Sunnudagur 04.11.2012 - 12:34 - FB ummæli ()

Nú er ég svoleiðis alveg hissa

Ekki ætla ég að þykjast vera mikill sérfræðingur um bandarísk stjórnmál.

En eitt vekur óneitanlega athygli mína.

Í efnahagsmálum tók Barack Obama forseti við mjög erfiðu búi frá fyrirrennara sínum, um það eru allir sammála. Hann þykir ekki hafa sýnt neina snilldartakta í efnahagsmálum, skilst mér, en ekki hefur þó verið bent á nein stórkostleg mistök sem forsetinn sjálfur hefur gert. Og nú á haustdögum berast ýmisleg jákvæð tíðindi úr efnahagslífinu.

Á sama tíma hefur mótframbjóðandinn Mitt Romney vissulega á sér dugnaðarorð sem fyrirtækjastjórnandi, en honum gengur illa að hrista af sér þá ásökun að efnahagspólitík hans verði fyrst og fremst fólgin í að lækka skatta á þá ríku – og láta verr statt fólk borga brúsann. Og upp á síðkastið hefur hann vakið athygli fyrir aka seglum ansi hressilega eftir vindi á þessu sviði.

Obama hefur hvergi nærri staðið undir þeim vonum sem bundnar voru við hann, einkum utan Bandaríkjanna sjálfra, um að hann mundi taka upp nýja utanríkisstefnu vestra. En hann hefur ekki gert nein áberandi glappaskot (frá sjónarmiði Bandaríkjamanna) og virkar varkár og íhugull. Og hann er augljóslega enn í töluverðum metum meðal annarra þjóðarleiðtoga.

Á sama tíma vekur Mitt Romney aðhlátur hvar sem hann fer í útlöndum, og ýmis stefnumál hans virðast áhættusöm og gætu hleypt Bandaríkjunum út í styrjaldir sem áreiðanlega enginn óskar eftir (nema vopnaframleiðendur).

Hvað sem mönnum kann að þykja um Obama, þá er hann gáfaður maður og vel meinandi – svona að því marki sem það hefur eitthvað að segja í embætti forseta Bandaríkjanna. Hann er nýbúinn að standa sig vel við að skipuleggja björgunarstörf eftir fellibylinn Sandy, og hlaut hrós fyrir úr ólíklegustu áttum.

Á sama tíma hefur Mitt Romney lýst opinberlega fyrirlitningu sinni á 47 prósentum Bandaríkjamanna, hann virkar tilbúinn til að láta undan öfgamönnum og þrýstihópum í mikilvægum mannréttindamálum og ríkidæmi hans og lifnaðarhættir ættu að hrinda stórum hluta alþýðunnar frá honum, heldur en hitt.

En að öllu þessu sögðu – og ég held að þetta sé ekkert mjög ósanngjörn lýsing, að minnsta kosti héðan frá séð – getur þá einhver útskýrt fyrir mér af hverju Obama forseti er ekki löngu búinn að rúlla upp þessum kosningum?

Af hverju Mitt Romney er enn ekki nema hálfu skrefi á eftir honum, og gæti meira að segja unnið?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!