í tillögum sínum, með tilliti til mögulegra breytinga. Væntanlega verður sú vinna nú skoðuð gaumgæfilega af Alþingi.

Og persónulega mundi ég vitaskuld fagna öllum tillögum, hvaðan sem þær koma, sem gætu bætt hið væntanlega stjórnarskrárfrumvarp.

Ég trúi því og treysti að þingmenn vinni saman að því í eindrægni og af hógværu hjarta.

Þingið þarf hins vegar auðvitað ekki að byrja efnislega umræðu frá grunni.

Sú umræða fór fram í stjórnlagaráði, og byggði á mikilli og vandaðri vinnu ýmissa stjórnarskrárnefnda gegnum tíðina, sem og á niðurstöðum Þjóðfundar og ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar. Að ekki sé minnst á tillögur og athugasemdir frá almenningi sem bárust meðan á starfinu stóð.

Og kjósendur hafa nú lýst því yfir að þeim lítist vel á tillögur ráðsins.

Sáttagrundvöllurinn er því þegar fyrir hendi.

Það er til dæmis ljóst að auðlindaákvæðið hlýtur að verða eins og stjórnlagaráð gekk frá því – það hlaut jú stuðning yfirgnæfandi meirihluta kjósenda.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!